Hús dagsins: Strandgata 17

Austan megin á einu fjölfarnasta götuhorni Akureyrar stendur snoturt forskalað timburhús með tveimur kvistum. Vesturstafn þess prýða jafnan vegglistaverk, en húsið sjálft má sjálfsagt muna sinn fífil fegurri. Afstaða hússins við götuna er nokkuð óþægileg, sér í lagi fyrir notendur gangstéttar, því þar skilur innan við metrabreið stétt að norðurhorn hússins og mestu umferðargötu Akureyrar þ.e. Glerárgötu. Snjóruðningar að vetri gera aðstæður enn verri. En þegar þetta er ritað stendur hvort tveggja til bóta, ástand hússins og öryggismál vegfarenda, því nýr eigandi hyggst færa þetta tæplega 140 ára gamla timburhús til upprunalegs horfs. Og svo vill til, að sá hluti hússins sem skagar út í Glerárgötuna er síðari tíma viðbygging og verður fjarlægð. Um er að ræða Strandgötu 17.PC081000

     Á  tveimur fundum Bygginganefndar Akureyrar í maí 1886 voru mældar út lóðir, sem síðar fengu númerin 17, 19 og 21 við Strandgötu, og vill svo skemmtilega til, að öll þessi þrjú hús standa enn. Einar Pálsson og Þórður Brynjólfsson fengu mælda út lóð vestan við Hauskenshús og Jón Jóhannesson næstu lóð vestan við þá. Þriðji lóðarhafinn var Pétur Tærgesen, sem fékk næstu lóð vestan við téðan Jón Jóhannesson og skyldu húsin standa í línu hvert við annað. Í Húsakönnun um Oddeyri er P. Tærgesen sagður hafa fengið lóðina árið 1885 en mögulega er það misritun. En það er heldur ekki útilokað, að húsið hafi verið reist árið áður og gengið frá lóðarútmælingu vorið eftir. Ekki er getið neins byggingaleyfis eða lýsingar en um var að ræða einlyft hús með háu risi og miðjukvisti og þremur gluggabilum á framhlið og skúr á norðurhlið. Fékk hann útmælda lóð sem átti að vera í línu við næstu hús. Þeir sem keyrt hafa gegnum Akureyri ættu að kannast við þetta hús en Þjóðvegur 1 (Glerárgata) liggur aðeins nokkra tugi cm frá vesturgafli þess.

   Strandgata 17 er einlyft timburhús með háu risi og tveimur stórum kvistum á framhlið. Á austurgafli er forstofubygging og útskot eða álma, með stafni til norðurs, vestanmegin. Bárujárn er á þaki og á veggjum munu kvarsmulnings-steinaðar asbestplötur. Í flestum gluggum eru tvískiptir þverpóstar.  

    Af Pétri Tærgesen, sem hét fullu nafni Hans Pétur Tærgesen er það að segja, að mjög skömmu eftir að hann reisti húsið, 1886 eða ´87 fluttist hann til Vesturheims. Heimildum ber ekki alveg saman: Samkvæmt islendingabok.is fluttist hann vestur 1887 en samkvæmt sögusetri Manitobafylkis í Kanada, kom hann þangað árið áður. Pétur Tærgesen settist, eins og margir Íslendingar, að í Gimli, Winnipeg. Þar stundaði hann verslunarrekstur um áratugaskeið. Hann var tvisvar bæjarstjóri í Gimli, 1911-13 og 1919-23. Hans Pétur Tærgesen lést í Gimli árið 1954, 92 ára að aldri. Það er gaman að segja frá því, að Tærgesen mun hafa reist hús í Gimli árið 1911, Tergesen House, 38 Fourt Avenue  Þannig eru Tærgesenshúsin tvö, hvort í sinni heimsálfu! Og raunar eru þau þrjú, því Tærgesen reisti árið 1898 verslunarhús í Gimli, H.P. Tergesen General store. Og það sem meira er, verslunin H.P. Tergesen & sons er ennþá starfandi í sama húsi í Gimli. (Í Vesturheimi hefur sá ritháttur, að rita nafnið með „e“ komist á, enda „æ“ framandi stafur í enskri tungu. Hér verður hvort tveggja viðhaft, kanadíski rithátturinn þar sem við á og öfugt).PC081001

    Sá sem keypti hið nýreista hús af Tærgesen mun hafa verið Carl Holm, kaupmaður. Árið 1890 kallast húsið Hús Carls Holm, Oddeyri í Manntali og þar eru til heimilis, Carl og Nielsina Holm og dóttir þeirra, Hansína Holm. Einnig er skráður þar til heimilis Tómas Þorsteinsson, 75 ára, titlaður uppgjafaprestur. Árið 1907 eignaðist  Bjarni Einarsson, skipasmiður og útgerðarmaður, frá Kletti í Borgarfirði húsið. Í september 1908 fékk hann leyfi til að lengja húsið til vesturs, viðbygging 5 álnum breiðari en upprunalegt hús, með kvisti á framhlið og eldvarnarmúr á lóðarmörkum. Lagði hann fram teikningu að þessum breytingum. Þar er um að ræða vesturálmu hússins, með vestri kvistinum (nær Glerárgötu). Árið 1921 var innréttuð verslun í vesturhluta hússins og var þá settur á verslunargluggi.

    Í eystri hluta hafa alla tíð verið íbúðir. Sá húshluti var í eigu sömu fjölskyldu drjúgan hluta 20. aldar, en Magnús (1900-1992), sonur Bjarna Einarssonar, sem fluttist hingað á barnsaldri, bjó hér til æviloka. Kona Magnúsar Bjarnasonar, Ingibjörg Halldórsdóttir (1906-1999), var dóttir Halldórs Halldórssonar söðlasmiðs, sem reisti Strandgötu 15 (það hús var rifið fyrir áratugum). Margir hafa búið í Strandgötu 17 eftir hina löngu tíð þeirra Bjarna Einarssonar, sonar hans, Magnúsar og Ingibjargar. Allt frá 1921 og fram undir 2010 hýsti neðri hæð vestri hluta hina ýmsu verslun og starfsemi, m.a. afgreiðslu Happdrættis SÍBS um árabil. Á þriðja áratugnum er auglýst í húsinu „Litla búðin“ Axels Schiöth og um miðja 20. öld raftækjaverslunin RAF. SÍBS hafði þarna aðsetur í fjóra áratugi, frá 1970. Um 2014 var innréttuð íbúð á neðri hæð að vestan, þar sem SÍBS-rýmið var áður.

    Akureyrarbær hefur átt húsið sl. áratugi en seldi það nýverið með þeirri kvöð, að það yrði fært í upprunalegt horf. Teikningar að þeim endurbótum gerði Ágúst Hafsteinsson. Snemma árs 2023 keypti Helgi Ólafsson, sem hyggur á þessar endurbætur en hann mun þrautreyndur í endurbyggingu gamalla húsa.   Í Húsakönnun 1990 er húsið metið með varðveislugildi sem hluti götumyndar Strandgötu og það er einnig aldursfriðað, þar sem það er byggt löngu fyrir árið 1923. Þá hlýtur sú staðreynd, að húsið byggði maður, sem síðar varð einn af helstu mektarmönnum Íslendingasamfélagsins í Kanada, svo að segja rétt fyrir brottförina vestur, að gefa húsinu nokkurt gildi. Í Gimli virðist haldið nokkuð upp á Tergesenshúsin tvö, verslunarhúsið frá 1898 og íbúðarhús Tergesens frá 1911. Full ástæða er til þess, að gera elsta Tærgesenshúsinu, á heimaslóðum H.P. Tærgesens, einnig hátt undir höfði. Og nú stendur það svo sannarlega til: Fyrir liggja glæstar teikningar að endurbótum og húsið komið í góðar hendur.p2100009.jpg

   Það verður mjög spennandi að sjá hvernig endurbótum vindur fram á hinu aldna timburhúsi og er heillaóskum hér með komið til nýrra eigenda. Húsið mun, ef að líkum lætur, von bráðar verða hin mesta bæjarprýði, sannkölluð perla á fjölfarnasta stað Akureyrar.  Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. febrúar 2007 og 8. desember 2021.

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundir nr. 71 og 72, 3. og 10. maí 1886. 1902-1921. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 347, 9. sept. 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 39-41; Sambyggingin

Um framlag Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, til íslenskrar byggingarlistar og byggingasögu þarf vart að fjölyrða. Hann er e.t.v. þekktastur fyrir hinar ýmsu opinberar byggingar, kirkjur og skólahús, og ber þar kannski helst að nefna Hallgrímskirkju, Akureyrarkirkju og aðalbyggingu Háskóla Íslands. En Guðjón er einnig höfundur fyrsta skipulags, sem unnið var fyrir Akureyri, og samþykkt var árið 1927. Miðbær Akureyrar er að miklu leyti byggður eftir þessu skipulagi, sem og gatnaskipulag Oddeyrar og neðri hluti Brekkunnar. Skipulag þetta gerði ráð fyrir miklum randbyggingum; röðum fjölbýlishúsa með görðum og torgum á milli, á Eyrinni. Ekki ósvipað t.d. Vallagötunum í Vesturbæ Reykjavíkur. Aðeins munu þrjú hús á Oddeyrarsvæðinu sem reist eru beinlínis eftir þessu skipulagi. Tvö þeirra, Gránufélagsgata 43 og Strandgata 37 bera þess merki, að byggja hafi átt beggja vegna við þau (þ.e. gluggalausir stafnar) en eitt er fullbyggt: Gránufélagsgata 39-41, sem greinarhöfundur kallar jafnan „Sambygginguna“.  Væntanlega er þar um að ræða fyrsta skipulagða fjölbýlishús Akureyrar. (Lengi framan af voru íbúðarhús almennt hálfgerð fjölbýlishús, þó byggð væru sem einbýli, þar sem margar fjölskyldur bjuggu undir sama þaki. Sjá nánar síðar í greininni). PA260980

     Gránufélagsgata 39-41 samanstendur af þremur sambyggðum húsum sem mynda eina heild, þrílyft með háu valmaþaki. Neðstu hæðir eru eilítið niðurgrafnar en vart hægt að kalla þær kjallara (í bókunum bygginganefndar eru þær sagðar ofanjarðarkjallari). Á vestasta hluta eru einlyftar bakbyggingar. Veggir eru múrsléttaðir og krosspóstar í flestum gluggum. Á risi eru alls sex smáir kvistir að framan og þrír á bakhlið. Auk nokkurra þakglugga.  Alls mun húsið um 26x8m á grunnfleti en útbyggingar að norðvestan eru um 4x3m og 5x3m.  

     Kannski halda einhverjir, að Akureyrarbær, byggingafélag eða verktakar hafi byggt Sambygginguna, en svo var nú ekki. Enda þótt húsið sé þrískipt, hús nr. 39 vestast, 41a í miðjunni og 41 austast reistu tveir einstaklingar húsið. Eystri hlutann, nr. 41, reisti Steinþór Baldvinsson skipasmiður frá Svalbarði, en vestri hluta, nr. 39  reisti Jón Kristjánsson ökumaður frá Landamótaseli í S-Þingeyjarsýslu. Teikningarnar að húsinu, eða húsunum þremur, gerði Halldór Halldórsson.  Það var 2. júlí 1928 sem Steinþór fékk lóð og leyfi til byggingar íbúðarhúss við Gránufélagsgötu, á horninu á móti Ólafsfjarðarmúla, norðan við götuna. Umræddur Ólafsfjarðarmúli er húsið Grundargata 7, sem löngum hefur gengið undir því nafni. Það fylgdi sögunni, að þetta væri hornlóð, vestan við „torgið“ en þar er vísað í hið nýja skipulag. Steinþór vildi byggja hús 7,70x10m að stærð en Bygginganefnd krafðist þess, að húsið yrði ekki mjórra en 8m. Það hlýtur að vera fátíðara, að byggjendur séu krafðir um að stækka byggingar sínar, heldur en hitt, að fyrirhugaðar byggingar séu of stórar miðað við skipulag.PA260981

     Þremur mánuðum eftir að bygginganefnd afgreiddi byggingarleyfi Steinþórs fékk Jón Kristjánsson leyfi til að reisa hús, 8,8x8m næst austan við hús Jóhannesar Júlínussonar, þ.e. Gránufélagsgötu 27,  tvær hæðir úr steinsteypu, á „ofanjarðarkjallara“.  (Hvers vegna 27 er við hliðina á nr. 39 er flestum, greinarhöfundi þ.m.t.,  hulin ráðgáta en þess má geta, að neðan við nr. 43 stendur nr. 29. Númerakerfi Gránufélagsgötu mætti kalla eitt af undrum Akureyrar. Kannski er skýringa á þessu að leita í téðu skipulagi frá 1927?)  Hann óskaði einnig eftir því, að reisa aðeins fyrstu tvær hæðirnar, og fékk fimm ára frest til að ljúka við efri hæðirnar. Þarna var aðeins um að ræða vestasta hluta hússins, því í bókuninni stendur, að austurstafninn skuli vera 6m frá vesturstafni húss Steinþórs Baldvinssonar. Í mars 1929 er Jóni leyft að reisa útskot úr norðvesturhorni hússins, 4,4x3,15m að stærð. Jón hefur ekki þurft að nýta fimm ára frestinn til þess að byggja efri hæðir hússins, því árið 1931 er húsið fullklárað. (Sést á ljósmyndum). Það er svo 29. apríl 1929 að bygginganefnd afgreiðir byggingaleyfi Steinþórs Baldvinssonar fyrir húsi, 5,90x8m á lóð hans. Þar er kominn miðhlutinn þ.e. 41a. Í október 1929, þegar tekið er manntal, er flutt inn í hvort tveggja, nr. 39 og 41, og hefur þá miðhlutinn verið í byggingu.

     Skömmu fyrir manntalið heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins, þá Jón og Steinþór og lýstu húshlutunum þannig: „Íbúðarhús, þrjár hæðir á lágum grunni með háu risi. Á „neðstagólfi“ 2 stofur, eldhús, búr, þvottahús og forstofa. Á efragólfi 5 stofur, salerni, gangur og forstofa. Efstahæð eins innréttuð. Á efstalofti 2 íbúðarherbergi og geymsla. 1 reykháfur, raf-vatns og skólpleiðsla. Lítill skúr við bakhlið notaður sem geymsla“ (Virðingabók Brunabótamats nr. 18, 3. sept. 1929).

Nr. 41: „Íbúðarhús 3 hæðir á lágum grunni með háu risi. Á neðstuhæð við framhlið 2 st.[ofur] og forstofa. Við bakhlið þvottahús og 2 geymslur. Á miðhæð við framhlið 2 stofur, forstofa við bakhlið, eldhús, búr og baðherbergi. Efstahæð eins innréttuð, efstaloft óinnréttað. 1 reykháfur, raf-vatns og skólpleiðsla. (Virðingabók Brunabótamats nr. 18, 13. ágúst 1929).

     Þann 6. desember 1929 auglýsir Steinþór Baldvinsson í blaðinu Íslendingi  til sölu „hús í byggingu“ og þar hlýtur að vera um að ræða nr. 41a. Kaupandinn hefur líkast til verið Þorsteinn Stefánsson, trésmiður frá Kílakoti (ritað með ý í Manntali) í Kelduhverfi, því hann er skráður eigandi hússins í manntali árið 1930. Það ár búa alls 60 manns í Sambyggingunni. Þrettán manns búa í nr. 39, sautján í 41a og tuttugu í nr. 41. Síðarnefndu húshlutarnir skiptast í fjögur íbúðarrými hvort um sig, þar búa ýmist fjölskyldur eða einstaklingar, sem líklega hafa leigt stök herbergi. Númer 39 virðist hins vegar einbýli, þar eru allavega ekki tilgreind íbúðaskil. Þar búa téður Jón Kristjánsson og Laufey Jónsdóttir, sex börn þeirra, vinnufólk, þrennt að tölu, og tveir leigjendur. Af Steinþóri Baldvinssyni og Soffíu Sigfúsdóttur, konu hans, er það hins vegar að segja, að þau fluttu að Höfn á Svalbarðsströnd árið 1934 (skv. islendingabok.is) og stunduðu þar búskap. Það er svo skemmst frá því að segja, að fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar hafa búið í Gránufélagsgötu 39-41 í lengri eða skemmri tíma, allt frá fáeinum mánuðum til margra áratuga. Sumar íbúðir hafa jafnvel gengið milli kynslóða. Um 1940 bjuggu í nr. 41 Konráð Jóhannsson gullsmiður og Svava Jósteinsdóttir ásamt nokkrum börnum sínum og barnabörnum. Afkomendur þeirra ganga undir nafninu Konnarar, eftir Konráði, sem kallaður var Konni gull.  Íbúðaskipan hefur sjálfsagt verið breytileg gegnum þessa tæpu öld og ýmist búið í stökum herbergjum eða heilum íbúðum. Nú munu alls sjö íbúðir í húsinu samkvæmt Fasteignaskrá, þrjár í 39 og 41 en miðhluti, 41a, sem er ívið smærri að grunnfleti en hinir hlutarnir,  hefur síðustu áratugi verið einbýli.P7160016

     Er Sambyggingin fyrsta „blokkin“ á Akureyri? Það er alltaf dálítið varasamt að fullyrða, að hús séu fyrst eða elst, þetta eða hitt. Stundum er það skilgreiningaratriði: Vitaskuld eru hærri og margskiptari randbyggingar í Miðbænum t.d. við Skipagötu og Ráðhústorg, sem byggðar eru á svipuðum tíma.  Og þegar Sambyggingin var byggð voru til fjölbýlishús t.d. í gamla Hótel Akureyri og Brekkugötu 3, þau hús þá um þrítugt. Miðbæjarhúsin voru raunar verslunar, íbúðar- og skrifstofuhúsnæði og eldri húsin tvö voru annars vegar fyrrum hótel og hins vegar fyrrum einbýli, sem nokkrum sinnum hafði verið byggt við. Þannig er tæpast nokkrum vafa undirorpið, að Gránufélagsgata 39-41 er eitt af allra fyrstu húsum Akureyrar, ef ekki það fyrsta, sem byggt er beinlínis sem „hreinræktað“ fjölbýlishús með þremur stigagöngum. Það var raunar ekki fyrr en um miðjan sjöunda áratug, að fleiri slíkar blokkir (þrjár hæðir, þrír stigagangar) tóku að rísa, þær fyrstu við Skarðshlíð í Glerárþorpi. En þær byggingar eru reyndar mikið, ef ekki margfalt, stærri en Gránufélagsgata 39-41 að rúmtaki. (En skiptir þetta svo sem nokkru máli?)  

     Gránufélagsgata 39-41 er í senn traustlegt og reisulegt en um leið látlaust hús. Það setur eðlilega mikinn svip á umhverfið, verandi „nokkrum númerum“ stærri en nærliggjandi hús en er þó til prýði og sérlegt kennileiti í umhverfi sínu. Húsið er í góðri hirðu, á því er t.d. nýlegt þak. Sambyggingin við Gránufélagsgötu 39-41 má segja sérlegan fulltrúa fyrsta Aðalskipulags bæjarins frá 1927, upphafið af stórhuga áformum um mikla torfu randbygginga á Oddeyrinni. Í Húsakönnun 2020 hlýtur húsið einmitt miðlungs varðveislugildi sem minnisvarði um fremur „stórtækt skipulag frá 1927“ (Bjarki Jóhannesson 2020:149). Þá er húsið hluti varðveisluverðrar heildar. Þar sem Sambygginguna vantar ekki mörg ár í aldarafmæli og greinarhöfundi er stundum tíðrætt um hina svokölluðu 100 ára reglu, skal þess getið hér, að sú regla var afnumin um sl. áramót. Frá og með áramótum eru aðeins hús byggð 1923 og fyrr aldursfriðuð, en yngri hús (að byggingarári 1940) teljast umsagnarskyld. Sambyggingin verður því ekki aldursfriðuð en varðveislugildi hennar er ótvírætt samkvæmt Húsakönnun.  

Meðfylgjandi myndir eru teknar 16. júlí 2014 og 26. október 2019.

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Akureyrarkaupstað 1922-29. Óprentað óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_3_virdingabok_1922_1929?fr=sMTZmNDQzODI5ODU 

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt á vefnum: https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-35. Fundur nr. 614, 2. júlí 1928. Fundur nr. 620, 4. okt. 1928. Fundur nr. 626, 25. mars 1929. Fundur nr. 628, 29. apríl 1929.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt á vefnum: https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns, greinar á timarit.is; islendingabok.is, sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Skólahúsið í Sandgerðisbót, Ós

Í syðsta og neðsta hluta Kræklingahlíðar tók, á síðustu áratugum 19. aldar, að myndast nokkur byggð smábýla í landi Bandagerðis og Lögmannshlíðar. Kallaðist þetta byggðalag Glerárþorp. Og kallast auðvitað enn, þó dagar smábýlanna og kotanna séu löngu liðnir. Mörg þeirra standa enn sem minnisvarðar og fulltrúar byggðarinnar og búskaparins sem áður var. (Auðvitað nýtir höfundur tækifærið og getur þess að gömul býli í þéttbýli, skuli ætíð vera friðuð). Í upphafi 20. aldar voru risin all nokkur hús á holtunum upp af Óseyri og í átt til fjalls. Þar bjuggu margar fjölskyldur og þar af leiðandi, töluverður fjöldi barna, sem þurftu að sjálfsögðu í skóla; lögin um fræðsluskyldu 1907 gerði það raunar skylt. Og hvað var þá annað í stöðunni en að reisa skólahús fyrir Glerárþorp.P1261028

Það var í febrúar árið 1908 sem hópur manna úr Glerárþorpi, sextán að tölu, tóku sig saman á fundi og ákváðu að reisa skólahús. Fundur þessi var haldinn að Glerárbakka, hjá Árna Árnasyni, sem mun hafa verið helsti hvatamaður þessarar brýnu framkvæmdar. Kallaðist þessi félagsskapur Skólahúsfélag Glerárþorps og sátu fimm manns í stjórn. Allir skuldbundu félagsmenn sig til þess að vinna í sjálfboðavinnu við byggingu hússins og ganga í ábyrgð fyrir 1000 króna lán hjá Íslandsbanka. Og til þess að setja þá upphæð í eitthvert samhengi, má þess geta, að árið 1908 kostaði ársáskrift að blaðinu Norðra 3 krónur, eða 25 aura á mánuði. Áskrift að ámóta blaði í dag gæti verið um 2500 krónur. Svo ljóst er, að 1000 krónur ársins 1908, gæti jafngilt um 10 milljónum á verðlagi ársins 2023. Byggingunni var valinn staður í flæðarmálinu, sunnarlega í Sandgerðisbót, og hefur byggingin líkast til hafist um vorið, en 1. nóvember 1908 var húsið tekið í notkun.P1261029

Ós er einlyft steinhús með lágu risi, hlaðið úr steyptum steinum (a.m.k. norðurstafn) og múrhúðað. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Yfir gluggum á framhlið eru steyptir, bogadregnir kantar. Að norðan er einlyft viðbygging úr timbri. Grunnflötur mælist á map.is um 7x8,5m og viðbygging gæti verið um 4x5m.

Stjórn hins sextán manna skólahúsfélags skipuðu téður Árni Árnason, Jón Kristjánsson í Sandgerði og Jóhannes Jóhannesson í Brautarholti. Byggingameistari var Páll Markússon múrari í Glerárholti, en hann var þá nýkominn úr námi í múriðn í Noregi. Húsið var steinhús, það fyrsta í Glerárþorpi og með fyrstu steinhúsum í Eyjafirði. Páll hafði árið áður byggt stærsta steinhús á landinu á sinni tíð, Gefjunarhúsið á Gleráreyrum. Var það einstakt stórvirki, fyrsta hús landsins með steinlofti (sbr. Páll Markússon, 1954) og því mikil synd, að það skyldi vera rifið í ársbyrjun 2007. En fullbúið var húsið 1. nóvember 1908 og var kostnaður við bygginguna alls 2300 krónur. Frá Stjórnarráðinu barst 400 króna styrkur, 1000 króna lán var tekið hjá Íslandsbanka en að öðru leyti var það fjármagnað af skólafélagsmönnum í formi fjármuna eða sjálfboðavinnu. Skólahúsfélagið, sem eigandi húsnæðisins, leigði það Glæsibæjarhreppi fyrir 6 krónur á mánuði í fjóra mánuði yfir veturinn og í því fólst upphitun (þ.e. leggja í kolaofn hússins) og ræsting.  

En hvað bar fyrir augu barnanna í Glerárþorpi þegar þau settust á skólabekk, hjá Halldóri Friðjónssyni frá Sandi, P1261033í hinu nýreista skólahúsi í nóvember 1908? Það sem fangað mun hafa athygli margra þeirra voru hinir skrautlegu bogagluggar á framhlið, sem þá voru með mörgum litlum rúðum (sbr. Guðrún Sigurðardóttir 1978: 154). Eftir að hafa virt fyrir sér gluggana gengu þau inn í norðausturhorni hússins, þar sem var gangur eða anddyri með fatahengi. Þaðan var gengið inn í skólastofuna, þar sem kolaofn var við vegg hægra megin við dyrnar og í lofti stofunnar var steinolíulampi auk tveggja vegglampa. Ekki fylgir sögunni hvernig annar aðbúnaður var þarna innandyra en þarna var fyrstu árin steingólf og veggir einfaldir og óþiljaðir, líkast til aðeins ber steinn. Kannski sáu börnin eitthvað til Sigurjóns Jónssonar í Sandgerðisbót sem annaðist ræstingu og kolakyndingu hússins og var þannig nokkurs konar húsvörður.

Kennt var hér hvern vetur til ársins 1916. Halldór Friðjónsson, sem síðar stofnaði og ritstýrði blaðinu Verkamanninum, kenndi sem fyrr segir fyrsta veturinn en veturinn 1909-10 annaðist Ingibjörg Jóhannesdóttir í Árnesi kennsluna.  Næstu tvo vetur kenndi Jón Kristjánsson í Glæsibæ en nokkrir aðrir komu að kennslunni, næstu árin. Árið 1916 dæmdi Héraðslæknir húsið óhæft til kennslu og fór fram á að húsið yrði þiljað að innan og bætt við hitunartæki. Ekki treysti hreppurinn sér til þeirra framkvæmda, sökum kostnaðar, svo næstu þrjá vetur var kennt á ýmsum bæjum í Þorpinu. En loks árið 1919 var trégólf lagt og settur nýr ofn í húsið og í ársbyrjun 1920 gat kennsla hafist að nýju. Enn átti þó eftir að þilja veggi, en það var gert árið 1922. Alls kostuðu þessar framkvæmdir 1745 krónur þar af fyrri framkvæmdirnar 750 krónur. Og svo þessar upphæðir séu aftur settar í samhengi má nefna, að árið 1922 voru fóðraðir skór með trébotnum auglýstir á 11,50 og 12,50kr. hjá Kaupfélagi Eyfirðinga. Ekki er ólíklegt, að sambærilegur skófatnaður kosti nú um eða yfir 5000 krónur.  P5270040

Síðla árs 1922 var Skólahús Glerárþorps virt til brunabóta. Lýsingin var eftirfarandi: „Steinhús með timbur og pappaþaki. Ofn við múrpípu. Stærð 11,5x9,5x5ál[nir]. [11,5x9,5 álnir eru u.þ.b. 7,5x6m og 5 álnir rúmir 3 metrar]. Húsið er hólfað í sundur með steinvegg í: a) Skólastofa afþiljuð og b) Forstofu óþiljaða, tveggja álna og jafn langa og húsið er breytt“ (Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps 1922 nr.120).

Sem fyrr segir, önnuðust ýmsir kennsluna fyrsta áratuginn, en haustið 1920 kom Jóhann Scheving að skólanum og kenndi hann þar í ein sautján ár, eða allt þar til skólinn fluttist úr húsinu. Í sögugöngu um Glerárþorp sem greinarhöfundur sótti sumarið 2000 var á meðal þátttakenda kona, sem hafði verið nemandi hjá Jóhanni í skólanum í Sandgerðisbót. Hún rifjaði upp og sagði eitthvað á þá leið að Jóhann Scheving hafi getað verið strangur og ekki allra, en alveg yndislegur maður. En „mikið óskaplega sem við krakkarnir gátum verið andstyggilegir við hann“ bætti hún við.  Jóhann Scheving hélt áfram kennslu við Glerárskólann eftir flutninginn í nýja húsið og kenndi þar allt til 1949.

Húsið var ekki aðeins nýtt sem skólahús, heldur varð það fljótlega einnig félagsheimili Þorpsins. Ýmis félög, og samtök leigðu húsið til fundahalda og samkoma, m.a. Verkalýðsfélag Glerárþorps, Verkamannafélag Glæsibæjarhrepps og Kvenfélagið Baldursbrá. Það kann að hljóma ótrúlega, sé tekið mið af gólffleti hússins, að þarna hélt Knattspyrnufélag Glerárþorps leikfimiæfingar! (Sbr. Eiríkur Sigurðsson 1972:68). Það voru ekki aðeins dansleikir, fundir eða íþróttaæfingar sem fóru þarna fram, því þarna kom fólk saman til að hlusta á útvarp. Mun þetta hafa verið á fyrstu árum útvarps hérlendis (uppúr 1930) og útvörp ekki á hverju heimili í Þorpinu. En í skólahúsinu í Sandgerðisbót var sem sagt útvarp sem almenningur gat komið og hlustað á.

Árin 1937 var reistur nýr Glerárskóli ofar í Þorpinu og lauk þá hlutverki Skólahússins í Sandgerðisbót. Áfram var húsið þó nýtt til samkomuhalds uns það var selt árið 1942. Var því þá breytt í íbúðarhús, sem það var í áratugi eftir það. Hlaut húsið nafnið Ós eftir að búseta hófst þar, en framan af kallaðist það einfaldlega skólahúsið í Sandgerðisbót. Mögulega var það Tryggvi Kristjánsson sem keypti húsið af Skólahúsfélaginu, en hann var alltént eigandi hússins árið 1949, er hann auglýsir það til sölu. Búið var í Ósi fram undir lok 20. aldar en síðustu áratugi hefur það verið verkstæðishús.P1261030

Ós er látlaust hús sem lætur lítið yfir sér og virðist við fyrstu sýn í engu frábrugðið nærliggjandi verbúðum, verkstæðishúsum og geymsluhúsum.  Það á sér engu að síður afar merka sögu og er að öllum líkindum annað elsta steinsteypuhús á Akureyri, á eftir Steinöld við Hríseyjargötu 1. (Hér flokkast hús, hlaðin úr steyptum steini, sem steinsteypuhús). Það hefur hlotið afbragðs gott viðhald og búið að endurgera upprunalega gluggaumgjörð, þ.e. bogadregnu kantana. Þá setur sýnileg steinhleðsla norðurstafns skemmtilegan svip á húsið. Fyrir liggja teikningar Guðjóns Þ. Sigfússonar að viðbyggingu við húsið og þar um að ræða veglega verkstæðisbygging. Enda þótt sú bygging verði í raun mikið stærri en upprunalega húsið kemur hún ekki til með að spilla því mjög, því byggingarnar verða vel aðgreindar með stuttum tengigangi. Ós er yfir 100 ára gömul bygging og því aldursfriðuð en ætti í raun að njóta sérstakrar friðlýsingar vegna sögulegs gildis. Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar 26. janúar 2023 en sumarmyndin er tekin 27. maí 2007.

Heimildir:

Eiríkur Sigurðsson. 1972. Barnaskóli á Akureyri í 100 ár. Fræðsluráð Akureyrar.

Guðrún Sigurðardóttir. 1978. Barnaskólahúsið í Sandgerðisbót og skólahaldið þar. Í Súlum, norðlensku tímariti, 8. árg. Bls. 152-163.

Páll Markússon. 1954.  Hann sá bæinn vaxa úr óásjálegum kofum – en mest var þó breytingin á verkamönnum. Viðtal við Pál Markússon áttræðan í Þjóðviljanum. B.J. skráði. 180. tbl. 19. árg. Bls. 7.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri, höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Virðingabók Brunabótafélags Glæsibæjarhrepps 1918-1933. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Virðingabók brunabótasjóðs Glæsibæjarhrepps 1918 - 1933 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Sérstakar þakkir færir greinarhöfundur Guðrúnu Sigurðardóttur fyrir bókina Barnaskóli á Akureyri í 100 ár auk ánægjulegs og fróðlegs samtals  þ. 31. jan. sl.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Feb. 2023
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 36
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 771
  • Frá upphafi: 420057

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 611
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband