Húsapistlar 2009

10 ára afmæli "Húsa dagsins" hér á þessum vettvangi er rétt handan við hornið eins og sagt er. Ég var víst búinn að lofa ykkur, lesendur góðir, að reyna að gera eitthvað hér á síðunni af því tilefni. Eitt af því sem ég hyggst gera, er að gera eldri pistla aðgengilegri og búa til einhverja flokkun og skipulag að því marki sem þetta síðuform blog.is býður upp á. Það var í árslok 2014 sem ég hóf að safna saman öllum húsafærslum ársins í eina færslu, og því eru allir pistlar áranna 2014-18 aðgengilegir gegn um tengla hér vinstra megin. (Ég hef tekið eftir því, að margir eldri tengla virðast óvirkir, enda þótt færslurnar finnist t.d. með "gúggli". Það er eitthvað sem ég þarf að kanna, oft dugar að taka nýtt afrit af slóð og setja inn í tengil). En næstu daga og vikur mun ég birta hér annála áranna 2009-13 í Húsum dagsins, og hér eru færslur ársins 2009 á einu bretti. Eins og sjá má voru pistlarnir mun styttri, (kannski hnitmiðaðri fyrir vikið?) og ólíkt minna ítarlegir en síðar varð. Fyrsta færslan er t.d. aðeins nokkrar línur. En hér eru færslurnar um "Hús dagsins" frá árinu 2009: 

  1. Hús dagsins: Norðurgata 17 Birt 25.6.09
  2. Hús dagsins: Norðurgata 11 Birt 26.6.09
  3. Hús dagsins: Lundargata 2 Birt 30.6.09
  4. Hús dagsins: Hafnarstræti 18. Eilítið um norsku húsin (sveitser)Birt 3.7.09
  5. Hús dagsins: Hafnarstræti 29-41 Birt 9.7.09 (Þess má geta, að síðar tók ég hvert hús í þessari röð fyrir sig í sér pistlum).
  1. Hús dagsins: Nokkur eldri steinsteypuhús Birt 13.7.09 (Hér er um að ræða fáeinar línur um húsin Oddeyrargötu 6, Brekkugötu 12 og Grundargötu 7. Mun ítarlegri pistlar um þessi hús birtust síðar hér). 
  1. Hús dagsins: Aðalstræti 16 Birt 16.7.09
  2. Hús dagsins: Aðalstræti 13 Birt 20.7.09 21:29 
  3. Hús dagsins: Lækjargata 6 Birt7.09 14:39 
  4. Hús dagsins eða öllu heldur Gata dagsins (Strandgata 37-45)Birt 23.7.09 (Þess má geta, að síðar tók ég hvert hús í þessari röð fyrir sig í sér pistlum)
  5. Hús dagsins: Gránufélagshúsin, Strandgata 49 Birt 28.7.09
  6. Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11 Birt 2.8.09 Hingað á eftir að laga tengil...
  7. Hús dagsins: Hafnarstræti 57, Samkomuhúsið Birt 10.8.09
  8. Hús dagsins: Hafnarstræti 53, Gamli Barnaskólinn Birt 12.8.09
  9. Hús dagsins: Aðalstræti 14, Gamli Spítalinn Birt 17.8.09 
  10. Hús dagsins: Aðalstræti 4, Gamla Apótekið Birt 20.8.09  (Þennan pistil og mynd er svolítið gaman að skoða núna, 10 árum síðar, þegar Gamla Apótekið hefur fengið algjöra yfirhalningu).
  1. Hús dagsins: Hafnarstræti 96; París  Birt 21.8.09  
  2. Hús dagsins; Hafnarstræti 94; Hamborg  Birt 25.8.09 14:12 
  3. Hús dagsins: Hafnarstræti 98  Birt 27.8.09
  4. Hús dagsins: Hafnarstræti 91-93; KEA húsið  Birt 31.8.09
  5. Hús dagsins: Strandgata 27  Birt 6.9.09
  6. Hús dagsins: Lundargata 15  Birt 14.9.09
  7. Hús dagsins: Norðurgata 2 og Strandgata 23. Steinskífuklæðning. Birt 1.10.09
  8. Hús dagsins: Strandgata 4; Nýja Bíó. Birt 7.10.09
  9. Hús dagsins: Gránufélagsgata 39-41; "Sambyggingin"  Birt 16.10.09 17:35 
  10. Hús dagsins: Aðalstræti 50  Birt 21.10.09 15:52 
  11. Hús dagsins: Aðalstræti 46; Friðbjarnarhús  Birt 28.10.09 17:51 
  12. Hús dagsins; Strandgata 3 og 7. Timbur og Steinsteypa.Andstæður Birt 4.11.09  
  13. Hús dagsins: Strandgata 9,11 og 13. Birt 9.11.09 á eftir að laga tengil frá og með
  14. Hús dagsins: Strandgata 11b Birt 13.11.09 
  15. Hús dagsins: AkureyrarkirkjaBirt 21.11.09
  16. Hús dagsins: Minjasafnskirkjan Birt 22.11.09
  17. Hús dagsins: Hafnarstræti 20; Höepfnershús Birt 25.11.09
  18. Hús dagsins: Hafnarstræti 3 Birt11.09 
  19. Hús dagsins: Aðalstræti 15 Birt 3.12.09
  20. Hús dagsins: Lækjargata 3 Birt 5.12.09
  21. Hús dagsins: Hafnarstræti 90 Birt 11.12.09
  22. Hús dagsins: Strandgata 17 Birt 19.12.09
  23. Hús dagsins: Jólahúsið í Eyjafjarðarsveit Birt 25.12.09

Hús dagsins: Helgamagrastræti 4

Helgamagrastræti 4 reisti dr. Kristinn Guðmundsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri P2240899og síðar utanríkisráðherra árið 1936. Dr. Kristinn var í hópi nokkurra manna sem fékk úthlutaða lóð og húsgrunn frá Samvinnubyggingafélaginu í ársbyrjun 1936 og fengu að reisa hús eftir teikningu Þóris Baldvinssonar. Húsið, sem stendur á norðurhorni Helgamagrastrætis og Lögbergsgötu var eitt það fyrsta sem reis austan Helgamagrastrætis, en hús nr. 2 og 6 risu reyndar ekki löngu síðar eða árið eftir.

Helgamagrastræti 4 er tvílyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með flötu,eða mjög aflíðandi einhalla þaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, sem og svalir á efri hæð á SV horni.  Perluákast eða gróf steining er á veggjum og eru þeir málaðir en pappi er á þaki. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum. Húsið er nánast óbreytt frá upprunalegri gerð.

Dr. Kristinn Guðmundsson sem byggði Helgamagrastræti 4 var fæddur árið 1897 á Króki á Rauðasandi. Hann nam lauk stúdentsprófi frá MR árið 1920 og nam lögfræði og hagfræði í Kiel og Berlin 1921-26 og lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Kiel árið 1926. Kristinn fluttist til Akureyrar 1929 og hóf að kenna við Menntaskólann, þar sem hann kenndi í rúm 20 ár eða allt þar til hann varð ráðherra. Frá 1944 var stundakennari samhliða fullu starfi skattstjóra á Akureyri.  Kristinn var kjörinn á Alþingi árið 1947 fyrir Framsóknarflokkinn og gegndi embætti embætti utanríkisráðherra 1953-56. Eftir að ráðherratíð Kristins lauk varð hann sendiherra í Bretlandi og í Sovétríkjunum 1961-67. Kona Kristins hét Elsa Kabow, frá Þýskalandi. Árið 1974 komu æviminningar dr. Kristins Guðmundssonar út á bók, Frá Rauðasandi til Rússíá, Gylfi Gröndal skráði og Setberg gaf út.

Margir hafa búið í Helgamagrastræti 4 um lengri og skemmri tíma eftir tíð Kristins og Elsu, og má þar nefna Tómas Tómasson frá Tyrfingsstöðum í Skagafirði, lengi bóndi í Hörgárdal. Hann var fæddur í maí 1862 og lést 1964, tæplega 102 ára og var þá elstur Norðlendinga. Hann var jafnaldri Akureyrarkaupstaðar og var elsti íbúi bæjarins á 100 ára afmælinu, 1962. Bjó hann hér hjá syni sínum, Elíasi bankamanni og tengdadóttur, Sigrúnu Jónsdóttur. Elías Tómasson var lengi vel bóndi á Hrauni í Öxnadal. Lengi vel voru í húsinu tvær íbúðir, hvor á sinni hæð. Húsið er sem áður segir, nokkurn veginn upprunalegt í útliti að ytra byrði, en gluggum var breytt lítillega árið 1983. Húsið er látlaust og einfalt funkishús og lítur vel út. Húsið hlýtur, líkt og flestöll Byggingafélagshúsin við sunnanvert Helgamagrastrætið, 2. Stigs varðveislugildi í Húsakönnun 2015 sem hluti merkrar heildar. Lóð er einnig vel gróin og ber þar nokkuð á stæðilegum reynitré og grenitré framan við húsið. Myndin er tekin frá Lögbergsgötu þann 24. febrúar 2019 sýnir suður- og austurhlið hússins.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 767, þ. 4. jan. 1936. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 3

Árið 1935 fékk Samvinnubyggingafélagið byggingarlóðirnar við Helgamagrastræti P2240888milli Þingvallastrætis og Hamarstígs, ásamt byggingarleyfi fyrir húsum eftir teikningum Þórir Baldvinsson. Kaupin gerðust þannig á eyrinni- eða kannski öllu heldur Brekkunni í þessu tilfelli, að félagið yfirfærði eða afsalaði sér lóðir og húsgrunna til félagsmanna sem í kjölfarið byggðu húsin. Var það fyrsta verk Bygginganefndar Akureyrar á árinu 1936 að skrá þessar lóðir Byggingafélagsins til félagsmanna, en það er fyrsti liður fundargerðar frá 4. janúar það ár. Sá sem fékk lóð nr. 3 var Björn Júlíusson pípulagningamaður, starfandi hjá KEA. Húsið mun hafa verið fullbyggt árið 1937.

Helgamagrastræti 3 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með flötu þaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, sem og svalir á efri hæð á SA horni. Á vesturhlið eða bakhlið er viðbygging, ein hæð með flötu þaki og steypt verönd framan við hana.  Perluákast eða gróf steining er á veggjum og eru þeir málaðir en pappi er á þaki. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og stór og víður gluggi til suðurs á viðbyggingu. 

Björn Júlíusson, sem byggði Helgamagrastræti 3, var fæddur á Syðra Garðshorni í Svarfaðardal og kona hans var Snjólaug Hjörleifsdóttir, fædd á Knappsstöðum í Stíflu, og bjuggu þau hér í um tvo áratugi uns þau fluttu að Laugahlíð í Svarfaðardal. Hér segir Júlíus Daníelsson í minningargrein um Björn, að í Helgamagrastræti hjá þeim Birni og Snjólaugu hafi verið „húsrými og hjartarými“ og þau afburða vinsæl og gestrisin. Árin 1938-40 bjó einnig í Helgamagrastræti 3 ungur maður frá Ytra-Hóli í Öngulsstaðahreppi sem ræktaði og seldi kartöflur og ýmis konar grænmeti. Grænmetissalinn í Helgamagrastræti 3 var föðurafi þess sem þetta ritar, Kristinn Sigmundsson, en hann fluttist 1940 að Arnarhóli í Öngulsstaðahreppi og varð þar annálaður góðbóndi í hartnær hálfa öld.  Ýmsir hafa búið í húsinu, í fyrstu voru tvær íbúðir í húsinu en síðustu áratugina hefur húsið verið einbýli.

Viðbyggingin er nokkuð nýleg, byggð árið 2007 eftir teikningum Loga Más Einarsson og er hún í mjög góðu samræmi við upprunalega gerð hússins. Það er nefnilega ekki alltaf einfalt að byggja við hús þannig að vel falli að upprunalegu húsi, en í þessu tilviki hefur það tekist stórkostlega. Í Húsakönnun 2015 er viðbyggingin einmitt sögð „[...] látlaus og fer húsinu ágætlega“ og fékk hún Byggingarlistarverðlaun Akureyrarbæjar árið 2007 (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta, 2015: 73).

Helgamagrastræti 3 hlýtur í Húsakönnun 2. stigs varðveislugildi sem hluti þeirrar merku heildar, sem funkishúsaröð Samvinnubyggingafélagsins er. Húsið er í mjög góðri hirðu og virðist raunar sem nýtt (enda vitaskuld nýlegt að hluta, þ.e. viðbygging) og sama er að segja af lóð sem er gróin og vel hirt. Gróandinn er að sjálfsögðu ekki mjög áberandi á þessari mynd, þar sem er tekin síðla í febrúar, nánar til tekið þann tuttugasta og fjórða, árið 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 767, þ. 4. jan. 1936. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 2

Helgamagrastræti 2 byggði Skarphéðinn Ásgeirsson, kenndur við Amaro, P2240887árið 1937. Hann fékk lóð nr.2 við götuna að fengnu samþykki frá Samvinnubyggingafélaginu og fékk í kjölfarið að reisa hús; tvær hæðir á kjallara steinsteypt með flötu þaki, 10x8,5m að grunnfleti. Teikningarnar að húsinu gerði Þórir Baldvinsson og er um að ræða svipaða teikningu og að húsum Byggingafélagsins, nr. 1-13 og 4 og 6 við Helgamagrastrætið.  Hús Skarphéðins er þó ívið stærra, grunnflötur þess sem áður segir 10x8,5m en hin húsin 7,6x8,10m, auk þess sem það er á kjallara en hin ekki.

Skarphéðinn Ásgeirsson, sem byggði húsið og bjó hér allt til dánardægurs, 1988, er eitt af „stóru nöfnunum“ eins og sagt er í verslunarsögu Akureyrar. Verslun hans Amaro var ein sú stærsta og veglegasta á sínum tíma og árið 1960 byggði hann eitt mesta stórhýsi Akureyrar þess tíma, Amaro húsið í Hafnarstræti. Skarphéðinn var múrari og smiður og hóf feril sinn um 1930 sem leikfangasmiður og fór sú framleiðsla fram í kjallaranum á Helgamagrastræti 2 þegar það var risið. Amaro, sem upprunalega var nærfatagerð stofnaði hann árið 1940. Skarphéðinn og kona hans, Laufey Tryggvadóttir bjuggu hér um áratugaskeið. Laufey var um árabil formaður Náttúrulækningafélags Akureyrar, og var m.a. ein af forvígismönnum fyrir byggingu heilsuhælis í Kjarna á áttunda áratug síðustu aldar. Líklega hefur húsið alla tíð verið tvíbýli, en á teikningum Þóris Baldvinssonar er gert ráð fyrir íbúð á hvorri hæð. Ýmsir hafa búið þarna eftir tíð þeirra Skarphéðins og Laufeyjar, og hefur öllum auðnast að halda þessu glæsta húsi vel við. Lóðin er einnig vel hirt og gróin, líkt og gengur og gerist á Helgamagrastræti og Brekkunni yfirleitt. Árið 2005 var byggður steinsteyptur bílskúr austan megin á lóðinni, eftir teikningum Haraldar Árnasonar.  

Helgamagrastræti 2, sem stendur á suðurhorni götunnar og Lögbergsgötu, er tvílyft steinsteypuhús á lágum kjallara og  með flötu þaki. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og líkast til er einhvers konar þakpappi á þakinu og slétt múrhúð á veggjum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar til suðurs og suðausturhorni eru svalir. Steypt skrautbönd undir þakkanti setja nokkurn svip á húsið, sem er annars einfalt og látlaust í anda funksjónalismans.

Húsið er í mjög góðu standi og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald og er til mikillar prýði í stórskemmtilegri götumynd, og sem hornhús tekur það að nokkru leyti þátt í götumynd Lögbergsgötu. Húsið hlýtur 1. stigs varðveislugildi í Húsakönnun 2015 sem hluti  þeirri merku og mikilsverðu heild sem funkishúsaröðin við Helgamagrastræti er. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin þann 24. febrúar 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 795, þ. 17. apríl 1937. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 1

Helgamagrastræti er nokkuð löng gata sem þræðir Ytri Brekkuna (Norðurbrekku) frá Hamarkotsklöppum í norðri að Þingvallastræti í suðri. Mót Þingvallastrætis og Helgamagrastrætis eru við Sundlaugina og suðurendi götunnar er nokkurn veginn beint á móti vatnsrennibrautunum miklu á laugarsvæðinu. Helgamagrastræti er kennt við landnámsmann Eyjafjarðar, Helga magra og liggur samsíða Þórunnarstræti, sem er kennt við konu hans Þórunni hyrnu. Á elstu skipulagsuppdráttum af Akureyri frá fyrstu árum 20. aldar  má sjá götuna Helgastræti áætlaða samsíða og austan Þórunnarstrætis. Helgastræti kemur fyrst fyrir á prenti í grein Páls Briem Um Skipulag bæja í blaðinu Norðurlandi, snemma árs 1904. Það er þó ekki fyrr en 1928 að ákvörðuð er gatan Helga-magrastræti á fundi veganefndar. Þá er götuheitið skrifað í tveimur orðum með bandstriki og tíðkaðist það almennt fyrstu árin og tíðkast raunar enn. Gagnagrunnurinn timarit.is finnur 417 dæmi um eldri ritháttinn með bandstriki en 2400 án bandstriks. Elsta heimildin sem finna má á timarit.is þar sem Helgamagrastræti kemur fyrir í einu orði er frá haustinu 1939. Þess má geta að umrædd heimild er auglýsing frá  föðurafa þess sem þetta ritar, Kristni Sigmundssyni, þar sem hann býður kartöflur til sölu á þáverandi heimili sínu, Helgamagrastræti 3. Helgamagrastræti er um 700 metrar að lengd.

Helgamagrastræti 1

Öll húsin við vestanvert Helgamagrastrætið, á milli Þingvallastrætis og Hamarstígs P2240886(og nokkur austanmegin líka) eru byggð árin 1936-37 á vegum Samvinnubyggingafélagsins, eftir sömu teikningu. En það var um miðjan september 1935 sem Vilhjálmur Þór sótti um, fyrir hönd áðurnefnds Samvinnubyggingafélagsins, byggingarlóðir beggja vegna Helgamagrastrætis. Gatan var þá ekki tilbúin, því Byggingarnefnd óskaði eftir því að Helgamagrastrætið yrði „lögð svo fljótt sem auðið er“. (B.nefnd Ak. 1935, 757). Ekki stóð á því, að byggingafélagið fengi lóðirnar, því aðeins nokkrum dögum síðar var félaginu veitt leyfi til að byggja hús á lóðunum. Húsin skyldu vera tvær hæðir með flötu þaki og kjallaralaus, veggir og loft úr steinsteypu, 7,6x8,10m að grunnfleti. Húsin voru byggð eftir teikningu Þóris Baldvinssonar

Á síðari hluta ársins 1935 var Samvinnubyggingafélagið komið með lóðir og byggingarleyfi fyrir Svo vildi til, að fyrsta verk Byggingarnefndar á árinu 1936 var að yfirfæra lóðir  Byggingarfélagsins til nokkurra félagsmanna. Var það gert á fundi nr. 767, þann 4. janúar 1936. Lóð nr. 1 fékk Kjartan Sæmundsson, og lauk hann við byggingu hússins. Kjartan var fæddur á Ólafsfirði, og kona hans var Ásta Bjarnadóttir frá Húsavík. Kjartan fluttist nokkrum síðar (1942) til Bandaríkjanna þar sem fékkst við vöruinnkaup á vegum SíS. Hann varð síðar deildarstjóri við búsáhaldadeild SíS og kaupfélagsstjóri KRON frá 1957. Kjartan Sæmundsson lést árið 1963, langt fyrir aldur fram. Kjartan var fæddur á Ólafsfirði árið 1911, og kona hans var Ásta Bjarnadóttir frá Húsavík.

Helgamagrastræti 1 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, sem og svalir á efri hæð á SA horni. Perluákast eða gróf steining er á veggjum og eru þeir málaðir en bárujárn á þaki. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, einbýli og er að mestu óbreytt frá upphafi. Árið 1954 var þó byggt á húsið valmaþak, en upprunalega var þakið einhalla, aflíðandi undir kanti. Helgamagrastræti 1 er í senn einfalt og látlaust, í anda funkisstílsins en engu að síður stórglæsilegt hús. Það er í góðri hirðu og sómir sér vel í þessari heilsteyptu og samstæðu götumynd frá fjórða áratug síðustu aldar. Þá er lóðin vel hirt og gróin, þar eru m.a. gróskumikil reynitré.

Húsakönnun 2015 metur þessa húsaröð við ofanvert Helgamagrastræti sem varðveisluverða og merkilega  Helgamagrastræti 1 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 2, sem hluti af mikilvægri heild. Þessi umrædda heild við Helgamagrastræti, funkishúsin eru sögð „[...] verðugir fulltrúar funkisstílsins og mynda heild sem vert er að varðveita.“ (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 66). Sá sem þetta ritar tekur svo sannarlega undir hvert orð þarna. Myndin er tekin þann 24. Febrúar 2019.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41Fundur nr.758, 17. sept 1935. Fundur nr. 759, 21. okt. 1935. Fundur nr. 767, 4. jan. 1936. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Þingvallastræti 16

Af Lögbergsgötu er ætlunin að halda út Helgamagrastrætið í umfjölluninni hér. En áður en þangað er haldið er eiginlega nauðsynlegt, samhengisins vegna, að taka fyrir hornhús þeirrar götu og Þingvallastrætis. En Þingvallastræti 16 tekur nefnilega þátt í mikilli og glæstri funkishúsaröð við ofanvert Helgamagrastrætið. 

P2100887

Síðsumars árið 1935 voru þéttbýlismörk Akureyrar nokkurn veginn við Sundlaugina, og húsaröðina á móti en efst við strætið stóð hús nr. 14 en vestan þess hús var fyrirhuguð gatan Helgamagrastræti.  Það var einmitt um það leyti eða í ágústlok 1935 sem Stefán Árnason fékk úthlutað lóðinni á horni Þingvallastrætis og Helgamagrastrætis. Bygginganefnd ákvað hins vegar að fresta ákvörðum um það, við hvora götun húsið stæði „uns fyrir liggur uppdráttur“. (Bygg.nefnd Ak. 1935:756). Rúmum mánuði síðar var Stefáni veitt leyfi til að byggja hús á lóð sinni , 8,9x8,9m að stærð, steinsteypt á tveimur hæðum á lágum grunni. Þá lá og fyrir, að húsið skyldi standa við Þingvallastræti. Teikningarnar að húsinu gerði Þórir Baldvinsson.

Þingvallastræti 16 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og á lágum grunni. Útskot eða viðbygging er á norðurhlið hússins en á SA horni hússins eru svalir á annarri hæð. Pappi er á þaki, einfaldir lóðréttir póstar í gluggum og perluákast á veggjum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs en í Húsakönnun 2015 flokkast það undir „sérstakt funkis“.  Stefán Árnason og Helga Stephensen, sem byggðu húsið, bjuggu hér í rúman aldarfjórðung. Hann var frá Skáldalæk í Svarfaðardal en hún var fædd á Lágafelli í Mosfellssveit.  Stefán gegndi lengi vel stöðu framkvæmdastjóra Almennra Trygginga hér í bæ. Stefán og Helga bjuggu hér í rúman aldarfjórðung, en þau  fluttust til Reykjavíkur árið 1963.  Stefán lést árið 1966, en Helga árið 1986. Einhvern tíma var byggt við húsið til norðurs, en ekki liggur fyrir hvenær eða hver teiknaði. Á mynd sem tekin er yfir Gilið og Brekkuna árið 1958, og finna má á bls. 148 í Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs, virðist viðbyggingin vera risin.

En Þingvallastræti 16 er traustlegt og glæst hús í góðri hirðu. Húsið hefur 2. stigs varðveislugildi skv. Húsakönnun 2015 sem hluti merkrar heildar. Það er nefnilega hluti af einni heillegri og merkri funkishúsatorfu Akureyrar, sem stendur við Helgamagrastrætið. Um er að ræða hús, byggð eftir sömu eða sambærilegum teikningum Þóris Baldvinssonar og byggð af félagsmönnum  Samvinnubyggingafélagsins. Um þessi hús segir í húsakönnun að þau séu „verðugir fulltrúar funkisstílsins og mynda heild sem vert er að varðveita“ (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 226). Lóðin er einnig vel gróin og þar er margt trjáa svo sem greni og reynitré og aspir og mikill runnagróður áberandi á suðurlóð, sem snýr að Þingvallastræti. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki, væntanlega frá upphafi.  Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 10. febrúar 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr.756, 30. ágúst 1935. Fundur nr. 760, 3. okt. 1935. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins: Lögmannshlíðarkirkja

Í síðustu viku lauk ég umfjöllun um hús við Lögbergsgötu, sem eru aðeins fimm að tölu og næst á dagskrá er Helgamagrastrætið. Þar eru húsin miklu fleiri og líklega mun umfjöllunin um hana taka einhverja mánuði, hugsanlega áfangaskipt. En áður en ég færi mig úr Lögbergsgötunni bregðum við okkur upp fyrir þéttbýlið upp að Lögmannshlíð (úr Lögbergs- í Lögmanns-...allt frekar löglegt hér wink). En í Lögmannshlíð stendur geðþekk 19. aldar timburkirkja, elsta bygging Akureyrar norðan Glerár.

Lögmannshlíð er höfuðból og kirkjustaður frá fornu fari, P6190773og liggur hátt í hlíðunum ofan Glerárþorps, syðst í Kræklingahlíð við rætur Hlíðarfjalls, u.þ.b. 4 km frá miðbæ Akureyrar. Ekki hefur verið búskapur á Lögmannshlíð í hartnær hálfa öld og öll íbúðar- og útihús hafa verið jöfnuð við jörðu. En kirkja stendur enn á Lögmannshlíð sem og kirkjugarður, ásamt áhaldahúsi. Lögmannshlíðarkirkja er líklega önnur elsta kirkjan sem stendur innan sveitarfélagamarka Akureyrar. En kirkjan var byggð árið 1860 af þeim Jóhanni Einarssyni frá Syðri Haga á Árskógsströnd og Þorsteini Daníelssyni frá Skipalóni. Hafði sá síðarnefndi yfirumsjón og eftirlit með smíðinni en sá fyrrnefndi var yfirsmiður.

Lögmannshlíðarkirkja er timburhús á steyptum grunni,  með háu risi og forkirkju og turni til vesturs skv. hefðinni, klædd slagþili eða reisifjöl á veggjum og bárujárni á þaki. Krosspóstar eru í gluggum. Á vesturhlið sunnarlega er smár kvistur með einhalla þaki. Kirkjan er 10,10x5,73 að grunnfleti, auk turnbyggingar 1,86x3,22m.

Lögmannshlíðarkirkju vígði sr. Sveinbjörn Hallgrímsson P6190774í Glæsibæ þann 30. nóvember 1860. Var kirkjan þá í raun ekki fullgerð, og þegar hún var vísiteruð eða tekin út árið 1862 af sr. Daníel Halldórssyni prófasti var „[...] þakið ennþá einfalt og er það skarsúð, en vantar ytra þak“ (Guðmundur, Jóhannes og Kristján 1990: 682). Þess má til gamans að geta, að vísitasía kirkjunnar fór fram þann 29. ágúst 1862 en þann sama dag var Akureyrarkaupstaður stofnaður. Það var raunar ekki fyrr en árið 1866 að endanlegur reikningur var gefinn út fyrir kirkjusmíðinni, og kostaði hún þá 1157 ríkisdali og 11 skildinga. Ekki ætlar sá sem þetta ritar að reyna að snara þessari upphæð á núvirði. Árið 1877 vísiteraði sr. Davíð Guðmundsson prófastur Lögmannshlíðarkirkju og gerði athugasemdir við frágang kirkjuklukkna sem staðsettar voru á lofbita eða skör framarlega í kirkju. Mun hann hafa ítrekað þetta atriði á næstu árum, en úr þessu rættist árið 1886 þegar byggð var forkirkja sem hýsti klukkurnar á viðeigandi og fullnægjandi hátt. Sex árum síðar var turninn byggður á forkirkjuna og um svipað leyti kvisturinn á suðurþekju. Þannig mun kirkjan hafa fengið núverandi útlit árið 1892. Kirkjan hefur vitaskuld hlotið hinar ýmsu endurbætur, bæði að utan sem innan. Árið 1931 var kirkjan endurbætt hátt og lágt og það í orðsins fyllstu merkingu því þá var grunnurinn styrktur og múrhúðaður og klæðning sett á þak,og á sjötta áratugnum var kirkjan raflýst og máluð að utan. Svo fátt eitt sé nefnt.  Á meðal gripa og muna í kirkjunni má nefna altaristöflu frá 1648, predikunarstól frá 1781 auk þess sem orgel frá 1929 mun enn vera þar í notkun.

Lögmannshlíðarsókn tilheyrði framan af, og þegar núverandi kirkja var byggð, Glæsibæjarprestakalli, var útkirkja frá Glæsibæ en um 1880 var hún lögð undir Akureyrarprestakall. Um svipað leyti tók dreifbýli að byggjast í Glerárþorpi og þjónaði kirkjan sem guðshús Glerárþorpsbúa allar götur síðan. Árið 1981 varð til Glerárprestakall og var kirkja þess í Lögmannshlíð en fljótlega eftir það hófst bygging hinnar veglegu Glerárkirkju, sem vígð var 1987. En hið tæplega 160 ára guðshús í Lögmannshlíð er þó enn í notkun og fer þar fram helgihald að jafnaði einu sinni í mánuði fyrir sumartímann, auk ýmissa minni athafna. Kirkjunni er mjög vel við haldið og er sannkölluð perla sem og kirkjugarðurinn. Um 1990 var byggt  aðstöðuhús vestan kirkjunnar sem þjónar einnig sem salernisaðstaða auk afdreps fyrir presta sem þarna messa. Þar er einnig malbikað og hellulagt bílaplan og allt er vel upplýst.  Lögmannshlíðarkirkja var friðlýst skv. þjóðminjalögum árið 1990. Myndirnar eru teknar þann 19. júní 2018.

Heimildir: Finnur Birgisson. 2007. Lögmannshlíðarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson, ristj: Kirkjur Íslands, 10. Bindi. Reykjavík: Minjastofnun Íslands.

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Aðrar heimildir, sjá tengla í texta.

  


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2019
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 420131

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 320
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband