Hús dagsins: Holtagata 1

Holtagata er stutt gata á norður Brekkunni og  liggur samsíða og ofan (vestan) Hlíðargötu milli Lögbergsgötu í norðri og Hamarstígs í suðri. Hún er ekki jafn brött og Hlíðargata en hæðarmismunur er þó nokkur enda á milli. Holtagata er að mestu byggð á síðustu árum fjórða áratugarins og þeim fimmta. Holtagata er um 130 metra löng.

Á horni Holtagötu og Lögbergsgötu, vestanmegin, stendur stórbrotið og skemmtilegt hús,PA090820 Holtagata 1.  Húsið reisti Haukur Stefánsson málari, sem fékkst í senn við húsamálun og listmálun og leiktjaldamálun. En hann fékk árið 1937 lóð á horni Holtagötu og Lögbergsgötu, austan við hús dr. Kristins Guðmundssonar var mun hafa staðið og enn stendur enn við Helgamagrastræti. Haukur fékk um leið byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar, ein hæð á kjallara með valmaþaki 9x7,8m að grunnfleti. Bygging hússins hefur líkast til hafist árið 1937 en skráð byggingarár er 1942, hefur mögulega ekki talist fullbyggt fyrr en þá. Engu að síður er flutt inn í húsið árið 1940 og búa þá tvær fjölskyldur í húsinu. Þá  En það er í raun aðeins fyrsti áfangi þessa stórbrotna húss sem fullbyggður mun hafa verið 1942. Árin 1947-48 byggði Haukur við húsið til vesturs, álmu ámóta stóra og upprunalega húsið og ári síðar byggði hann þakhæð undir háu einhalla þaki ofan á viðbyggingu. Viðbyggingu, þ.e. neðri hæðina teiknaði  Guðmundur Gunnarsson en teikninguna að þakhæðinni gerði Sigvaldi Thordarson.

Holtagata 1 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara,  með annars vegar lágu valmaþaki á austurálmu og háu einhalla þaki á vesturálmu. Bárujárn er þaki en veggir múrsléttaðir og ýmis konar póstar í gluggum yfirleitt þverpóstar eða láréttir, og stórir „stofugluggar“ til suðurs á vestari hluta hússins. Hár og víður fjórskiptur gluggi  er á þekju til norðurs. Efri hæð viðbyggingar er upprunalega byggð sem vinnustofa Hauks. Í minningargrein um Hauk segir Jón Norðfjörð að „ Húsið hans var reglulegt listamannsheimili. Þar var öllu listmannslega fyrirkomið.“ (Jón Norðfjörð í Degi 19. tbl. 1953: 5).  Haukur, sem hét fullu nafni Ingvar Haukur Stefánsson var fæddur að Rjúpnafelli í Vopnafelli árið 1901 og nam myndlist í Chicago. Hann starfaði sem húsamálari að aðalstarfi en fékkst einnig mikið við leiktjaldamálun auk myndlistar. Hann mun aldrei hafa haldið málverkasýningu en málaði m.a. altaristöflur og veggmyndir. Haukur  gat sér gott orð fyrir innanhúss veggmyndir, málaði t.d. skrautlegar myndir á stigaganga og innan híbýla manna sem mögulega hafa varðveist í einhverjum tilfellum. Búir þú, lesandi góður, í húsi á Akureyri frá 4. Eða 5. áratug 20. aldar þar sem innandyra eru málaðir veggskreytingar frá upphafi eru allar líkur á, að þar fari verk eftir Hauk Stefánsson.  Haukur lést árið 1953, aðeins 51 árs.

Kona Hauks var Ástríður Jósepsdóttir, nefnd Ásta Stefánsson. Á haustkvöldi árið 1940 var hún á leið heim til sín á Holtagötu samferða annarri konu, Kristínu Loftsdóttur, þegar tveir breskir hermenn úr setuliðinu réðust aftan  að þeim á mótum Oddagötu og Oddeyrargötu og börðu með byssum sínum. Eðlilega vakti þessi svívirðilega og tilefnislausa ofbeldisárás athygli, óhug og reiði meðal bæjarbúa ekki síst vegna þess að þarna áttu í hlut liðsmenn erlendrar hersveitar sem átti að vernda borgara landsins. Um þetta skelfilega atvik var fjallað um bæði í Verkamanninum og Íslendingi.  Geta lesendur borið saman umfjallanir þessara tveggja blaða sem komu hvort úr sinni pólítísku áttinni. Hvorugt blaðið dregur þó úr alvarleika árásarinnar þó annað taki dýpra í árinni en hitt. Þess má svo geta, að herstjórnin breska tók atburðinn alvarlega, setti m.a. á útgöngubann á óbreytta hermenn eftir klukkan 9 á kvöldin og lét auglýsa eftir vitnum í útvarpinu. Kristín þurfti að verja nóttinni á sjúkrahúsi en Ástríður fékk að fara heim að lokinni skoðun. Hinir seku fundust hins vegar aldrei. (Sbr. Jón Hjaltason 1990: 127)

Holtagata 1 er sérstakt og engu að síður glæsilegt og stórbrotið hús. Það ber þess að vissu leyti merki að vera byggt í áföngum; vestari hluti er funkis en sá eystri er undir áhrifum módernisma  og kemur þessi samsetning vel út. Þakhæðin, hönnuð af Sigvalda Thordarson og stóri glugginn á henni setur sinn sérstaka svip á húsið og gefur því sérkenni. Í Húsakönnun 2015 er húsið metið með varðveislugildi 1. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 800, þ. 11. júní 1937. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Jón Hjaltason (1990). Hernámsárin á Akureyri og Eyjafirði. Akureyri: Bókaútgáfan Hólar.

Manntal á Akureyri 1940. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Svona verður Húsapistill til...

Ætli það sé ekki alveg upplagt á þessu 10 ára afmælisári "Húsa dagsins" að leyfa ykkur, lesendur góðir, að skyggnast inn í það hvernig svona pistill verður til.

Fyrst er að finna "Hús dagsins". Viðmiðið í þessari umfjöllun er að öllu jöfnu hús innan Akureyrar byggð fyrir miðja 20. öld, eða fyrir 1940-50. Þetta er þó alls ekki algilt. Nú eru það að mestu svæði á Brekkunni sem verða fyrir valinu hjá mér, var að fjalla um Hlíðargötu og næst eru það Holtagata og væntanlega Lögbergsgata og Helgamagrastræti þar á eftir. 

Næst er að ljósmynda. Oftast byrja ég á að ljósmynda húsin. Ég tek myndir á hvaða tíma sem er, sem birtu nýtur við og oftast tek ég myndir af mörgum húsum í hverjum göngutúr. Yfirleitt reyni ég að ná framhlið ásamt annarri hlið hússins, þá oftast þeim hliðum þar sem einhver útskot eða skraut er að finna. Ef bakhliðar húsa eru sérlega skrautlegar, frábrugðnar framhlið og vel sýnilegar frá götum læt ég þær stundum fylgja en oftast er viðmiðið ein mynd af húsi.  Stundum geta tré á lóðum byrgt sýn á hús; sum hús er illmögulegt að ljósmynda á sumrin fyrir laufskrúði. Þá komum við að öðru sem lesendur hafa kannski tekið eftir að ég hef mikið dálæti á og það eru trén.

Ein "hliðargrein" af þessu grúski er ljósmyndun og birting á trjám sem mér þykja sérlega glæsileg, skrautleg og gróskumikil. Og nóg er nú af þeim í eldri hverfum Akureyrar. Sumum þykir það synd þegar trjágróður skyggir á glæst á hús en mér þykir gróskumiklir trjágarðar ámóta tilkomumiklir og reisuleg, glæst hús. Það getur hins vegar hvimleitt yfir hásumarið fyrir íbúa viðkomandi húsa að vera stöðugt í skugga fyrir trjágróðri. En tré gegna engu að síður lykilhlutverki við hreinsun andrúmsloftsins (sbr. kolefnisjöfnun) þannig að trjá- og skógrækt er ævinlega hið besta mál a.m.k. að mínu áliti. En húsa- og lóðareigendur hljóta ævinlega að eiga síðasta orðið þegar kemur að trjám á lóðum.                                                                     

P2100880

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er mynd sem ég tók í Lögbergsgötu á Brekkunni, en hana mun ég taka fyrir einhvern tíma á næstu vikum, líklega eftir Holtagötuna. Hlíðargata og Holtagata liggja á milli Lögbergsgötu í suðri og Hamarstígs í suðri. 

 

 

 

 

Heimildaöflun. Þarna eru vefsíður eða gagnagrunnar; þ.e. Landupplýsingakerfið og timarit.is,  Héraðsskjalasafnið og Húsakannanir (oftast aðgengilegar á vefnum, hér er t.d. Húsakönnun fyrir Norðurbrekkuna) lykilatriði. Þá eru einnig ýmsar bækur t.d. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs eftir Steindór Steindórsson og fleiri öndvegisrit. Á Landupplýsingakerfi Akureyrar má nálgast teikningar af flestum húsum Akureyrar. Þar kemur oft fram hver byggði. Á Héraðsskjalasafnið tek ég ævinlega með mér minnisbók og punkta niður. Þar má finna m.a. manntöl, fundargerðir Byggingarnefndar og Jónsbók. Síðastnefnda heimildin er samantekt úr bókunum Byggingarnefndar, þar sem hægt er að fletta upp hverju og einu húsi og sjá afgreiðslu nefndarinnar fyrir byggingarleyfum. Nokkurs konar flýtileið, því í bókunum Byggingarnefndar er yfirleitt nauðsynlegt að vita hver byggði til þess að finna upplýsingar um viðkomandi hús. En Jónsbók nær aðeins yfir hús byggð fyrir 1933. Þessar ágætu vefsíður og rit veita nokkuð haldgóðar upplýsingar um upprunasögu húsanna.

P2190884 P2170883

Hér má sjá t.v. "afrakstur" Héraðsskjalsafnsheimsókna síðuhafa frá ársbyrjun 2016, mældan í minnisbókum. Hægra megin má sjá það sem ég punktaði niður hjá mér um Hlíðargötu 5 og 6.

 

 

Næst er það timarit.is. Þá hef ég þann háttinn á, að ég fletti upp heimilisfanginu í þágufalli. Þá birtast öll þau tilvik, sem eitthvað hefur verið auglýst í viðkomandi húsi. Hafi verið einhver verslun, þjónusta eða önnur starfsemi í húsinu eða annað áhugavert get ég þess, en þess má geta, að flestar niðurstöður eru tilkynningar um eitt og annað. Ég sé svosem ekki ástæðu til þess að tíunda það í þessum pistlum þó einhver íbúi hússins fyrir 70 árum óski eftir einhverju, selji eða gefi e.þ.h. - þó að sjálfsögðu megi ekki gera lítið heimildagildi slíkra upplýsinga. Ég fer að öllu jöfnu ekki út í miklar eða yfirgripsmiklar sögur eða frásagnir af íbúum húsanna gegn um tíðina, enda þótt það væri efni í langar og áhugaverðar greinar.  Slíkir frásagnabálkar um hvert og eitt hús yrðu gríðarlangir, miklu lengri en svo að þeir rúmuðust með góðu móti í meðallangri bloggfærslu. Að auki yrði vinnsla slíkra greina æði tímafrek. Enda eru það fyrst og fremst húsin sem slík og upprunasagan sem ég legg fyrst og fremst áherslu á. 

Skrifin Þegar ég er kominn með þessar helstu upplýsingar hefjast skrifin. Síðastliðin ár hef ég haft þá venju að skrifa pistlana fyrst upp í ritvinnslu og afrita þá síðan hingað inn. Hef ég þá hverja götu fyrir sig í skjali. Oftar en ekki reyni ég að byggja pistlana upp á eftirfarandi hátt:

1. Uppruni, byggingarleyfi; hver byggði og hvenær og hver teiknaði.

2. Stutt lýsing: Húsinu (ytra byrði) lýst í grófum dráttum, þó svo mynd segi nú oft meira en 1000 orð í því samhengi.

3. Stiklað á stóru í sögunni. Oftar en ekki hafa mörg hundruð manns búið í "Húsum dagsins" gegn um tíðina en í sumum tilvikum bjó sama fjölskylda þar áratugum saman. Ég rek ekki íbúasöguna í smáatriðunum en sem áður segir, en reyni að tæpa á t.d. starfsferlum húsbyggjenda eða geta þess ef húsbyggjendur eða einhverjir sem í húsunum bjuggu hafa verið þekktir eða valinkunnir fyrir störf sín og afrek. 

4. Útlit og umhverfi. Hvernig kemur húsið og umhverfi þess mér fyrir sjónir; hefur það varðveislugildi eða er friðað. Mér dettur ekki í hug að geta þess, ef hús eru illa farin eða í vanhirðu en hins vegar finnst mér sjálfsagt að hrósa og benda á það sem vel er gert...sem er reyndar yfirleitt ævinlega tilfellið.

5. Hverjum pistli fylgir heimildaskrá, húsakannanir og upplýsingar úr Héraðsskjalasafnsgögnum. Þannig geta áhugasamir kíkt á Héraðsskjalasafnið og flett upp í Byggingarnefndarbókum eftir fundarnúmeri og séð afgreiðslu byggingarleyfis viðkomandi húss frá fyrstu hendi. Ég læt nægja, að birta tengla í texta á aðrar heimildir, en verði þetta einhvern tíma prentað á bók verð ég að gjöra svo vel að tiltaka hverja heimild af timarit.is í heimildaskrá.

Þá tek ég undantekningalaust fram hvaða dag mynd eða myndir með færslunni eru teknar. Heimildagildi þess er ótvírætt...þar má t.d. sjá að veðurfar og snjóalög voru nákvæmlega svona eða hinsegin þennan dag o.s.frv. auk þess sem sjá má nákvæmlega t.d. hvort nýtt þak eða nýir gluggar voru komnir þetta ár o.þ.h. 

Sjálfsagt mætti mörgu bæta við hvern pistil og margt betur fara í hvert skipti enda eru þetta þegar öllu er á botninn hvolft, frístundaskrif áhugamanns. En að sjálfsögðu verður að hafa það sem sannara reynist, og fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Ég er ævinlega þakklátur fyrir ábendingar og leiðréttingar á því sem betur má fara hér og leiðrétti eða tek út umsvifalaust, svona yfirleitt.  Ég hef það ætíð að leiðarljósi að bera virðingu fyrir viðfangsefninu; er meðvitaður um það húsbyggjendur sem ég skrifa um hér eru ekki bara nöfn í bókum á Héraðsskjalasafni heldur raunverulegt fólk sem oftar en ekki á núlifandi börn og fjölda afkomenda. Auk þess, að hér er um að ræða heimili fólks; ég hef einstaka sinnum verið spurður, hvort hér sé ekki um að ræða "njósnir" eða hnýsni í einkalíf fólks. Ég legg mikla áherslu á, að ekkert fari hingað inn sem gæti flokkast undir hnýsni eða valdið íbúum eða eigendum húsa óþægindum: birti t.d. aldrei myndir eða upplýsingar sem ekki sjást frá almenningsrýmum eða götum og engar þeirra upplýsinga sem ég birti hér er ekki hægt að nálgast annars staðar.

Untitled   

 

 

 

 

 

 

 

Pistlana skrifa ég í skjöl og afrit svo textann hingað inn. Oft læt ég pistlana bíða og les þá svo aftur yfir áður en ég birti þá. Þetta tileinkaði ég mér fyrir 3-4 árum síðan (áður skrifaði ég pistlana beint inn á síðuna) og er ég með hverja götu fyrir sig í sérstöku skjali. Hér er sýnishorn af textanum um Munkaþverárstræti. 

Nokkurn veginn svona verður einn Húsapistill til. Það er ljóst, að þó nokkur tími fer í vinnslu pistlana og ég hef verið spurður, hvernig ég nenni þessu. En þá má spyrja sig, hvernig nennir fólk yfir höfuð áhugamálum sínum.


Hús dagsins: Hús Hákarla-Jörundar (Gamli Syðstibær) við Norðurveg, Hrísey.

Áður en ég held af Hlíðargötu upp á Holtagötu, næstu götu ofan við bregð ég mér "örlítið" út fyrir Brekkuna, nánar til tekið út í Hrísey. Ég hef gefið mig út fyrir að skrifa um hús á Akureyri og Hrísey er vitaskuld hluti Akureyrarkaupstaðar og hefur verið síðan 2004. Þar má, eins og í flestum bæjarhlutum Akureyrar gömul og glæsileg hús, en þeirra elst er Hús Hákarla- Jörundar.

Hús Hákarla Jörundar stendur við Norðurveg 3 í Hrísey, skammt frá höfninni.P9200053 Húsið var reist á Syðstabæ, nokkuð sunnar á eynni og var reist árið 1885 af Jóhanni Bessasyni fyrir Jörund Jónsson.  Byggingarefni hússins er viður úr norskri skonnortu, Skjöld, sem var í hópi margra norksra skipa sem fórust í aftakaveðri við Hrísey haustið 1884. Óneitanlega nokkuð sérstakt byggingarefni, en auðvitað ekkert einsdæmi að viður úr skipum eða eldri byggingum og mannvirkjum hafi verið endurnýttur til húsbyggingar. Menn stukku a.m.k. ekki til á timburlagerinn í næstu byggingarvöruverslun á níunda áratug 19. aldar.  Jörundur var afar fengsæll og valinkunnur fyrir hákarlaveiðar sínar, og hlaut viðurnefnið Hákarla- Jörundur. Hann var fæddur árið 1826 á Kleifum í Ólafsfirði og flutti til Hríseyjar árið 1862 og var alla tíð bóndi á Syðstabæ, meðfram hákarlaveiðunum. Hann lést 1888, aðeins þremur árum eftir að hann reisti nýja íbúðarhúsið.

En hús Hákarla-Jörundar er einlyft timburhús með portbyggðu risi og miðjukvisti og stendur á steyptum kjallara. Á bakhlið er forstofubygginga eða "bíslag". Veggir eru klæddir með listaþili og bárujárn á þaki og sexrúðupóstar í gluggum.  Húsið var sem áður segir, reist á Syðstabæ en árið 1917 var byggt nýtt hús þar og húsið flutt á núverandi stað. Húsið var líkast til lengst framan af íbúðarhús og bjuggu þar margar fjölskyldur samtímis. Þá var einnig verslun í húsinu og KEA sem síðar eignaðist það nýtti það sem verslun og vörugeymslu. Um aldamótin 2000 var hins vegar farið að huga að endurbyggingu þessa elsta húss Hríseyjar og hófust þá endurbætur sem miðuðust að því, að færa húsið til upprunalegs horfs.  Þá var byggt við húsið til vestur eða bakatil, snyrting og aðstaða fyrir gesti fyrirhugaðs safns. Fyrir þessum endurbótum hússins stóð Húsfélagið Hákarla Jörundur og var Ásgeir Halldórsson málari helsti forvígismaður þar. Árið 2003 var sett upp Hákarlasetur, safn um hákarlaútgerð á Íslandi, í húsinu og árið 2009 var húsið afhent Fasteignum Akureyrar til umsjónar og nú er í húsinu vandað og veglegt safn. Því miður verður höfundar að viðurkenna, að hann hefur ekki heimsótt safnið þegar þetta er ritað en það hlýtur að standa til bóta. Hús Hákarla-Jörundar er á allan hátt stórglæsilegt og snyrtilegt og ljóst má vera, að endurbætur þess hafa tekist frábærlega. Húsið er svo sannarlega eitt af perlum Hríseyjar; perlu Eyjafjarðar. Minjastofnun friðlýsti þetta ágæta hús árið 2003. Myndin er tekin í ljósaskiptunum þann 20. september 2013.

Heimildir: Ýmsar greinar og vefsíður: sjá tengla í texta.  

 


Hús dagsins: Hlíðargata 11

Hlíðargata 11 stendur á horni götunnar og Hamarstígs, PA090832töluvert neðar en næsta hús nr. 9 en Hlíðargatan er afar brött á þessum kafla næst Hamarstíg. Árið 1942 falaðist Jakob Frímann kaupfélagsstjóri KEA eftir lóð undir verslunarhús og fékk lóðina næst norðan við hús Jóns Sigurðssonar myndasmiðs sunnan Hamarstígs. Hús Jón Sigurðssonar myndasmiðs er að sjálfsögðu Hlíðargata 9, en Byggingarnefnd lýsti framan af ævinlega staðsetningu lóða og húsa á þennan hátt; þ.e. afstöðu miðað við lóð eða hús tiltekinna manna. En þetta nýja verslunarhús KEA reis árið 1943 og fékk félagið leyfi til að reisa verslunarhús, tvær hæðir úr steinsteypu með flötu þaki og steyptu lofti og veggjum. Stærð hússins 10,0x7,3m auk útskots að sunnan, 7,8x3,7m.

En Hlíðargata 11 er reisulegt tvílyft steinsteypuhús með aflíðandi einhalla þaki sem innrammað er með háum kanti. Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson. Á suðurhlið er bakálma og í kverkinni á milli inngangur á efri hæð auk steyptra trappa með stölluðu handriði. Á framhlið hússins (til NA) er "bogadregið horn" og þar er steyptur toppur á þakkanti. (Bogadregið horn kann e.t.v. að hljóma svolítið mótsagnarlegt, e.t.v. svipað og t.d. ferkantað hjól) Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins og á neðri hæð eru stórir "verslunargluggar", arfur frá fyrra hlutverki hússins.

 Á fimmta áratug 20. aldar og eftir miðja 20. öld spruttu upp fjölmargar KEA verslanir eða útibú, á borð við verslunina í Hlíðargötu en flest liðu þau undir lok um eða upp úr 1980. Nú er starfsemi KEA fyrst og fremst fjárfestingar og hefur félagið ekki beina aðkomu að verslunar- eða fyrirtækjarekstri árum saman.  Fullbyggt mun húsið hafa verið 1943, og verslunin væntanlega verið opnuð um það leyti. Elstu heimildir um Útibú KEA á Hamarstíg semtimarit.is finnur er frá haustinu 1945. Gengið var inn í verslunina frá Hamarstíg, enda þótt húsið standi á Hlíðargötu.  Árið 1962 var byggt við verslunina til vesturs, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar, og sumarið 1963 var opnuð glæný „nýtízku kjörbúð KEA við Hlíðargötu 11“. Verslunin þjónaði íbúum ytri Brekkunnar með glæsibrag í fjóra áratugi en vorið 1984 leið hið rótgróna útibú KEA á Hlíðargötu 11 undir lok. Nú eru íbúðir á báðum hæðum hússins, en viðbyggingin frá 1962 sem reist var sem vörulager og uppvigtunarrými mun nú þjóna sem bílskúr. Á efri hæð hefur hins vegar alla tíð verið íbúð. Hlíðargata 11 er sérlega svipmikið og glæst hús, sem tekur þátt í götumynd bæði Hlíðargötu og Hamarstígs. Húsið er í góðri hirðu og hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi sem hluti af heild, líkt og flestöll húsin á Hlíðargötu. Það er álit þess sem ritar, að sem fyrrum hverfiskjörbúð til áratuga hljóti húsið að skipa nokkurn sögulegan sess. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48.  Fundur nr. 904, 27. mars 1942. Fundur nr. 945, 11. júní 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 10

Vorið 1943 fengu þeir Adolf Davíðsson, Oddeyrargötu 38 og Björn Guðmundsson í Hólabraut 17 lóðina við Hlíðargötu 10, og snemma sumars byggingarleyfi á lóðinni. PA090833Fengu þeir leyfi til að byggja tveggja hæða steinsteypuhús með flötu þaki, að stærð 8x8,3m og fullbyggt mun húsið hafa verið 1944. Teikningarnar að húsinu gerði Jón Sigurjónsson. Hann gerði einnig teikningarnar að viðbyggingu við húsið  til norðurs árið 1949, þ.e. forstofubyggingu með tröppum upp á aðra hæð.

Hlíðargata 10 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki, með kjallara undir hluta hússins og  með flötu þaki, forstofubyggingu, jafnhárri húsinu að norðan en timbursvölum að sunnan. Þakpappi er á þaki og lóðrétt opnanleg fög í gluggum og horngluggi í anda funkisstefnunnar á suðurhlið. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús með sinni íbúð á hvorri hæð. Ekki hefur húsið tekið stórum breytingum frá upphafi, forstofubyggingin var byggð mjög snemma og fyrir um áratug voru byggðar voldugar svalir á suðurhlið hússins.  Húsið stendur nokkuð lægra en gatan og er nokkur hæðarmismunur á lóðinni. Hlíðargatan ber nefnilega nafn með rentu, liggur um stutta og bratta hlíð þar sem Brekkan hækkar nokkuð skarpt að efstu brúnum Grófargils.  Húsið er mjög snyrtilegt og vel hirt, einfalt og látlaust í anda funkisstefnunar. Það hefur skv. Húsakönnun varðveislugildi af fyrsta stigi sem hluti samstæðrar heildar, og er þar er væntanlega átt við þessa samstæðu heild funkishúsa við Hlíðargötu. Á lóðarmörkum er einnig steypt girðing með tréverki.

Sunnan við Hlíðargötu 10 stendur býsna stæðilegt tré, sem höfundur giskar á að sé P5150349fjallaþinur (?) eða a.m.k. þintré frekar en greni. (Mér "trjáfróðari" lesendur mega endilega setja inn ábendingar, í ummælum eða gestabók) Þinurinn er a.m.k. 15 m hár og sérlega beinvaxinn og reglulegur. Neðsti hluti stofnsins er greinalaus, og ekki ólíklegt að sú aðgerð hafi verið framkvæmd þegar svalirnar voru reistar um 2008 en efri hluti trésins dafnar býsna vel að því er virðist. Setur þetta tré skemmtilegan svip á umhverfið, rétt eins og húsið og lóðin. Myndin af trénu er tekin þann 15. maí 2016 en myndin af húsinu þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48.  Fundur nr. 941, 30. apríl 1943. Fundur nr. 945, 11. júní 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 9

Hlíðargötu 9 mun Jón nokkur Sigurðsson, myndasmiður, hafa reist árin 1939-40. PA090836Þess má geta, að höfundur fann ekki byggingarleyfi til handa  Jóni Sigurðssyni í fundargerðum Byggingarnefndar fyrir það tímabil en slíkt er ekki einsdæmi. En alltént stendur „Hús Jóns Sigurðssonar“ á raflagnateikningum Vilhjálms Hallgrímssonar frá apríl 1940. Teikningarnar að húsinu gerði Ásgeir Austfjörð. Möguleiki er, að annar maður hafi fengið lóðina og byggingarleyfið og síðan afsalað því til Jóns, hugsanlega án milligöngu Byggingarnefndar. Þá er sá möguleiki vitaskuld einnig fyrir hendi, að höfundur hafi hreinlega ekki leitað nógu gaumgæfilega í bókunum Byggingarnefndar.  En nóg um það; húsið reis af grunni og stendur enn með glæsibrag.

Hlíðargata 9 er einlyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki og stölluðum þakkanti. Á framhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim, og yfir þeim dyraskýli sem er sambyggt steyptu handriði og skjólvegg til norðurs. Svipaðan dyraumbúnað má einnig sjá á húsinu handan götunnar, Hlíðargötu 8.  Í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum, veggir múrsléttaðir en þakpappi á þaki. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og ýmsir átt hér heima í lengri eða skemmri tíma en húsið er einbýli og hefur líkast til verið svo alla tíð. Jón Sigurðsson myndasmiður hefur líklega ekki búið hér um langt skeið, en 1948 er hann fluttur norðar á Brekkuna, á Munkaþverárstræti 31. Í Húsakönnun 2015 fær húsið, líkt og húsin við gjörvalla Hlíðargötu varðveislugildi 1 sem hluti af samstæðri heild funkishúsa. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel og á lóðarmörkum er steypt girðing með stöplum.

Á lóðinni standa m.a. tvö stæðileg lerkitré. Hvort um er að ræða Evrópulerki, SíberíulerkiPA090834 eða einhverjar aðrar tegundir lerkis er þeim sem þetta ritar hins vegar ekki kunnugt um. Lerki, eitt barrtrjátegunda fellir barr að hausti  og eru haustlitir þess sérlega fallega gulir og jafnvel gylltir. En það var einmitt þann 9. október (2018) sem höfundur var á vappi um Hlíðargötu með myndavélina, og skörtuðu trén þá sínu fegursta.  

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Hlíðargata 8

Hlíðargötu 8 reistu bræðurnir Hörður og Brynjar Eydal árið 1939,PA090838 en þeir fengu að reisa hús; ein hæð á kjallara, steinsteypt með flötu þaki að stærð 7,75x9,7m.  Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson. Hlíðargata 8 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með einhalla aflíðandi þaki, klætt pappa og innrammað stölluðum, steyptum þakkanti. Útskot er til suðausturs. Horngluggar eru á framhlið til suðurs, sem og á útskoti og í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum. Yfir inngöngudyrum að framan er steypt  dyraskýli, sambyggt að norðan við steypt, stallað handrið. Ekki ópraktísk hönnun, sem auk þess að vera skemmtilegur svipauki á húsinu, veitir einnig skjól fyrir norðanáttum.

Húsið er teiknað sem tvíbýli, og hafa þeir Hörður og Brynjar væntanlega búið hvor á sinni hæð ásamt fjölskyldum sínum. Hörður og kona hans, Pálína Eydal bjuggu hér um áratugaskeið, en ýmsir hafa átt hér og búið sl. 2 - 3 áratugi. Öllum hefur þó auðnast að halda þessu látlausa en glæsta funkishúsi vel við.  Sonur Harðar og Pálínu Eydal var Ingimar, tónlistarmaður með meiru en hann og hljómsveit hans þarf vart að kynna fyrir lesendum. Hljómsveit Ingimars Eydal hélt, eins og kunnugt er, uppi fjörinu í Sjallanum um árabil og naut mikilla vinsælda á 7. og 8. áratugnum. Og enn í dag nýtur hljómsveit Ingimars fádæma vinsælda og er fyrir löngu orðin sígild. Meðal fjölmargra ódauðlegra laga frá hljómsveit Ingimars má nefna Vor í Vaglaskógi (1965), Á sjó (1965) og Í sól og sumaryl (1972). Í bæklingi, sem fylgir með hljómdiskinum Kvöldið er okkar, kemur fram að Ingimar hafi verið fæddur í húsinu Jerúsalem, sem stóð á Hafnarstræti 93, en í upphafi stríðs hafi fjölskyldan flutt „upp í sveit“ á Hlíðargötuna- sem nú er nánast í miðbænum (Kristján Sigurjónsson, 1996: 4). En Hlíðargatan var á þessum tíma við efri mörk þéttbýlis á Akureyri. Finnur, bróðir Ingimars, var einnig mikilvirkur tónlistarmaður og lék m.a. með bróður sínum en einnig með eigin hljómsveit, Hljómsveit Finns Eydal  . Hér má heyra lagið Hvítur stormsveipur, (1969) þar sem Finnur leikur hreint og beint óviðjafnanlega á klarinett og er lagið eitt af mörgum snilldarverkum bræðranna úr Hlíðargötu 8.

Húsið er sem áður segir, látlaust og glæsilegt steinhús í funkishús, lítið breytt frá upphafi og fær varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015. Húsið er lítið sem ekkert breytt að ytra byrði frá upphafi, a.m.k. ef núverandi útlit er borið saman við teikningarnar frá 1939. Húsið er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni og lóð er vel gróin og hirt, þar eru m.a. gróskumikil reynitré. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 9. október 2018.  

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 842, 18. sept 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Kristján Sigurðsson (1996). Píanistinn verður til. Í bæklingi (bls. 4-5) með hljómdiskinum Kvöldið er okkar. Kópavogur: Spor útgáfa.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Feb. 2019
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28    

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 430
  • Frá upphafi: 420130

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 319
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband