Hús dagsins: Helgamagrastræti 28

Í ágúst 1944 fékk Gísli Kristjánsson útgerðarmaður frá Norðfirði lóð og byggingarleyfiP5030907 á Helgamagrastræti 28. Húsið átti að byggjast úr steinsteypu, ein hæð á kjallara með valmaþaki, 12,2x9,5m að útskots að vestanverðu, 6,0x1,0m. Af einhverjum ástæðum setti Bygginganefnd Gísla það skilyrði fyrir byggingaleyfinu, að bygging skyldi hafin eigi síðar en 21. mars 1945. Að öllum líkindum hefur það gengið eftir, því 75 árum síðar stendur þetta stórglæsilega steinsteypuhús á Helgamagrastræti 28. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson.

Helgamagrastræti 28 er einlyft steinhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Útskot til vesturs á framhlið og í kverkinni á milli eru svalir sem skaga út fyrir suðurhlið og áfastur er sólpallur. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og bárujárn er á þaki en veggir eru múrhúðaðir. Þau Gísli Kristjánsson og Fanny Ingvarsdóttir, sem bæði voru frá Norðfirði (Gísli var reyndar fæddur í Mjóafirði) bjuggu hér í áratug eða til ársins 1955. Árið 1960 mun eigandi Helgamagrastrætis 28 vera Andrés Pétursson, en ýmsir hafa átt húsið og búið hér gegn um tíðina. Húsið hefur þó líklega tekið mjög litlum breytingum gegn um tíðina, en jafnframt hlotið gott viðhald. Það er allavega í afbragðs góðri hirðu og lítur mjög vel út, nýlegur sólpallur er á lóð sem hefur nokkuð nýlega (fyrir fáeinum árum) hlotið endurbætur. Allur frágangur á húsi og lóð er hinn snyrtilegasti og til prýði í umhverfinu. Sem hornhús tekur Helgamagrastræti að nokkru leyti einnig þátt í götumynd Bjarkarstígs. Húsið, sem er einbýlishús, hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.  

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 986, þ. 18. ágúst 1944 Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 27

Helgamagrastræti 27 stendur á norðaustan megin á horninu við Bjarkarstíg.P5030903 Norðan við húsið er lóð leikskólans Hólmasólar, en þar hefur verið leikvöllur frá miðri 20. öld. Húsið byggði Geir Sæmundsson en hann fékk árið 1945 leyfi til að reisa hús, eina hæð á háum kjallara, byggt úr steinsteypu með steinlofti og flötu steinþaki. Grunnflötur ferningslaga; 9,6x9,6m að viðbættu útskoti að austan, 1x4,1m. Teikningarnar að húsinu gerði bróðir Geirs, Tryggvi Sæmundsson byggingafræðingur og múrarameistari.  

Helgamagrastræti 27 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara (jarðhæð) og með lágu valmaþaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, og inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim á framhlið, í skjóli við útskot til austurs. Bárujárn er á þaki og veggir múrhúðaðir. Enda þótt byggingarleyfi hafi miðast við flatt þak er ekki að sjá á gögnum á Landupplýsingakerfi eða í Húsakönnun 2015, að valmaþakið hafi verið byggt síðar.

Geir Sæmundsson, sem byggði húsið, starfaði sem trésmiður. Hann nam þá iðn hjá Adam Magnússyni (Bjarkarstígur 2) og vann hjá honum lengi vel. Geir var kvæntur Elínu Sveinsdóttur frá Steindyrum á Látraströnd, en Geir var fæddur á Hjalteyri. Þau Elín og Geir bjuggu hér í rúma hálfa öld, eða allt til ársins 1998 og hafa líkast til alla tíð haldið húsi og garði við af alúð og natni. Líkt og víða annars staðar á Brekkunni er lóðin prýdd trjám og öðrum gróðri. Ber þar mikið á gróskumiklum birki- og reynitrjám nær allan hringinn um lóðina. Væntanlega eru þau tré gróðursett af þeim Geir Sæmundssyni og Elínu Sveinsdóttur. Húsið, sem mun nokkurn veginn í upprunalegri mynd að ytra byrði, er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfi sínu, og hlýtur það varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015, sem hluti af áhugaverðri heild og fær þar umsögnina: „Húsið sér vel í götumyndinni og er hluti af samfelldri röð funkishúsa“ (Ak. bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 91)  Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin á sólríkum vordegi, 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1022, þ. 15. júní 1945 Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 26

Skráð byggingarár Helgamagrastrætis 26 er 1949. En það var fjórum árum fyrr,P5030908 eða í ágúst 1945, sem Sigurður Guðmundsson var úthlutuð lóðin.  Þess má geta til gamans, að  sama fundi og Sigurði var veitt lóðin, ákvað Bygginganefnd að nýta svæðið á vestan Helgamagrastrætis, norðan við hornlóðina að Bjarkarstíg sem leikvöll fyrir börn. Þar stendur nú leikskólinn Hólmasól. Haustið 1945 fékk Sigurður síðan byggingarleyfi, fyrir hús á einni hæð á háum kjallara; kjallari úr steinsteypu en hæð úr r-steini. Stærð að grunnfleti 8,3x10,56m. Teikningarnar, sem ekki eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, gerði Friðjón Axfjörð.

Helgamagrastræti 26 er einlyft steinhús á háum kjallara, raunar mætti segja húsið tvílyft með þaki sem kallast í Húsakönnun e.k. mansard, kemur þeim sem þetta ritar fyrir sjónir sem nokkurs konar blendingur valmaþaks og mansardriss. Þakhæðin er nánast fullburðug hæð, þannig að með góðum vilja má jafnvel kalla húsið þrílyft með lágu valmaþaki. Gluggar eru flestir fjórskiptir með lóðréttum póstum en í stigagangsglugga á framhlið eru krosspóstar. Veggir eru ýmist klæddir plasti eða málmi (jarðhæð múrhúðuð) og bárujárn á þaki. Yfir inngangi er dyraskýli og svalir á þakhæð til suðurs.

Árið 1960 var byggð ofan á húsið þakhæð með þessu sérstaka valma/mansard lagi og eru þó nokkur hús hér í bæ, sem fengu sambærilega þaklyftingu um og upp miðri 20 . öld. Var þar í flestum tilvikum um að ræða tiltölulega nýleg funkishús (þá um 15-30 ára) sem höfðu verið flötu eða valmaþaki. Má t.d. nefna Munkaþverárstræti 12 og Fjólugötu 18 á Oddeyri. Teikningarnar að þessum breytingum gerði Ásgeir Valdemarsson.

Sigurður Guðmundsson, klæðskeri og forstjóri var fæddur árið 1917 að Ferjubakka í Mýrarsýslu. Hann rak um árabil, eða frá 1955, Klæðaverslun Sigurðar Guðmundssonar sem lengi vel var til húsa í Hafnarstræti 96, París.   Elsta heimildin sem finna má um timarit.is um Helgamagrastræti 26 er nánast réttra 70 ára þegar þetta er ritað, en þann 24. ágúst 1949 auglýsir Sigurður að hann vanti saumastúlkur til starfa. Sigurður bjó hér allt til dánardægurs, 1993. Kona Sigurðar var Guðrún Karitas Karlsdóttir, frá Veisu í Fnjóskadal. Bróðir hennar, Arnór Karlsson, var einnig búsettur hér um áratugaskeið. Hann þekkja flestir Akureyringar og nærsveitarmenn sem Arnór í Blómabúðinni en hann stundaði blómasölu í meira en hálfa öld, lengst af undir merkjum Blómabúðarinnar Laufás, sem hann stofnaði 1966. Þeir mágar Sigurður og Arnór stunduðu saman verslunarrekstur í París (húsinu, ekki borginni) um áratugaskeið og eiga Akureyringar á öllum aldri sjálfsagt ýmsar minningar tengdar þeim og verslunum þeirra.

Helgamagrastræti 26 er stórbrotið funkishús, þakhæðin frá 1960 setur þó nokkurn svip á það. Húsið er í góðri hirðu og sömu sögu er að segja af lóð, þar eru nokkur gróskumikil reynitré. Á lóðarmörkum er lágur steyptur veggur með stöplum, sem mun upprunalegur en í góðri hirðu. Ein íbúð mun í húsinu. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1026, þ. 10. ágúst 1945. Fundur nr. 1034, 12. okt. 1945 Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 25

Helgamagrastræti 25 reisti Snæbjörn Þorleifsson P5030906bifreiðaeftirlitsmaður og ökukennari árið 1945. Hann falaðist eftir lóðinni norðan við hús Guðmundar Tómassonar, þ.e. Helgamagrastræti 23. Á sama tíma hafði Rafveita Akureyrar uppi áform um að reisa spennistöð þarna og var lóðarveitingin háð þeim skilyrðum, að Snæbjörn næði samkomulagi við rafveitustjóra. Svo virðist, sem þeir samningar Snæbjörns og Rafveitunnar hafi þegar náðst, því á þessum sama fundi Byggingarnefndar liggur fyrir, að spennistöðin verði í kjallara hússins. Fékk Snæbjörn þannig byggingarleyfi,  fyrir húsi á einni hæð á kjallara, steinsteyptu með steingólfi. Kjallari undir hálfu húsinu. Stærð 12,65x8,85m auk útskots að austan 5,5x1m.  Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Axfjörð.

Helgamagrastræti 25 er einlyft steinhús, og flokkast undir einfalt funkis. Húsið skiptist raunar í tvær álmur, sú syðri er á lágum grunni með valmaþaki en sú ytri á háum kjallara og með valmaþaki. Byggingarlag á borð við þetta, að hluti hús standi „hálfri hæð“ ofar er jafnan kallað „byggt á pöllum“. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum, veggir múrsléttaðir og bárujárn á þaki.

Snæbjörn Þorleifsson, sem fæddur var á Grýtu í Öngulsstaðahreppi, var um árabil fulltrúi hjá Bifreiðaeftirlitinu og ökukennari, en starfaði áður sem bifreiðarstjóri. Hann var einn þeirra fyrstu hér í bæ til þess að öðlast ökuréttindi; handhafi ökuskírteinis nr. 14. Snæbjörn bjó hér til æviloka, en hann lést árið 1959, aðeins 58 ára að aldri. Snæbjörn Þorleifsson var kvæntur Jóhönnu Þorvaldsdóttur. Ýmsir hafa átt húsið og búið þar, svo sem gengur og gerist með tæplega 75 ára gömul hús. Árið 1994 var þakið endurnýjað; núverandi valmaþak byggt, eftir teikningum Birgis Ágústssonar.

Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út, og tekur sem hornhús þátt götumyndumP5030905 Bjarkarstígs og Helgamagrastrætis. Húsið hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015, sem hluti af áhugaverðri heild. Á lóðarmörkum er, líkt og víðs vegar við Helgamagrastrætið, steyptur veggur með járnavirki og lóðin er vel gróin og í góðri hirðu.  Ber þar e.t.v. mest á mikilli ösp, sem síðuhafi giskar á að sé Alaskaösp á norðvesturhorni lóðar. Öspin er a.m.k. 15 m há, jafnvel öðru hvoru megin við 20 metrana. Ein íbúð er í húsinu. Myndirnar eru teknar þann 3. maí 2019.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1009, þ. 6. apríl 1945. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 24

Árið 1946 fékk Aðalsteinn Einarsson lóð við HelgamagrastrætiP5030910 ásamt byggingarleyfi fyrir húsi, steinsteyptu á  einni hæð með valmaþaki og með kjallara undir hluta, 13x10m auk útskots 6,6x2,2m. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1949, en það er alltént skráð byggingarár þess.

Helgamagrastræti 24 er tvílyft steinsteypuhús (í byggingarleyfi er reyndar talað um eina hæð á kjallara, og neðri hæð er vitaskuld niðurgrafin að hluta ) með lágu valmaþaki. Á framhlið er útskot og í kverkinni á milli inngöngudyr. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki, og einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Á suðurhlið er gluggi sem er áberandi stærri en aðrir gluggar hússins, að þeirri gerð sem undirritaður hefur jafnan kallað „stofuglugga“ og utan um hann steyptur rammi auk þess sem steypt lóðrétt bönd prýða útskot framhliðar.

Aðalsteinn Einarsson, sem byggði Helgamagrastræti 24 var frá Eyrarlandi í Öngulsstaðahreppi (nú Eyjafjarðarsveit) og starfandi lengi vel sem aðalgjaldkeri Kaupfélags Eyfirðinga, KEA. Hann var sonur Einars Árnasonar, sem sat á Alþingi fyrir Eyfirðinga árin 1916- ´42 og gegndi embætti fjármálaráðherra árin 1929-´31. Eiginkona Aðalsteins, Ólöf Friðriksdóttir, sem var frá Selabóli í Önundarfirði, starfaði áratugum saman sem hjúkrunarkona,  og veitti ungbarnaeftirlitinu forstöðu um árabil. Eflaust eru þeir ófáir Akureyringarnar sem notið hafa umönnunar hennar í upphafi æviskeiðs. Þá var hún mjög virk í félagsstarfi hvers konar, s.s. í Stúkunni Brynju, þar sem hún sat í stjórn og Friðbjarnarhúsnefnd. Hún var og virk  í andlegum málefnum, var félagi í Guðspekifélagi Íslands í hálfa öld. Aðalsteinn og Ólöf bjuggu hér um áratugaskeið,  eða til dánardægra, hann lést 1985 en hún 1996. Þau ræktuðu garð sinn af mikilli natni, og hlutu þau verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar árið 1956 fyrir fegursta skrúðgarðinn á Norðurbrekku (Þarna er þessi bæjarhluti kallaður Norðurbrekka, en hvort tveggja mun „viðurkennt“, Norðurbrekka og Ytri Brekka).

Húsið og lóðin hefur  líkast til fengið afbragð viðhald frá upphafi enda ástand húss mjög gott. Það mun nokkurn veginn óbreytt frá upphafi að ytra byrði en 2013 munu hafa verið gerðar „ýmsar breytingar á innra skipulagi“ skv. Húsakönnun 2015. Hönnuðir þeirra breytinga voru Einar Hlér Einarsson og Shrutti Basappa. Í áðurnefndri Húsakönnun er húsið metið með varðveislugildi 1 sem hluti áhugaverðrar heildar. Sem fyrr segir, eru hús og lóð í góðri hirðu og sama er einnig að segja að steyptri stöplagirðingu með járnavirki á lóðarmörkum. Lóðin er prýdd ýmsum trjám og gróðri, ber þar mest á miklu lerkitré. Væntanlega er þarna um að ræða tré sem þau Aðalsteinn og Ólöf gróðursettu á sínum tíma. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1059, þ. 19. júlí 1946. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 23

Helgamagrastræti 23 reisti Guðmundur Tómasson byggingameistari árið 1944.P8260794 Hann fékk í ágúst 1942 lóð við Helgmagrastræti, aðra lóð sunnan við fyrirhugaðan veg að Staðarhóli. Staðarhóll var býli sem stóð spölkorn ofar og vestar á Brekkunni, þar sem nú er Ásvegur sunnan Hamarkotsklappa (efri). Umræddur vegur er líkast til þar sem nú er efri hluti Bjarkarstígs, á milli Helgamagrastrætis og Þórunnarstrætis. Af Staðarhóli er það að segja, að íbúðarhúsið, timburhús frá fyrri hluta 20. aldar, brann til grunna í ágúst 1957 og í kjölfarið leið búskapur þar undir lok.

Guðmundur Tómasson fékk byggingarleyfi haustið 1943 fyrir húsi á lóð sinni; hús á tveimur hæðum byggt úr steinsteypu með flötu þaki, að stærð 14,4x9,7m. Guðmundur Tómasson gerði sjálfur teikningarnar að húsinu.

Helgamagrastræti 23 er funkishús af stærri gerð, tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og upphækkun á þakkanti að framan, sem gefur húsinu ákveðinn svip og einkenni. Á framhlið eru inndregnar svalir með skrautlegu járnavirki á handriði og inngöngudyr neðana við. Á suðurhlið er útskot til SA, og svalir í kverkinni þar á milli. Framhlið hússins er samhverf um miðju, horngluggar til norðurs og suðurs. Einfaldir lóðréttir póstar með láréttum millifögum eru í flestum gluggum, steining á veggjum og þakpappi á þaki. Húsið er nokkuð sérstakt að gerð, svipmikið og „voldugt“ og er hugsanlega undir áhrifum frá hamra- eða lýðveldisstíl Guðjóns Samúelssonar. (sbr. Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 21).

Guðmundur Tómasson var frá  Bústöðum í Goðdalasókn í Skagafirði. Eiginkona hans, Ragna Kemp var einnig frá Skagafirði, nánar til tekið frá Illugastöðum í Laxárdal. Guðmundur var trésmíðameistari og starfrækti lengi vel verkstæði en söðlaði síðar um og stofnaði hina valinkunnu kexverksmiðju Lórelei. Hann teiknaði nokkur hús á ytri Brekkunni á fyrri hluta 20. aldar, m.a. Hlíðargötu 1 og Munkaþverárstræti. Bróðir Guðmundar, Eyþór, var einnig forstjóri og löngum kenndur við sælgætisgerðina Lindu. Guðmundur Tómasson bjó hér til dánardægurs árið 1966 og fluttist Ragna til Reykjavíkur fljótlega eftir það.

Helgamagrastræti 23 er í afbragðs góðri hirðu og  hefur nýlega hlotið gagngerar endurbætur og hafa þær tekist mjög vel upp á allan hátt. Á sama tíma voru gerðar gagngerar endurbætur á lóð en þá um leið lappað upp á upprunalegan steinvegg og tröppur að götu. Endurbætur og frágangur  á hús og lóð er til mikillar fyrirmyndar húsið og umhverfi þess til stökustu prýði í umhverfi sínu. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015 en fær jafnframt + fyrir byggingarlist sem „sérstakt hús“.  Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 26. ágúst 2018.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, þ. 7. ágúst 1942.  Fundur nr. 978, 30. maí 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Ágúst 2019
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 11
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 428
  • Frá upphafi: 417797

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 239
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband