Hús dagsins: Helgamagrastræti 22

Árið 1945 fékk Valdemar Sigurðsson lóð og byggingarleyfi á lóð, sem þá taldist Helgamagrastræti 16, P5030915ásamt byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi; 11,6x7,5m að grunnfleti með útskoti, 5,6x1m til suðurs, kjallari úr steinsteypu, íbúðarhæðir úr steinsteypu og valmaþak úr timbri. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Magnússon og fullbyggt var húsið 1946. Hvers vegna og hvenær Helgamagrastræti 16 varð að 22 liggur ekki fyrir. Heimilisfangið Helgamagrastræti 22 kemur ekki fyrir á timarit.is fyrr en 1959, en Helgamagrastræti 16 aðeins einu sinni. Gæti í því tilviki aðeins verið um að ræða villu, því þar segir frá andláti Kristínar Sigfúsdóttur skálds, sem sögð er búsett þar. Þarna er væntanlega átt við næstu götu neðan við á Ytri Brekkunni, Munkaþverárstræti 16, en þar var Kristín búsett síðustu æviárin. En svo sem rakið er í greininni um Helgamagrastræti 20 vantar númerin 14, 16 og 18 inn í götuna.

Helgamagrastræti 22 er einlyft steinhús (steinsteypa og r-steinn) á háum kjallara eða jarðhæð og með lágu valmaþaki. Útskot er til suðurs og í kverkinni á milli inngöngudyr og steyptar tröppur. Á austurhlið er steypt viðbygging og fellur hún vel að húsinu.  Bárujárn er á þaki og múrhúð á veggjum, en einfaldir lóðréttir póstar með láréttum neðri fögum í gluggum (Eða einfaldir lóðréttir póstar með lóðréttum opnanlegum fögum). Voldugur sólpallur úr timbri við suðurhlið en þar er hæðarmismunur lóðar nýttur þannig að pallurinn er áfastur inngangi á hæð.  

Ekki er það venjan hér, að rekja eigenda- og íbúasögu húsanna í þaula. En það liggur hins vegar fyrir að Valdemar Sigurðsson, sem byggði húsið seldi það Kristjáni Pálssyni haustið 1959 og er það skjalfest í Viðskiptatíðindum fyrir Akureyri og Eyjafjarðarsýslu þann 1. des. 1959. Kristján var vélfræðingur, fæddur á Flateyri og bjó hann hér til æviloka 1972 og ekkja hans, Ása Helgadóttir frá Ísafirði um árabil eftir hans dag. Hafa síðan ýmsir búið hér en öllum auðnast að halda húsi og lóð vel við. Árið 2002 var byggt við húsið til austurs og þaki breytt, eftir teikningum Árna Gunnars Kristjánssonar.

Húsið er í mjög góðri hirðu og lóðin vel gróin og hirt. Baklóð hússins liggur að skemmtilegum, ca. 0,4 ha. túnbletti sem liggur á milli Helgamagrastrætis í austri, Hamarstígs í suðri, Bjarkarstígs í norðri og Munkaþverárstræti í austri. Þessi græni blettur er, eftir því sem ég kemst næst nafnlaus, en  þarna er um að ræða skemmtilega græna perlu í grónu hverfi. Í Húsakönnun 2015 hlýtur Helgamagrastræti 22 1. stigs varðveislugildi sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1011, þ. 20. aprí 1945. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 21

Helgamagrastræti 21 reisti Ragnar Jóhannesson búfræðingur og P5030909verslunarmaður frá Engimýri í Öxnadal árið 1946. Hann fékk haustið 1945 lóð og byggingarleyfi við Helgamagrastræti, þá þriðju norðan við Halldór Halldórsson [Hamarstígur 10] auk byggingaleyfis. Þess má geta, að téður Halldór teiknaði einmitt hús Ragnars, sem fékk byggingarleyfi fyrir húsi, einni hæð á kjallara, með flötu þaki. Veggir og loft úr steinsteypu, stærð 12x9,2m. Það má segja, að kjallari hússins sé í allra hæsta lagi og raunar álítur sá sem þetta ritar nær að segja húsið á tveimur hæðum eða tvílyft.

Helgamagrastræti 21 er tvílyft steinsteypuhús, einfalt og stórt funkis, með flötu þaki og útskotum að norðan og sunnan sem og að framan og í kverkinni þar eru inngöngudyr og steyptar tröppur, með tröppulaga handriði. Á suðurhlið eru svalir. Veggir eru klæddir steiningu, þak pappaklætt og lóðréttir póstar í gluggum.

Ragnar Jóhannesson, sem byggði húsið mun hafa búið hér í um áratug en vorið 1955 auglýsir hann húsið, sem er „2 4 herbergja íbúðarhæðir“ til sölu. Þá flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann hóf störf á aðalskrifstofu SÍS, en hann hafði fengist við ýmis verslunar- og skrifstofustörf hér í bæ. Eignkona Ragnars Jóhannessonar var Margrét Jósepsdóttir, fædd á Vatnsleysu í Skagafirði. Þau hjónin voru ötult garðræktarfólk og hlutu árið 1954 verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar fyrir garðinn hér að Helgamagrastræti 21.

Enn er garðurinn gróskumikill og vel hirtur; þar eru m.a. nokkur  reynitré. Nokkur hæðarmunur er á lóðunum við austanvert Helgamagrastrætið og standa húsin líklega 2-3m ofan götubrúnar. Upp við brekkuna á lóðarmörkum er steyptur veggur, sem mun upprunalegur. Hann er í góðri hirðu, líkt og lóðin og húsið sjálft. Helgamagrastræti 21 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1, sem hluti af áhugaverðri heild. Og það má með sanni segja, að hinn mikla heild funkishúsa frá fimmta áratug 20. aldar við Helgamagrastrætið sé áhugaverð. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 955, 3. Sept. 1945. Fundur 957, 24. sept. 1945.  Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Helgamagrastræti 20

Daginn fyrir Lýðveldisstofnun kom Bygginganefnd Akureyrar P5030913saman á fundi, einu sinni sem oftar. Meðal fundarefna var að veita Magnúsi Magnússyni trésmíðameistara við austanvert Helgamagrastrætið, norðan við Hamarstíg. Um haustið fékk Magnús byggingarleyfi fyrir steinsteypu, með flötu steinþaki, eina hæð með kjallara undir hálfu húsinu. Ekki er getið um stærð hússins að grunnfleti. Magnús gerði teikningarnar að húsinu sjálfur, og samkvæmt Húsakönnun 2015 mun þetta eina húsið sem Magnús teiknaði.

Helgamagrastræti 20, sem fullbyggt var 1946, er einlyft steinhús á háum kjallara, með lágu bárujárnklæddu valmaþaki og einföldum lóðréttum póstum í gluggum.  Nyrsti hluti framhliðar hússins skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru tröppur upp að inngöngudyrum.  

Enda þótt Helgamagrastræti 20 muni vera eina húsið sem Magnús Magnússon teiknaði má nærri geta, að hann hafi komið að byggingu margra húsa á starfsferli sínum.  Magnús , sem fæddur var á Ólafsfirði, bjó hér allt síðasta dags, 1989 og ekkja hans Þórlaug Vestmann bjó hér áfram en hún lést 1993. Ætla má, að þau hafi haldið húsinu og lóðinni við af mikilli natni en hvort tveggja er enn í dag í afbragðs hirðu, enda þótt húsið sé næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð. Á lóðarmörkum er vandaður steyptur veggur með járnavirki og mun hann upprunalegur, þ.e. frá sama tíma og húsið. Líkt og á svo mörgum lóðum á þessu svæði er trjágróður mjög áberandi á lóðinni og er margt gróskumikilla reynitrjáa við Helgamagrastræti 20. Húsið hlýtur 1. stigs varðveislugildi í Húsakönnun 2015 sem hluti merkrar heildar. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 980, þ. 16. júní 1944. Fundur nr. 990, 8. sept. 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Svipmyndir að sunnan

Um daginn birti ég nokkrar myndir, teknar á Eyjafjarðarsvæðinu. Hér koma nokkrar myndir, teknar sl. vikur á suðvesturhorninu.

20190704_223045

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er horft til NV af Ásfjalli ofan Hafnarfjarðar í kvöldsólinni þann 4. júlí sl.

20190704_223013

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til vesturs af Ásfjalli horft yfir Reykjanesskagan norðanverðan. Lengst til vinstri er hinn formfagri Keilir (379 m) en þarna má einnig sjá Trölladyngju (402m) nær miðri mynd.

P7060903

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er Innri Njarðvík, böðuð kvöldsól að kvöldi laugardagsins 6. júlí sl. Þarna er Keilir nokkurn veginn fyrir miðri mynd. Horft frá Grænásbraut á Ásbrú.

P7130901

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér eru tvær "kynslóðir" Garðskagavita, sá eldri til vinstri er byggðu 1897 en sá yngri, lengst til hægri er byggður 1944. Myndin tekin í fjörunni í Garðhúsavík við Garðskaga laugardaginn 13. júlí sl.

P7130906

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Margt má finna í fjöru, t.d. fjörukál (Cakile arctica) sem vex víða við Reykjanesskagann, þ.á.m. við Garðskaga. 

P7140899

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Suðvestan megin á Reykjanesskaganum má sjá Brimketil, nokkurs konar skál eða skessuketil í hrauninu við flæðarmálið, sem að jafnaði er full af öldum Atlantshafsins sem þarna dynja af ákafa. Myndin tekin sl. sunnudag, 14. júlí.

 


Hús dagsins: Helgamagrastræti 19

Áfram heldur "yfirreiðin" um Helgamagrastrætið í númeraröð, næst er það hús nr. 19. En hvað með Helgamagrastræti 14, 16 og 18? Við því er einfalt svar: Þau hús eru ekki til. Svo vill nefnilega til, að á suðausturhorni götunnar og Hamarstígs stendur nr. 12 en næsta hús austan megin, norðan Hamarstígs 8 er Helgamagrastræti 20. Hvers vegna er mér ókunnugt um en það er svosem ekki óalgengt í eldri götum Akureyrar, að fáein númer vanti inn í.

Helgamagrastræti 19 reistu bræðurnir Björgvin og Gústav Júlíussynir árið 1944.P5030912 Vorið 1942 fékk Björgvin lóð vestan Helgamagrastrætis, þriðju lóð frá Hamarstíg, þ.e. nr. 19, þá er Hamarstígur 10 meðtalin en þá var þar þegar risið hús. Tveimur árum síðar fékk Björgvin, í félagi við Gústav bróður sinn, byggingarleyfi fyrir tveggja hæða steinsteyptu húsi á lágum grunni með steinlofti að stærð 9,3x8,7m, auk útskots að sunnan 5,7x1,5m. Teikningarnar að húsinu, sem var frá upphafi tvíbýli með hvorri íbúð á sinni hæð, gerði Stefán Reykjalín.

Helgamagrastræti 19 er, líkt og segir í hinni 75 ára bókun byggingarnefndar, tveggja hæða steinsteypuhús á lágum grunni með útskoti til suðurs. Í kverkinni við útskotið eru svalir til suðvesturs með timburverki. Húsið er með flötu þaki, klætt þakpappa og veggir múrsléttaðir og einfaldir, lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í gluggum. Björgvin Júlíusson og kona hans Gréta Emilía Júlíusdóttir bjuggu hér allt til dánardægurs, Björgvin lést 1981 en Gréta 2005 og hafði hún þá búið hér í um 60 ár. Á móti þeim Björgvini og Grétu bjuggu hér, frá 1944 til 1971 þau Eggert Þorkelsson bifreiðarstjóri og Þórunn Ágústsdóttir. Síðan hafa ýmsir átt hér heima um lengri eða skemmri tíma. Húsið er næsta óbreytt frá fyrstu gerð, en er engu að síður í frábærri hirðu og lítur vel út.

 Lóðin er einnig vel gróin og standa þar mörg tré, einkum reynitré en trjágróður er mjög einkennandi fyrir þetta hverfi. Ekki er ólíklegt, að Björgvin eða Gréta hafi gróðursett einhver þeirra stæðilegu trjáa sem á lóðinni eru, eða Eggert eða Þórunn. Á lóðarmörkum er steyptur veggur, sem mun upprunalegur með járnavirki og er hann í mjög góðu standi, eins og húsið sjálft.  Húsið hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015 sem hluti heildar, og þá væntanlega þeirrar heildar sem funkishúsaröðin við Helgamagrastrætið er. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 956, þ. 24. apríl 1942. Fundur nr. 978, 30. maí 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

  


Svipmyndir úr Eyjafirði

Eins og gestum þessa vefjar má vera kunnugt um, geri ég þó nokkuð af því að viðra mig og ekki er óalgengt að myndavélin sé með í för. Líkt og æði margir, eða allflestir, er ég að vísu ævinlega með myndavél meðferðis í snjallsíma en mér þykir einhvern veginn skemmtilegra að taka upp MYNDAVÉLINA og mynda- enda þótt símamyndavélar séu margar hverjar orðnar vel sambærilegar við miðlungs vandaðar myndavélar. Hér eru nokkur sýnishorn af því sem fyrir augu hefur borið um vor og fyrri hluta sumars 2019.

P4250904

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Botnsfoss í Botnsreit á sumardaginn fyrsta, 25. apríl. Botnsreitur er neðan við bæina Botn og Hranastaði, ríflega 14 km frá Miðbæ Akureyrar.

P4250902  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P4280886

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fossar í Veigastaðaklettum í Vaðlaheiði sunnudaginn 28. apríl. Klettabelti á borð við þetta urðu til fyrir nokkrum milljónum ára, þegar hraun runnu á hraun ofan og mynduðu jarðlög. Gróður og jarðvegur varð að millilögum. Löngu, löngu síðar gróf skriðjökull ísaldar sig í gegn um jarðlögin og myndaði m.a. firði og dali og skildi eftir jökulruðninga og grettistök. 

P5120886

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svona líta Súlutindarnir út séðir frá Eyjafjarðarbraut vestri skammt sunnan Litla-Hóls, rúmlega 17km framan Akureyrar. Myndin tekin 12. maí.

P5250890

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svona litu hins vegar Kjarnaskógur, Hamrar, Naustahverfi og Eyjafjörður út í blíðunni laugardaginn 25. maí, ljósmyndari staddur sunnarlega í Lönguklettum. Sólríkt síðdegi, eða Sunny Afternoon eins og Ray Davies og félagar í The Kinks sungu um fyrir ríflega hálfri öld. 

P6100889

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þverá efri, eða Munkaþverá fellur úr Þverárdal í Eyjafjarðará um hrikalegt gil. Hversu djúpt það er veit ég ekki, en ég myndi giska á að frá gilbrún og niður að ánni séu a.m.k. 25 metrar, jafnvel 30. Þarna er vinsælt að klifra og síga. Gilið er tæpa 20 km frá Akureyri.

P6100900

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Yfir Þverárgilið hrikalega liggur ein elsta brú sem enn er í notkun á landinu. Hún er að stofni til frá 1913, en þá var steinboginn steyptur. Árið 1958 var brúin hins vegar endurbyggð og hækkuð og gamla brúin notuð sem undirstaða. Hér má lesa um þá framkvæmd. Nokkuð ljóst má vera, að brúarsmiðir hafa ekki mátt vera mjög lofthræddir. surprised

P6100901

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skammt ofan brúarinnar má sjá fossinn Goðafoss. Myndirnar við Munkaþverá eru teknar á annan í hvítasunnu, 10. júní.

P6200890

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að kvöldi 20. júní brá ég mér, einu sinni sem oftar, upp að Fálkafelli. Hér má sjá hesthúsahverfið Breiðholt í forgrunni, en á bak við Miðhúsahæð sést í ystu hverfi Brekkunnar og syðstu hverfi Glerárþorps.

P6220902

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjálfsáinn reyniviður gerir oft ekki miklar kröfur um vaxtarstað. Þessi hrísla hefur valið sér stað í mel í miðjum kletti norðan og ofan Hamra. Myndin er tekin þann 22. júní. 

 


Hús dagsins: Helgamagrastræti 17; Völuból. Endurbirtur pistill frá 2011

Áfram heldur yfirferð mín um Helgamagrastræti og nú er það fyrrum p4200003.jpgfélagsheimili Valkyrjunnar, kvenskátafélags Akureyrar, Helgamagrastræti 17 eða Völuból. Það hús tók ég fyrir vorið 2011 og hér birtist sá pistill svo til orðréttur. Þess má geta, að í upphafi skrifaði ég að Brynja Hlíðar hafi arfleitt skátahreyfinguna að húsinu, sem er ekki rétt, heldur keypti Valkyrjan húsið af Guðbrandi bróður hennar, sem það erfði. En þetta hafði ég um Helgamagrastræti 17 að segja 2011:

Fyrsta "Hús dagsins" á sumrinu 2011 er þetta reisulega steinhús við Helgamagrastræti 17. Húsið er tvílyft steinsteypuhús en hluti þess ein hæð á kjallara en norðurhluti tvær hæðir á kjallara og er húsið að mörgu leyti dæmigert fúnkís-hús, þar sem kassalögun og einfaldleiki er áberandi. Fúnkísstíll er einmitt mjög áberandi við Helgamagrastrætið en gatan byggðist að mestu 1935-50 þegar sú húsagerð var mjög ríkjandi. Einhverjir kunna að taka eftir skátaliljunni á garðshliðinu en Helgamagrastræti 17 er mjög tengt sögu skátastarfs á Akureyri. Húsið var nefnilega svo áratugum skipti skátaheimili Valkyrjunar, sem var félag kvenskáta á Akureyri. En lengst af var skátastarf í bænum kynjaskipt (slíkt tíðkast víða í heiminum enn í dag) og störfuðu kvenskátar undir nafni Valkyrjunnar og karlskátar hjá Skátafélagi Akureyrar en þessi félög voru sameinuð undir nafni Klakks árið 1987. Brynja Hlíðar lyfjafræðingur  sem var mikilvirkur skátaleiðtogi reisti húsið árið 1945. Byggði hún húsið sem íbúðarhús. En á þessum tíma var skátastarf í bænum mjög öflugt, bæði hjá SKFA og Valkyrjunni og þar fóru fremst í flokki áðurnefnd Brynja Hlíðar hjá Valkyrjunni og Tryggvi Þorsteinsson hjá Skátafélagi Akureyrar. Þau hefðu bæði orðið 100 ára í vetur, Brynja í nóvember sl. (f. 9.10.1910) en Tryggvi var fæddur 24.4.1911 og hefði því orðið 100 ára nk. sunnudag. Brynja Hlíðar fórst 29.maí 1947 í hinu hörmulega flugslysi við Héðinsfjörð. Guðbrandur, bróðir Brynju erfði húsið og upp úr 1950 keypti Valkyrjan húsið af honum og innréttuðu þarna félagsheimili.  Kölluðu þær húsið Völuból og var heimili Valkyrjunar í fjóra áratugi eða svo. Einnig var búið í húsinu á meðan það gengdi hlutverki skátaheimilis. Nú eru í húsinu tvær íbúðir að ég held. 

Við þetta má bæta, að húsið teiknaði Tryggvi Jónatansson og árið 1971 var byggt við húsið til norðurs, eftir teikningum Jóns Geirs Ágútssonar.  Þess má líka geta, að það var árið 1953 sem  Valkyrjan keypti húsið af Guðbrandi, m.a. með styrk úr Félagsheimilasjóði. Húsið hlaut nafnið Völuból en það nafn fylgdi félaginu, hafði m.a. áður verið á hermannabragga sem félagið hafði til afnota en í Degi í maí 1945 segir Brynja að sá kofi sé “skammgóður vermir og bíði niðurrifs”. Völuból var skátaheimili í hartnær fjóra áratugi, eða fram undir 1990, en skömmu áður var allt skátastarf á Akureyri sameinað undir nafni Klakks. Í Húsakönnun 2015 hlýtur húsið varðveislugildi 1 sem hluti merkrar heildar. Myndin er sú hin sama og birtist hér upphaflega, tekin 20. apríl 2011.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Ýmsar munnlegar heimildir...

 


Hús dagsins: Hamarstígur 10

Helgamagrastræti hefur verið til umfjöllunar hjá mér sl. vikur og verður áfram. Nú er ég kominn að horninu þar sem Hamarstígur þverar götuna og sjálfsagt að taka fyrir hornhúsið við síðarnefndu götuna.Hamarstígur 10 stendur norðvestanvert á þessu umrædda horni. 

Vorið 1938 bókaði Byggingarnefnd eftirfarandi:P5030916Nefndinni hafa borist umsóknir um hornlóðina vestan Helga-magrastrætis og norðan Hamarstígs frá Halldóri Halldórssyni byggingafulltrúa, dags. 21. febrúar og Jóni G. Sólnes bankaritara, dags. 22. febrúar . Þar sem umsókn Halldórs Halldórssonar, byggingarfulltrúa er fyrr fram komin leggur nefndin til að honum verði leigð lóðin.“ (Bygg.nefnd Ak. 1938: 815). Fyrstu kemur fyrstur fær, en því má svosem bæta við, að Jón Sólnes fékk ári síðar lóð og byggingarleyfi á öðru horni við Hamarstíg; nánar til tekið á horninu við Holtagötu. Halldór fékk síðan leyfi til að byggja íbúðarhús á lóðinni, eina hæða með flötu þaki og kjallara undir hálfu húsinu. Húsið byggt úr steinsteypu, útveggir steyptir tvöfaldir og loft og þak úr járnbentri steinsteypu, stærð 9x8,2m. Halldór gerði sjálfur teikningarnar að húsinu, sem fullbyggt var 1939. Þess má geta, að tæpum áratug fyrr reisti Halldór Hamarstíg 4, í félagi við Steinþór Jóhannsson.

Hamarstígur 10 er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með háu risi. Á framhlið eru tveir smáir kvistir. Á austurstafni eru inngöngudyr og steyptar tröppur en sólskáli á vesturstafni.  Horngluggar í anda funkisstefnunnar til suðurs. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki.

Halldór Halldórsson byggingafulltrúi var einn ötulasti hönnuður bygginga á Akureyri á áratugunum milli 1920-1940 og skipta hús eftir hann hér í bæ tugum. Í Húsakönnun 2015 fyrir Ytri Brekkuna (Norðurbrekkuna), þar sem tekið er fyrir svæðið sem afmarkast af Þingvallastræti í norðri, Þórunnarstræti í vestri og Oddeyrargötu og Brekkugötu í austri er að finna 21 hús teiknað af Halldóri.  Hann var fæddur 4. mars árið 1900 í Garðsvík á Svalbarðsströnd og lauk prófi í byggingarfræði í Hildisheim í Þýskalandi árið 1924. Hann var byggingafulltrúi og byggingameistari hér í bæ til ársins 1944 en fluttist þá suður og hóf störf hjá Skipulagi ríkis og bæja. Síðar varð hann forstjóri Húsnæðismálastofnunar ríkisins við stofnun hennar, 1957 og gegndi hann því starfi til dánardægurs. Hér má sjá minningargrein Magnúsar Inga Ingvarssonar um Halldór, sem lést 23. ágúst 1969. Halldór bjó hér ásamt fjölskyldu sinni til ársins 1944, en þá auglýsir hann húsið til sölu.  Kona Halldórs var Sigurlaug Ólafsdóttir frá Krossum á Árskógsströnd. Margir hafa átt húsið og búið á eftir Halldóri og Sigurlaugu, og öllum auðnast að halda húsi og lóð vel við.

Upprunalega var húsið funkishús með flötu þaki, ekki ósvipað húsinu handan hornsins, Hamarstíg 8, og húsaröð Þóris Baldvinssonar við Helgamagrastræti sunnan við hornið, kennd við Samvinnubyggingafélagið. Árið 1982 var hins vegar byggð rishæð ofan á húsið ásamt sólskála, eftir teikningum Gísla Kristinssonar. Fimm árum síðar voru settir kvistir á risið, eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Fékk húsið þá það lag sem það síðan hefur. Húsið mun alla tíð hafa verið einbýlishús. Hamarstígur 10 hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015. Það er traustlegt og glæst og í mjög góðri og sama er að segja af lóðinni sem er mjög vel gróin miklum runnum og trjám, m.a. reyni- og grenitrjám. Myndin er tekin að vorlagi, nánar til tekið þann 3. maí 2019, og gróandinn að taka við sér svo sem sjá má.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 815, þ. 23. apríl 1938. Fundur nr. 818, 16. júní 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 15

Helgamagrastræti 15, sem stendur á suðvestan megin á P2240895horni Hamarstígs og Helgamagrastrætis, reisti Oddur Kristjánsson byggingameistari árið 1946, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar.  Byggingarleyfi Odds hljóðaði upp á „Hús úr steinsteypu með valmaþaki, tvær hæðir með kjallara undir hluta hússins. Stærð 9,3x12,5m“.  Þessi lýsing á raunar enn við, enda húsið svo til óbreytt frá upphafi að ytra byrði. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, á lágum kjallara. Útskot er suðurs og þaðan gengið út svalir á annarri hæð en inngöngudyr og steyptar tröppur norðaustan megin. Gluggapóstar eru ýmist lóðréttir eða þverpóstar, veggir eru múrsléttaðir en bárujárn á þaki.

Oddur Kristjánsson, sem byggði Helgamagrastræti 15 var fæddur árið 1901 í Saurbæ í Eyjafirði. Hann nam byggingariðn hjá Eggert Melsteð á Akureyri en fluttist austur á Fljótsdalshérað þar sem hann bjó og starfaði við iðn sína á fjórða áratugnum. Hann byggði þar þó nokkur hús og líklega er það þekktasta Skriðuklaustur Gunnars Gunnarssonar rithöfundar, sem byggt er 1939. Árið 1942 fluttist hann aftur til Akureyrar og byggði Helgamagrastræti 15 fjórum árum síðar. Oddur starfaði sem byggingameistari hjá Akureyrarbæ og kom að byggingu fjölmagra stórhýsa og opinberra bygginga í bænum, þ.á.m. P4010504sundlaugarhúsinu, sjúkrahúsinu, bæjarskrifstofum o.fl. Auk þess vann hann sem leiktjaldasmiður og leiksviðsstjóri hjá Leikfélagi Akureyri. Eiginkona Odds var Guðbjörg Guðmundsdóttir Kjerúlf,. Guðbjörg var frá Hafursá við Hallormstað á Hérðaði, en þess má geta, að þau kynntust þegar Oddur vann við byggingu íbúðarhúss þar. Oddur og Guðbjörg bjuggu hér til ársins 1971 að þau fluttust til Reykjavíkur.

Helgamagrastræti 15 er reisulegt hús og í góðri hirðu. Það mun teiknað sem tvíbýlishús, hvor íbúð á sinni hæð og er svo enn. Húsið hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015 sem hluti af merkri heild. Á lóðinni ber mikið á gróskumiklum trjám, framan við húsið er mikið lerkitré  og á baklóðinni er gróskumikið og stæðilegt grenitré. Síðuhafi kann ekki að tegundagreina það nákvæmlega en myndi giska á annað hvort sitka- eða rauðgreni. En tréð er a.m.k. 15 m hátt og til mikillar prýði. Myndin af húsinu er tekin 24. febrúar 2019, en myndin af trénu er tekin 1. apríl 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1037, þ. 2. nóv. 1945. Fundur nr. 1056, 3. maí 1946. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Skriðuklaustur, hús Gunnars Gunnarssonar (1889-1975) rithöfundar. Oddur Kristjánsson mun hafa stýrt byggingu þessa merka og glæsta húss en húsið er byggt 1939. Sjö árum síðar byggði Oddur Helgamagrastræti 15. Myndin af Skriðuklaustri er tekin 28. júní 2007. 

P6280043


Hús dagsins: Helgamagrastræti 13

Helgamagrastræti 13 reistu Jón Helgason skósmiður og PetrónellaP2240893 Pétursdóttir árið 1936, en Jón fékk haustið 1936 „aðra lóð norðan við hús Jóhanns Kröyer“ [Helgamagrastræti 9]. Hann fékk að reisa sams konar hús og þau sem þegar voru risin og voru að rísa við Helgamagrastræti, tvær hæðir með flötu þaki og kjallaralaus, veggir og loft úr steinsteypu, 7,6x8,10m að grunnfleti, eftir teikningu Þóris Baldvinssonar.

Helgamagrastræti 13 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, sem og svalir á efri hæð á SA horni. Perluákast er á veggjum og bárujárn á þaki og þverpóstar í gluggum. Á norðurhlið er útskot, jafn hátt húsinu og valmaþak slúttir þak yfir svalirnar.

Jón Helgason sem byggði húsið, var lengst af verkstjóri á skógerðinni Iðunni á Gleráreyrum og vann þar í meira en 40 ár. Hann var frá Neðri Núpi í Miðfirði. Jón og Petrónella, sem var frá Sigtúnum í Öngulsstaðahreppi (nú Eyjafjarðarsveit) bjuggu hér í hálfa öld, eða allt þar til hún lést árið 1987. Síðan hafa ýmsir búið í  Helgamagrastræti 13 og öllum auðnast að halda þessu glæsta og traustlega húsi vel við, sem og gróskumikilli lóð. Samkvæmt Húsakönnun 2015 var byggt við húsið árið 1939 til vesturs og árið 1950 var byggt við það til norðurs og árið 1957 var byggt ofan á húsið, eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Fékk húsið þá það lag sem það hefur æ síðan.

Helgamagrastræti 13 er traustlegt hús og í góðri hirðu. Þá er einnig bílskúr á lóðarmörkum norðaustanmegin, líklega byggður á svipuðum tíma og húsið og mun hann sá eini í þessari húsaröð Samvinnubyggingafélagsins. Áfastur honum er lágur steyptur veggur með járnavirki sem einnig er vel við haldið.  Lóðin er vel gróin og hefur verið svo allt frá tíð Jóns Helgasonar og Petrónellu. Ber þar mikið á stæðilegum birkitrjám, en það er sammerkt með flestum húsum við Helgamagrastrætið að þar eru ræktarlegir og vel hirtir garðar og margt gróskumikilla trjáa.  Ein  íbúð er í húsinu.

Helgamagrastræti 13, sem er annað hús sunnan og austan megin frá horni götunnar og Hamarstígs er yst í röð sams konar funkishúsa. Þessi hús, sem flestöll voru reist af starfsmönnum KEA voru byggð árin 1936-37. Þessi húsaröð var þá sú efsta í bænum; það sem lá ofan og vestan Þórunnarstrætis var „úti í sveit“. Alls urðu þessi hús níu að tölu, ef talið eru með Þingvallastræti 16 sem reist var eftir áþekkri teikningu en ekki þeirri sömu og  Helgamagrastræti 1-13, 4 og 6. Öll húsin teiknaði Þórir Baldvinsson. Helgamagrastræti 2 er einnig mjög svipað, enda mun Skarphéðinn Ásgeirsson hafa stuðst við útlit og yfirbragð nærliggjandi húsa við hönnun og byggingu þess.  Þessi funkishúsaröð Samvinnubyggingafélagsins er metin sem „varðveisluverð heild“ í Húsakönnun 2015 og hljóta húsin varðveislugildi 2, sem hluti þeirrar merku heildar.  Þar á meðal, að sjálfsögðu, Helgamagrastræti 13. Myndin er tekin þann 24. febrúar 2019, en hér má sjá mynd frá 1940 eða þar um bil, af funkishúsaröðinni við Helgamagrastræti ásamt Þingvallastræti 16. 

Heimildir:  Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 780, þ. 5. sept. 1936. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2019
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 88
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 564
  • Frá upphafi: 417785

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 361
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband