Hús dagsins: Munkaþverárstræti 38

Árið 1942 fékk Sigurður Sölvason smiður leyfi til aðP2180736 reisa hús; ein hæð á kjallara úr steinsteypu og með járnklæddu valmaþaki á lóð við Munkaþverárstræti. Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson. Sú lýsing sem gefin er upp í lýsingu bygginganefndar á nokkurn veginn við húsið enn í dag, en það er klætt steiningu og með bárujárni á þaki og gluggar eru flestir þrískiptir með lóðréttum póstum. Horngluggar í anda funkisstefnu eru á suðausturhorni. Viðbygging, anddyri er á austurhlið, byggð eftir teikningum Magnúsar Ingólfssonar, en byggingarár hennar er ekki þekkt. Á norðausturhorni lóðar stendur bílskúr, reistur árið 1967 eftir teikningum Magnúsar Ingólfssonar.

Sigurður starfaði við smíðar húsbyggingar allan sinn starfsaldur, lengi vel í félagi við Óskar Gíslason en stofnaði um 1960, þá kominn vel á sjötugsaldur, eigið verkstæði. Elínborg var mjög virk í ýmsum félagsstörfum kvenfélaga, m.a. formaður Kvenfélagsins Hlífar um miðja 20. öld, um það leyti sem það kom á fót barnaheimili, Pálmholti, í efri byggðum Akureyrar. Mikið og þarft framtak hjá frú Elínborgu og Hlífarkonum og skemmst er frá að segja, að tæpum 70 árum síðar er enn starfræktur leikskólinn Pálmholt í þessum sömu húsakynnum. En það voru einmitt þeir Sigurður Sölvason og Óskar Gíslason sem stýrðu byggingu Pálmholts. Sigurður og Elínborg bjuggu hér allan sinn aldur, hún lést 1979 en hann 1986. Síðan hefur húsið líklega skipt nokkrum sinnum um eigendur en öllum hefur auðnast að halda húsinu vel við, en það virðist í býsna góðri hirðu. Steiningarklæðningin sem er utan á Munkaþverárstræti 38 og var mjög algeng var um og fyrir miðja 20. öld, er með eindæmum endingargóð og stundum sagt að hún sé „viðhaldsfrí“. Ein íbúð er í húsinu. Lóðin er einnig vel gróin og hirt, og eru þar nokkur stæðileg tré. Næsta lóð sunnan við, Munkaþverárstræti 36 hefur líkast til alla tíð verið óbyggð. Þar standa hins vegar miklar og stæðilega aspir, en lóðin liggur að austanverðu að lóðunum við Brekkugötu 33 og 37. Líkt og nærliggjandi hús er húsið hluti af samstæðri funkishúsaröð við Munkaþverárstrætið sem fær varðveislugildið 1 í Húsakönnun 2015. Myndin er tekin þann 18. feb 2018.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941- 48.  Fundur nr. 916, 26. júní 1942.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 37

Munkaþverárstræti 37, byggt 1941-42 er ysta húsið við austanverða götuna.P2180739 Lóðin er þríhyrnd , eða öllu heldur fleyglaga og liggur á mótum Munkaþverárstrætis og Helgamagrastrætis þar sem fyrrnefnda gatan liggur skáhallt til suðurs út frá þeirri síðarnefndu. Vesturmörk lóðarinnar liggur að Helgamagrastræti. Sumarið 1941 fékk Guðmundur Tómasson þessa lóð og hóf að byggja ( höfundur fann ekki byggingaleyfi í bókunum Bygginganefndar), ásamt lóð nr. 35 en í febrúar 1942 yfirfærir hann lóðina ásamt öllum réttindum  á nafn Sigurðar Einarssonar Hlíðar, dýralæknis, og mun hann hafa lokið við byggingu hússins. Alltént er nafn hans á raflagnateikningum  Þorsteins Sigurðssonar frá 1943. Ekki liggur hins vegar fyrir hver teiknaði húsið.

Munkaþverárstræti 37 er tvílyft steinsteypuhús í funkisstíl, með lágu bárujárnsklæddu bárujárnsklæddu valmaþaki og steiningu á veggjum. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og horngluggar til suðurs á báðum hornum og báðum hæðum. Útskot er til austurs norðanmegin á húsinu og í kverkinni á milli inngöngudyr á efri hæð og steyptar tröppur með tröppulaga handriði.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Á fimmta áratugnum var starfrækt í húsinu húsgagnavinnustofa sem kallaðist Nýja Bólsturgerðin en hana rak Ingimar Jónsson, hér búsettur. Í húsinu bjuggu um áratugaskeið Ásgrímur Stefánsson forstjóri klæðaverksmiðjunnar Heklu og kona hans Guðríður Adolfsdóttir.  Hekla, sem lengi var eitt af mörgum stórum iðnaðarfyrirtækjum á Gleráreyrum á síðari helmingi 20. aldar átti raunar uppruna sinn í prjónastofu sem þau Ásgrímur og Guðríður starfræktu er þau bjuggu í Hafnarstræti 13.  

Munkaþverárstræti 37 er traustlegt og vel við haldið hús enda það þótt muni nokkurn veginn óbreytt frá upphafi, á húsinu er t.a.m. nokkuð nýlegt þakjárn. Húsið er skv. Húsakönnun 2015 hluti varðveisluverðar, samstæðrar heildar funkishúsa við Munkaþverárstræti. Rekur það raunar endahnútinn á umrædda röð vestanmegin götunnar, en röð þessi er bæði löng og heilsteypt. Tvær íbúðir munu í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þ. 18. feb. 2018.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 916, 26. Júní 1942.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 35

Snemma sumars 1941 var nyrsti hluti Munkaþverárstrætis óbyggður, en 10. júní það ár fékkP2180735 Guðmundur nokkur Tómasson leigðar ystu lóðirnar við Munkaþverárstræti þar sem saman koma Helgamagrastræti og Munkaþverárstræti. Bókaði Bygginganefnd, að óvíst hvort hægt væri að leggja vatn að þessum lóðum. Ekki er hins vegar ólíklegt að fljótlega hafi að fengist úr því skorið því rúmum þremur vikum síðar eða þann 4. Júlí, Þjóðhátíðardag Bandaríkjanna, fékk Guðmundur byggingaleyfi á þessari lóð. Fékk hann að reisa íbúðarhús, 12x9m að grunnfleti, auk útskots 1x5,5m við norðausturhorn, ein hæð með „höllu“ þaki. Húsið byggt úr steinsteypu með kjallari undir hálfu húsinu. Fullbyggt var húsið árið 1942 en í millitíðinni hafði hús og lóð verið yfirfært á Tómas Steingrímsson, stórkaupmanns sem um áratugaskeið rak samnefnda heildverslun.

Sú lýsing, sem gefin er upp í bókun bygginganefndar á að mestu leyti við um húsið í dag. Í gluggum hússins eru einfaldir þverpóstar og þakpappi á þaki og steyptar tröppur upp að inngöngudyrum. Bílskúr fremst á lóð en þak hans er einnig verönd eða svalir. Húsið, sem hefur líkast alla tíða verið einbýlishús, var stækkað  til vesturs 1953-54. Var sú bygging reist úr r-steini og með timburþaki, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar. Fyrir þeirri framkvæmd Gísli Konráðsson frá Hafralæk í Aðaldal, lengi vel forstjóri Útgerðarfélags Akureyringa en hann  og kona hans Sólveig Axelsdóttir, bjuggu hér í þó nokkur ár. Árið 1966 var byggður bílskúr á lóðinni og steypt girðing ásamt tröppum upp að inngöngudyrum og upp á bílskúrsþak, þar sem var og er e.k. verönd.  Um áratugaskeið bjuggu í Munkaþverárstræti 35  þau Aldís Lárusdóttir og Richard Þórólfsson, skógerðarmeistari og lengi framkvæmdastjóri Iðunnar. Aldís eða Allý, starfrækti um langt árabil heilsuræktarstöð í húsinu.  Þau heiðurshjónin voru bæði afar ötul í starfi skátafélaganna og  St. Georgsgildisins um áratugaskeið, stjórnuðu skátasveitum og félögum og gegndu hinum ýmsum embættisstörfum.

Munkaþverárstræti 35 er reisulegt og glæst funkishús, og mun næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð. Það er hluti hinnar löngu og heilsteyptu funkishúsaraðar við vestanvert Munkaþverárstræti og skv. Húsakönnun 2015 fellur húsið í varðveisluflokk 1. Hvort tveggja, hús og lóð eru í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfi sínu. Myndin er tekin þann 18. Feb. 2018.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 877, 10. júní 1941, nr. 878, 4.júlí 1941, nr. 894, 29.des. 1941. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1169, 5. júní 1953. Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 34

Munkaþverárstræti 34 reisti Þórður V. Sveinsson árið 1943. P2180734Hann fékk haustið 1942 leyfi til byggingar húss, sem skyldi steinsteypt með steinlofti og járnklæddu timburþaki, tvær hæðir með kjallara undir 2/5 hluta hússins. Að grunnfleti skyldi húsið vera 13,6x12,25 m.ö.o. ívið stærra en flest húsin í nágrenninu, bæði að lengd og breidd. (Til samanburðar má nefna, að næsta hús sunnan við þ.e. nr. 32 mun vera 11,2x9,2m)  Þá var húsið frábrugðið næstu húsum að á því var risþak, þó húsið sé með einkennum funkisstefnunnar. Teikningarnar að húsinu gerði Gunnlaugur Halldórsson.

Munkaþverárstræti 34 er steinsteypuhús, tvílyft á lágum kjallara en líkt og gengur og gerist við Munkaþverárstrætið er nokkur hæðarmismunur á lóð, þ.a. neðri hæð hússins er að nokkru niðurgrafin að vestanverðu. Á húsinu er lágt ris, bárujárnsklætt en veggir eru múrsléttaðir. Einfaldir, lóðréttir póstar eru í flestum gluggum með opnanlegu þverfagi í neðra horni. Svalir til austurs eru á efri hæð. Á suðausturhorni eru horngluggar, í anda funkisstílsins en á suðurhlið eru einnig stórir gluggar innrammaðar í eins konar útskoti. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, þarna bjó áðurnefndur Þórður V. Sveinsson ásamt fjölskyldu sinni til dánardægurs, en hann lést langt fyrir aldur fram árið 1964.

Þórður var m.a. húsgagnasali og hafði á 6. áratugnum umboð fyrir hin valinkunnu Hansa húsgögn. Hansa hillur, Hansa hurðin, Hansa gluggatjöld o.fl. kannast sjálfsagt margir við frá fyrri tíð. Og ekki bara fyrri tíð, því þessi húsgögn endast og endast og eru enn í fullu gildi á mörgum heimilum. Mér skilst, að Hansa húsgögn komi stundum inn á nytjamarkaði en staldri aldrei lengi við, því eftirspurnin mun mikil, um 60 árum eftir að Þórður V. og fleiri umboðsaðilar höfðu þau á boðstólnum.  Og nú hefur Bjartmar Guðlaugsson gert Hansa hillurnar ódauðlegar í texta lagsins „Þegar vindurinn sefur“  þar sem segir „ [...] þar ilmar tekkolíurómantíkin / skenkurinn og hansahillufárið [...] „ Þess má geta, að í textanum eru fleiri gersemar nefndar; eftirprentuð Fjallamjólk, Drengurinn með tárið og tveggja borða bíórgel. Lagið má finna á nýjustu plötu Bjartmars, „Blá nótt“ sem út kom sl. vetur.

En svo við víkjum aftur sögu að húsinu, er það svo að það mun vera svo til upprunalegt í útlitli að ytra byrði, og einnig er við götu steypt girðing sem mun upprunaleg. Innra skipulagi mun hafa verið breytt árið 1988 eftir teikningum Birgis Sigurðssonar. Var þá íbúðum fjölgað, og eru síðan tvær íbúðir á neðri hæð og ein á þeirri efri. Húsið fær varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015, en er sagt stórt og ólíkt húsum í húsaröðinni (án þess þó að það sé til nokkurrar foráttu). Húsið fær plúsa fyrir upprunaleika og viðhald. Enda ekki annað að sjá, en að viðhald og umhirða hússins sé til fyrirmyndar. Sömu sögu er að segja af lóð, en á henni m.a. sjá nokkrar stæðilegar aspir. Myndin er tekin þ. 18. feb. 2018.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bjartmar Guðlaugsson. 2017. Þegar vindurinn sefur af plötunni Blá nótt. Geimsteinn útgáfa, Reykjanesbæ.

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 927, 2. okt. 1942.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Af fyrirhugaðri bókaútgáfu...

Líkt og lesendur þessarar síðu vita, ákvað ég fyrr á árinu að slá til og reyna útgáfu bókar sem byggjast átti að skrifunum hér. Hef ég enda lengi verið hvattur til þess. Ákvað ég að leggja upp með það, að taka skrif sl. missera um svæði á ytri Brekku fyrir í einni bók, sem heita átti Norðurbrekkan milli Gils og klappa, sem mögulega yrði sú fyrsta af bókaflokk. Ég hóf söfnun fyrir prentun bókarinnar á Karolina Fund í maí sl. Síðastliðinn mánudag rann söfnunartímabilið út og niðurstaðan var sú, að ekki safnaðist nægilegt fjármagn. Fellur því söfnunin og þ.a.l. verkefnið um sjálft sig. undecided

Sjálfsagt hefði ég getað gert betur í auglýsingu og kynningu á verkefninu og einnig veit ég til þess, að fyrirkomulag styrktarvefjarins vafðist fyrir einhverjum; hefði e.t.v. getað veitt betri upplýsingar þar. Mögulega var þetta heldur bjartsýnt og bratt af stað farið en það sakaði aldrei að reyna. En það þýðir ekki að velta sér upp úr orðnum hlutum. Þetta var einungis ein tilraun til að koma þessu af stað og vitað mál að þetta gat farið á hvorn veginn sem er. Handritið er a.m.k. tilbúið til prentunar, hægt að endurskoða það og betrumbæta frekar o.s.frv. þegar eða ef til útgáfu kemur.  Næsta skref er líklega að kynna sér, hvaða leiðir eru færar í því.  Annars held ég ótrauður áfram að skrifa hér á síðuna, m.a. liggur fyrir að ljúka við umfjöllun um Munkaþverárstrætið.smile

Ég þakka öllum þeim sem styrktu þetta verkefni mitt kærlega fyrir sitt framlag. Þá þakka ég einnig viðleitni þeirra sem reyndu að styrkja en náðu ekki að klóra sig fram úr Karolina fund síðunni. Þau sem styrktu ættu að hafa fengið frá  mér tölvupóst. Ef þið hafið styrkt, en ekki fengið tölvupóst skulið þið endilega hafa samband á hallmundsson@gmail.com. eða bara hér á síðunni undir athugasemd eða gestabók. 

P7030782


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 33

Munkaþverárstræti 33 reisti Júlíus Davíðsson árið 1948. Hann fékk árið 1946 leyfi P2180735Bygginganefndar til að reisa steinsteypt íbúðarhús, ein hæð á kjallara, 10,5x10,8m (nánast ferningslaga) byggt úr steinsteypu, bæði loft og veggir og með timburskúrþaki. Samkvæmt Húsakönnun 2015 er byggingarár sagt 1948 þ.a. líklega hefur húsið verið fullbyggt þá, en raflagnateikningar fyrir húsið eru dagsettar 2. feb 1949. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson, en þær eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu.

Munkaþverárstræti 33 er einlyft steinsteypuhús í funkisstíl. Húsið er á háum kjallara og með lágu einhalla þaki, með steyptum þakkanti. Nyrðri hluti framhliðar skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru inngöngudyr. Steyptar tröppur eru upp að þeim, ásamt verönd eða svölum. Flestir gluggar hússins eru þrískiptir með lóðréttum póstum með einu opnanlegu þverfagi. Húsið mun að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð, hefur alla tíð verið íbúðarhús. Upprunalega mun húsið hafa verið skipulagt sem einbýlishús. Júlíus Davíðsson bjó þarna ásamt fjölskyldu sinni um langt árabil, en Munkaþverárstræti 33 er ekki eina húsið á Ytri Brekkunni sem Júlíus á heiðurinn af. Hálfum öðrum áratug áður reisti hann Hamarstíg 1 og hann mun einnig hafa komið að byggingu Oddeyrargötu 22. Munkaþverárstræti 33 er glæsilegt og vel hirt hús, og sama er að segja af lóð, sem er vel gróin. Þar standa m.a. nokkur gróskumikil reynitré. Við götu er steyptur kantur, jafn gamall húsinu og er hann einnig í góðu standi. Húsið er hluti af langri og mikilli röð funkishúsa við norðanvert Munkaþverárstrætið, og hefur varðveislugildi sem hluti hennar skv. Húsakönnun 2015. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þ. 18. feb 2018.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 1044, 23. febrúar 1946.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Ágúst 2018
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 412
  • Frá upphafi: 420112

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 302
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband