Hús dagsins: Hafnarstræti 88; Gamli Bankinn

Árið 1890 bjuggu þrettán manns í Húsi Snorra Jónssonar á Oddeyri. Auk fjölskyldu Snorra Jónssonar skipa-og húsasmíðameistara bjó þar meðal annars smíðalærlingur hans, hinn 18 ára gamli Bergsteinn Björnsson, frá Norðurbotni við Tálknafjörð. Átta árum síðar, eða þann 8. nóvember 1898 fékk Bergsteinn keypta lóð á Torfunefi, sunnan við hið nýreista hús Pöntunarfélagsins (KEA) ásamt heimild til uppfyllingar. Það skilyrði var sett að bygging hæfist næsta sumar (1899).P8091051

Þann 22. nóvember 1898 var Bergsteini Björnssyni heimilað að fylla upp á lóð sinni á Torfunefi, 60 álnir (40m) suður með veginum milli bæjarhlutanna. Fékk hann að taka uppfyllingarefnið frítt úr brekkunum ofan fjörunnar, með því skilyrði, að hann hefði byggingu innan þriggja ára frá 1. jan 1899.  Bergsteinn lét ekki segja sér þetta tvisvar heldur sótti hann um og fékk leyfi 11. apríl 1899 fyrir húsi og það engu smáræðis húsi, 30x16 álnir að grunnfleti. Framkvæmdir við uppfyllingar munu hafa staðið sumarið 1899 og árið eftir var hús Bergsteins risið af grunni. Var það þá eitt stærsta hús bæjarins, en það stóð ekki lengi, því á næstu árum risu mikil stórhýsi eitt af öðru; vestast við Strandgötu, Hótel Akureyri, Gagnfræðaskóli (MA) og Samkomuhúsið. Nútímafólk getur í sömu andránni virt fyrir sér brekkuna á bakvið suðurhluta Hótel KEA og Hafnarstræti 88 og reynt að gera sér í hugarlund, hvers konar verk það hefur verið: Að grafa út úr brekkunni og fylla upp í fjöruborðið, grunninn fyrir hinu reisulega húsi, sumarið 1899. Væntanlega hefur aðeins verið notast við haka, skóflu og hjólbörur, e.t.v. hestakerrur. P8091052En höfum það jafnframt í huga, að Bergsteinn og hans menn þekktu auðvitað ekkert annað.

      Skömmu áður (1897) hafði lærifaðir Bergsteins, Snorri Jónsson, reist á Oddeyri eitt stærsta hús Oddeyrar og Akureyrarkaupstaðar í heild. Var húsið tvílyft með rúmri lofthæð, á háum kjallara og með háu risi, 18,8x9,4m að grunnfleti (skv. Brunabótamati 1916) og hugði Bergsteinn ekkert minna; hús hans var ámóta og raunar örlítið stærra að grunnfleti en 30x16álnir eru nærri 20x12m en í brunabótamati 1916 er grunnflötur hússins sagður 18,8x10,4m. Stórhýsi Bergsteins og Snorra hafa kallast dálítið skemmtilega á yfir Pollinum, svipuð að lögun, stærð og gerð. Aldamótaárið 1900 mun hús Bergsteins hafa verið fullreist. Allt er breytingum undirorpið: Snorrahús var rifið á níunda áratug 20. aldar og Hafnarstræti 88 er nú umlukið enn stærri steinhúsum.

     Hafnarstræti 88 er stórt tvílyft timburhús með háu risi og miðjukvisti á báðum hliðum. Inngöngutröppur og svalir eru á báðum stöfnum. Greinarhöfundur hefur hvergi séð minnst á, að húsið hafi mögulega komið tilhöggvið frá Noregi, eins og mörg skrautleg stórhýsi um aldamótin 1900. Húsið er engu að síður undir miklum áhrifum frá sveitserstílnum norska og flokkast raunar sem slíkt í Húsakönnun 2012. Sem dæmi um það má nefna sérstakt skraut og kögur á svölum milli áttstrendra súlna, skreytt strik eða bönd undir gluggaröðum, þak slúttir yfir veggi og þar blasa við útskornar, útstæðar sperrutær. Kvistir hússins eru skemmtilega rammaðir inn af áttstrendum súlum milli þakskeggs og þakbrúna kvista og efst á þeim eru skrautlegir sperruendar. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak. Grunnflötur mun nærri 19x11m.P8091057

     Í Manntali 1901 er húsið sagt nr. 14 við Hafnarstræti og þar búa alls 24 manns. Þar er Bergsteinn Björnsson sagður Bjarnason. Á þessum árum stundaði hann síldarútgerð meðfram smíðinni og hafði þannig komist í góðar álnir. Árið 1903 telst Bergsteinshús númer 10 við Hafnarstræti og efst á blaði Manntals það ár eru Friðrik Kristjánsson og Jakobína Jakobsdóttir, en Bergsteinn er þar enn til heimilis, titlaður útvegsbóndi. Árið eftir mun Friðrik hafa keypt húsið af Bergsteini, sem jafnframt flutti úr húsinu. Friðrik gerðist bankastjóri Íslandsbanka og opnaði útibú bankans í húsinu árið 1904. Þar var bankinn starfræktur allt til ársins 1930 að hann var lagður niður. Enn þjónaði húsið sem banki, því Útvegsbankinn kom sér fyrir í Hafnarstræti 88 og mun hafa verið þar til ársins 1939. Af Bergsteini er það að segja, að hann fluttist til Vesturheims þegar útgerðin brást og ól þar manninn alla tíð síðan. Stundaði þar smíðastörf og gegndi herþjónustu á árum fyrri heimstyrjaldar (1915-1918). Bergsteinn Björnsson lést í Gimli í Winnipeg árið 1951.

     Friðrik Kristjánsson bankastjóri fluttist einnig til vesturheims en það var með þvílíkum undraverðum hætti og kannski nær að tala um flótta en flutning. Á útmánuðum 1910 virtist Friðrik hafa horfið sporlaust og var hann af flestum talinn af, en einnig spunnust sögur um flótta hans, sem átti að hafa verið í kjölfar meints fjármálamisferlis. Er skemmst frá því að segja, að vikum saman var Friðrik í felum á Barði (sem stóð á brekkubrúninni ofan við Samkomuhúsið) og komst dulbúinn um borð í kútter við Glæsibæ. Leiðarlok Friðriks voru í Ameríku, en hann lést árið 1939 í Wynyard í Saskatchewan. Nánar er fjallað um hinn magnaða landflótta Friðriks Kristjánssonar og afdrif hans á bls. 69-76 í þriðja bindi Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason. 

     Í brunabótamati 1916 er Hafnarstræti 88 lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar og bankahús, tvílyft með porti, kvisti og háu risi og kjallara. Þá þegar eru hvort tveggja veggir og þak járnvarið og telja Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir (2003:190) að húsið hafi jafnvel verið bárujárnsklætt frá upphafi. Alltént var bárujárnið komið á húsið árið 1916, en eftir mikla stórbruni hér í bæ 1901 og 1906 fór almennt að tíðkast, að verja timburhús með járni eða steinskífum. Í kjallara voru tvær sölubúðir, skrifstofa og úrsmíðaverkstæði auk geymslurými. Á 1. hæð voru að framanverðu (vestanmegin) þrjár stofur, bankaafgreiðsla og forstofa en „við bakhlið“ eða að austanverðu þrjár stofur, eldhús, búr og tvær forstofur. Á 2. hæð voru alls 7 stofur, eitt eldhús og forstofa. Í risi voru þrjár stofur, eldhús og búr vestanmegin en austanmegin tvær stofur, eldhús, geymsla og forstofa. Við norðurgafl var „stórt óinnréttað rými“ og svalir við suðurgafl. Þrír skorsteinar voru á húsinu og í því 16 kolaofnar, fjórar eldavélar, væntanlega einnig kola- eða mókyntar og einn þvottapottur, kyntur á sama hátt. Árið 1916 voru enn sex ár í rafvæðingu Akureyrar. Húsið sagt 18,8x10,4m að grunnfleti, 12,9m hátt og á því voru 64 gluggar. Eigandi hússins árið 1916 var Íslandsbanki (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1916 nr.126).Hafnarstræti 88

     Afgreiðsla Íslandsbanka var í húsinu þar til sá banki lagði upp laupana árið 1930 en þá fluttist Útvegsbankinn í húsið. Tók síðarnefndi bankinn í raun þann fyrrnefnda yfir. Löngu síðar rann svo Útvegsbankinn ásamt tveimur öðrum inn í nýjan banka, sem hlaut nafnið Íslandsbanki! Útvegsbankinn mun hafa verið hér til húsa til ársins 1939. Bankastjóri Íslandsbanka var lengst af Bjarni Jónsson og var hann búsettur hér. Á tímabili var kjötbúð KEA í kjallara hússins á sama tíma og bankaútibú Íslandsbanka var á efri hæðinni og kjötbúðina prýddi veglegur nautshaus. Munu gárungar hafa gripið þetta á lofti og sagt, að þarna væri kominn hinn eini sanni gullkálfur, sem bankamenn dönsuðu í kringum.  Á fyrrihluta 20. aldar bjó í húsinu  Valdemar Steffensson læknir og starfrækti þar lækningastofu sína. Í Hafnarstræti 88 hafa alla tíð verið verslunarrými, þjónusta og smáiðnaður, kannski mætti segja, að húsið verið frá upphafi einhvers konar verslunarmiðstöð. Í bók sinni Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs segir Steindór Steindórsson (1993:122) að „[...]svo ör hafa verslunarskipti orðið þar [í Hafnarstræti 88] að varla hafa fleiri verið í nokkru öðru húsi í bænum“. Það segir e.t.v. sína sögu að sé „Hafnarstræti 88“ flett upp á gagnagrunninum timarit.is, koma upp nærri 2400 niðurstöður, frá 1906 (fram að því var húsið nr. 14 eða 10) til vorra daga. Þess má reyndar geta, að einhver hluti þessa fjölda getur átt við húsið Hafnarstræti 88b, sem byggt var 1945 og rifið 2001, og hýsti m.a. Prentverk Odds Björnssonar og síðar Hitaveitu Akureyrar.  Í Fasteignaskrá eru nú skráðar fjórar íbúðir í Hafnarstræti 88 og fjögur verslunarrými. Í norðurenda er, þegar þetta er ritað, fasteignasala og í suðurenda Rakarastofa Akureyrar. Þangað sækir sá sem þetta ritar að jafnaði sínar hárklippingar og getur ekki annað en mælt með rakarastofunni, enda þótt þessum skrifum sé ekki ætlað að gegna hlutverki auglýsinga.

     Hafnarstræti 88 er eitt af stærstu og reisulegustu timburhúsum bæjarins, skraut í anda sveitserstíls gefur húsinu skemmtilegan svip og er húsið auk þess í mjög góðri hirðu. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir árið 1923. Í Húsakönnun 2012 fær húsið umsögnina: „Húsið hefur verið endurbyggt af myndarskap. Það fer mjög vel í umhverfinu og setur svip á bæjarmyndina. Hlutföll eru falleg og frágangur allur vandaður“ (Árni Ólafsson 2012: 49). Greinarhöfundur tekur svo sannarlega undir hvert þessara orða.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 8. ágúst 2022 en einnig er mynd frá 31. júlí 2010 þar sem fjöldi manns er samankominn í sögugöngu um Innbæinn og Miðbæinn undir leiðsögn Gísla Sigurgeirssonar. Greinarhöfund minnir, að hann sé þarna að segja frá ævintýrum Friðriks Kristjánssonar bankastjóra.

 

Heimildir:

Árni Ólafsson, Akureyrarbær, Teiknistofa Arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar. 2012. Drottningarbrautarreitur-Hafnarstræti- Húsakönnun 2012. Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_157.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 173, 11. apríl 1899. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.

Bæjarstjórn Akureyrar. Fundargerðir 1879-1900 (vélrituð afrit). Fundir nr. 771 og 772 8. nóv. og 22. nóv. 1898. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Brunabótamat 1917-22. Varðveitt á Héraðsskjalafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1917-1922 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar III bindi. Akureyrarbær.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Lundeyri; in memoriam

Á dögunum var húsið Lundeyri í Glerárþorpi rifið í þeim tilgangi að rýma fyrir nýjum hlutum Holtahverfis. Um var að ræða látlaust steinhús á einni hæð, frá 5. áratug sl. aldar, en fyrst var byggt á Lundeyri árið 1917. Hér verður stiklað á stóru úr sögu Lundeyrar, sem spannar alls 106 ár.

Það er dálítið örðugra að kortleggja sögu Glerárþorpsbýlanna P5220058heldur en húsa í eldri hverfunum sunnan Glerár. Ástæðan er m.a. sú, að Glerárþorp tilheyrði ekki Akureyri fyrr en 1955 og þau hús komu því ekki inn á borð bygginganefndar bæjarins. Sambærileg nefnd virðist ekki hafa verið starfrækt í Glæsibæjarhreppi. Skipulagsmál bygginga í dreifbýli lúta eðlilega öðrum lögmálum en í bæjum; menn átti jarðir eða jarðaskika og byggðu þar einfaldlega sín íbúðar- og gripahús án nokkurra afskipta, enda þurfti ekki að huga að götumyndum eða útliti bygginga.

Elsta heimildin um Lundeyri er mögulega brunabótamat frá árinu 1918. Þá eru eigendur og íbúar tvær húskonur, Jóhanna Jónasdóttir og Jónína Jónatansdóttir. Það hlýtur að vera óhætt að leiða líkur að því, að þær fyrstar byggt á býlinu Lundeyri. Þá er Lundeyri lýst svona:

„Nýbýli með útveggjum úr torfi á 3 vegu og torfþaki. Timburhlið að framan. Stærð 11+5+5+2 ¾ +2 ¼ álnir.  Skiftist [svo] í: a) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað, með eldavél við múrpípu. b) Gangur: Stærð 2+5+2 ¾ al. c) Stofa: Stærð 4 ½ +5+2 ¾ al. afþiljað með ofni og rörleiðslu í gegnum 2 þil og ganginn inn í múrpípuna. Kjallari undir húsinu“ (Brunabótafélag Íslands 1918: nr. 58). Það er kannski ekki gott að átta sig á þessum málum, þar sem þau eru öll samanlögð en ekki margfölduð.  Í þessu mati er byggingarárið sagt 1917 en í heimildum er einnig getið byggingarársins 1918 (Lárus Zophoníasson, Steindór Steindórsson). Hversu stórt Lundeyrarlandið var, virðist ekki fylgja sögunni en býlinu fylgdi a.m.k. tún norðan við húsið en lönd Glerárþorpsbýlanna mældust sjaldnast í mörgum hekturum. Lundeyrartún (stundum kallað Lundeyristún), norðan við húsið, var löngum vinsælt leiksvæði barna í Glerárþorpi, nýtt m.a. til boltaleikja.

   Torfhúsið með timburþilinu sem lýst er í brunabótamati árið 1918 hefur væntanlega vikið fyrir húsinu  sem stóð fram á vordaga 2023. Samkvæmt fasteignamati var það hús byggt árið 1946. Ein elsta heimildin sem finnst á gagnagrunninum timarit.is, um Lundeyri, er frá ágúst 1921, þar sem hálft býlið er auglýst til sölu. Mögulega hafa þau Guðmundur Vigfús Guðjónsson sjómaður (1884-1957) Björg Guðmundsdóttir (1885-1971) keypt býlið þá, en þau eru alltént flutt hingað árið 1927. Bjuggu þau hér ásamt börnum sínum til ársins 1956, er Axel Vatnsdal keypti býlið. Það voru því Guðmundur og Björg sem byggðu steinhúsið árið 1946.  Axel Vatnsdal lét breyta húsinu eftir teikningum Páls Friðfinnssonar. Fékk húsið þá það lag sem það hafði alla tíð síðan. Lundeyri var einlyft timburhús með lágu risi, múrhúðað með bárujárnsþaki. Að grunnfleti var það um 12x8m. Samkvæmt teikningum Páls var austurhluti þess í upphafi með einhalla þaki undir háum kanti sunnanmegin en vesturhluti með lágu risi og ívið mjórri en austurhlutinn. Eftir tíð Axels Vatnsdals hafa ýmsir búið í Lundeyri og húsið alla verið tíð einbýli.

   Á meðal barna Guðmundar og Bjargar, sem byggðu nýja Lundeyrarhúsið, var Gestur (1913-1961). Greinarhöfundur minnist þess, að hafa heyrt þess getið, að Gestur muni hafa verið yrkisefni eða innblástur Davíðs Stefánssonar er hann orti ljóðið „Barnið í þorpinu“ og olli það uppátæki nokkrum deilum. Munu íbúar Glerárþorps  hafa talið að sér vegið, enda verður ekki sagt, að þarna sé farið sérlega fögrum orðum um Þorpið. („Ég kom í ljótt og lítið þorp sem liggur út við sjó“)  Munu þessar lýsingar ekki hafa þótt sanngjarnar gagnvart Gesti og Lundeyrarfólkinu. Um þetta verður ekki fullyrt hér, enda í raun aðeins um sögusagnir að ræða. Það er hins vegar gömul saga og ný, að skáld og verk þeirra geta verið umdeild.  

   Það er gangur lífsins, ef þannig mætti komast að orði, að sum hús þurfa að víkja. Með hverju húsi sem rifið er hverfur ákveðin saga að vissu leyti, enda þótt saga húsa og fólks sem þar ól manninn varðveitist eilíflega í myndum og frásögnum. Nær alltaf er eftirsjá af þeim húsum sem hverfa og í raun gildir það um flest öll hús, að þau hafa alltaf visst tilfinningalegt og sögulegt gildi hjá einhverjum. En mætti þá segja, með þeim rökum, að það ætti bara aldrei rífa nokkurt hús!? Sá sem þetta ritar hefur vissulega haft uppi miklar yfirlýsingar um ansi mörg hús - og stendur við þær - að þau skuli varðveita eða friða. Stundum er því hreytt í undirritaðan, að honum væri mátulegt að eiga og viðhalda viðkomandi húsi sjálfur, sem hann mælir með, að varðveitt verði. En greinarhöfundur hefur þrátt fyrir allt skilning á því, að ekki verða öll hús varðveitt, af ýmsum ástæðum.  Húsafriðun lýtur nefnilega öðrum lögmálum en t.d. friðun náttúrufyrirbrigða á borð við fossa og fjalla. Hús standa ekki bara til þess að vegfarendur geti dáðst að þeim og barið þau augum, þau þurfa viðhald og einhver þarf að eiga þau, búa í þeim eða nýta á annan hátt.

   Að áliti greinarhöfundar ætti niðurrif þó ætíð að vera allra síðasta úrræði og í lengstu lög ætti að huga að endurgerð eða endurbyggingu gamalla húsa. Burtséð frá varðveislusjónarmiðum hlýtur það alltaf að vera betri nýting á auðlindum og þar af leiðandi umhverfisvænna, að nýta þau hús sem fyrir eru, heldur en að rífa og byggja nýtt. Að sjálfsögðu þarf að horfa til fleiri þátta þarna, t.a.m. nýtingu lóðar og byggingakostnaðar og ástand þeirra húsa sem rifin eru. Þannig er það skiljanlegt, þegar reist eru ný hverfi, að stök eldri hús þurfi að víkja. En það er engu að síður bjargföst skoðun höfundar, að gömul býli í þéttbýli skuli varðveitt sem slík, þó e.t.v. mætti, ef nauðsyn krefur, semja um að taka af víðlendum lóðum þeirra undir aðrar byggingar. Þá er góð regla að ný hús sem reist eru á grunnum eldri húsa, hljóti sömu nöfn, svo nöfnin varðveitist með bæjarstæðinu. Þannig væri upplagt, að ný bygging á þessum stað hlyti nafnið Lundeyri. Myndin af Lundeyrarhúsinu er tekin 22. maí 2011 en meðfylgjandi er einnig mynd sem sýnir lóð Lundeyrar að kvöldi 18. apríl 2023.IMG_0239 Það eina, sem eftir lifir af Lundeyri er furutré og líkan af torfbæ. Kannski er torfbærinn litli eftirlíking af upphaflega Lundeyrarbænum ...(?)

Að lokum leggur undirritaður til að öll gömlu býli Glerárþorps, ásamt með sambærilegum húsum á Brekku og í Naustahverfi verði friðlýst!

Heimildir: Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Glerárþorp 1917-1922. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu, kassanr.H9/25.  

Lárus Zophoníasson. 1980. „Glerárþorp – 100 ára byggð“ Súlur X. árg. (bls. 3-33).

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Vegna umfjöllunar um Grundargötu 6

Eitt það allra skemmtilegasta við það hugðarmál mitt, að kanna og skrásetja sögu eldri húsa er, að það má alltaf hægt að uppgötva eitthvað nýtt, sem kannski kollvarpar því sem áður var talið eða stendur í heimildum. Þó heimildir styðji við það sem haldið er á lofti, geta þær brugðist og oft ber ólíkum heimildum ekki saman. Stundum koma „nýjar" upplýsingar um eitthvað sem gerðist fyrir meira en 100 árum. Almennt miða ég við regluna hafa ber það sem sannara reynist" og svo bregðast krosstré sem önnur tré. Þær heimildir sem taldar eru öruggar geta reynst rangar. En því fer fjarri að ég geti varpað allri ábyrgð á heimildirnar, því ég er aldeilis ekki óskeikull sjálfur og oft hafa ýmsar „rósir" ratað hingað inn, sem aðeins skrifast á ónákvæmni eða fljótfærni hjá mér. 

Síðdegis sl. föstudag, fékk undirritaður áhugavert símtal frá Þorsteini Jónassyni. Erindi hans var upprunasaga Grundargötu 6, en pistill undirritaðs hafði þá birst á vefnum. Þorsteinn er langafabarns Jóns Jónatanssonar sem búsettur var í húsinu á fyrsta áratug 20. aldar og gerði þá athugasemd, að hvorki hann né nokkur innan hans ættar hefði heyrt á það minnst, að Jón hefði búið þarna, hvað þá byggt húsið. Hann vissi heldur ekki til þess, að langafi hans hefði nokkurn tíma verið járnsmiður. Manntöl frá þessum tíma sýna þó með óyggjandi hætti, að Jón Jónatansson og Guðrún Sesselja Jónsdóttur bjuggu þarna ásamt börnum sínum Kristjáni (bakara) og Sigurborgu. Það gæti hent sig, að fjölskyldan hefði búið þarna án þess að nefna það síðar við afkomendur sína. En Þorsteinn taldi nánast útilokað, að langafi hans hefði byggt húsið, án þess að nokkurn tíma væri á það minnst innan fjölskyldunnar. Stórfjölskyldan var um áratugaskeið búsett að Strandgötu 37, steinsnar frá Grundargötu 6, svo einhvern tíma hlyti það að hafa borist í tal, hefði ættfaðirinn byggt það hús. 

    Við nánari skoðun mína á gögnum frá Bygginganefnd kom enda eitt í ljós: Á þessum tíma voru búsettir í bænum tveir menn með nafninu Jón Jónatansson. Annar  var tómthúsmaður, síðar póstur, og var fæddur 1850  en hinn var járnsmiður, fæddur 1874. Sá síðarnefndi var löngum búsettur í Glerárgötu 3. Ef skoðuð eru gögn Bygginganefndar, sést nokkuð glögglega í „registrum“ að sami Jón Jónatansson virðist hafa fengið byggingaleyfi í Grundargötu árið 1903 og leyfi til byggingar smiðju í Glerárgötu 3 árið 1919. Þar er í báðum tilvikum um að ræða Jón Jónatansson járnsmið. Í stuttu máli: Jón Jónatansson járnsmiður hefur að öllum líkindum reist Grundargötu 6 árið 1903, en alnafni hans, Jón Jónatansson póstur flutt inn í húsið nýbyggt og búið þar ásamt fjölskyldu sinni. Er þessu hér með komið á framfæri.

Þorsteini Jónassyni þakka ég kærlega fyrir ánægjulegt símtal og vek athygli á því, að allar athugasemdir og ábendingar við pistlana eru þegnar með þökkum. 

 

jon_jonatansson_byggnefnd1902-21

 

 

Að ofan: Úr yfirliti (registrum) fundargerðabókar Bygginganefndar fyrir árin 1902-21. Um er að ræða skjáskot af vefsvæði Héraðsskjalasafnsins Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1902-1921 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu. Það verður vart annað lesið úr þessu, en að sami Jón Jónatansson hafi fengið húsgrunninn við Grundargötu og fengið að byggja smiðju við GlerárgötuSá Jón var járnsmiður og var búsettur í Glerárgötu 3. Það er hins vegar annar Jón Jónatansson sem skráður er til heimilis að Grundargötu 6 á árunum 1903-12. Virkar næsta ótrúlegt, en rétt að nefna, að það var ekkert einsdæmi, að einn fengi byggingarleyfi en annar flytti inn í húsið eða lyki við bygginguna. Og þá gat auðvitað allt eins verið um alnafna að ræða eins og aðra.

 

 


Gleðilega páska

Óska öllum gleðrilegrar páskahátíðar smile

Páskamyndin í ár er tekin á skírdag, 6. apríl sl. á Garðsskaga og sýnir gamla Garðsskagavita og nærumhverfi hans. 

IMG_0130

 


Hús dagsins: Strandgata 35

Strandgata 35 eða Havsteenshús er eitt af reisulegri húsum hinnarP3290966 tilkomumiklu götumyndar við Strandgötu. Húsið byggði Jakob V. Havsteen árið 1888 en ekki liggja fyrir heimildir um teiknara. Höfundi þykir hins vegar freistandi að giska á, að Snorri Jónsson timburmeistari á Oddeyri, hafi haft hönd í bagga við hönnun og byggingu hússins,  jafnvel að hann hafi verið byggingameistari.

Strandgata 35 er einlyft timburhús á háum steyptum kjallara og með háu, portbyggðu risi. Fyrir miðju húsi er stór kvistur með mænisþaki og gengur hann í gegnum húsið. Nyrst á austurstafni eru tröppur upp að inngöngudyrum og á vesturstafni eru tvær inngöngudyr, inndregnar og útskorið skraut yfir inngönguskoti. Inngönguskúr „bíslag“ er á bakhlið undir kvisti.  Vestanmegin, meðfram Grundargötu gengur mikil bakálma úr húsinu. Er hún tvílyft með lágu risi. Er þar um að ræða viðbyggingu. Austasti hluti hússins, sem er einlyftur með valmaþaki er einnig viðbygging. Er hún tvö „gluggabil“ og eru gluggar þar með þverpóstum. Á veggjum er einhvers konar báruð álklæðning og hefðbundið bárujárn á þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum en þverpóstar í fáeinum þeirra. Grunnflötur hússins (ónákvæm mæling af map.is) er u.þ.b. 24x11m, þar af viðbygging að austan um 4m breið og bakálma um 8x6m.

Árið 1887 fékk Jakob V. Havsteen lóð hjá Gránufélaginu. Í samningunum kemur fram að „[…]allur reki sunnan við lóðina er undanskilinn frá kaupunum, s.s. hvalur, viður, kolkrabbar og landshlutur af síld“ (Jón Sveinsson 1933: 82). Hvort fjörur Oddeyrar hafi verið krökkar af kolkrabbar síðla á 19. öld skal ósagt látið hér, en alltént eru þeir tilgreindir þarna sérstaklega.  Vorið 1888, nánar tiltekið þann 8. maí, mældi bygginganefnd fyrir húsi Havsteens. Það skyldi 32 álnir (u.þ.b. 20m) að lengd, 16 álnir (u.þ.b. 10m) að breidd og stæði austan við hús Ólafs Jónssonar (Hótel Oddeyri, sem brann 1908). Fjarlægð frá húsi Ólafs yrði 22 álnir (u.þ.b. 14m). Næsta áratuginn fór fram mikil uppbygging á lóðinni, árið 1891 reisti Havsteen pakkhús norðan við húsið, nánar tiltekið 10 álnir frá húsinu, 12 álnir að lengd, 10 álnir að breidd, frá norðri til suðurs. Þá byggði hann einnig fjós, hlöðu og geymslu og brauðgerðarhús og  stóðu húsin nokkurn veginn í hring um lóðina. Fæst þessara húsa standa þó enn, íshúsið, sem var Strandgata 35b var rifið fyrir um tveimur áratugum. Enn standa þó geymsluskúrar, sem áfastir voru því húsi. Þá má einnig geta þess, að Havsteen reisti annað hús norðan við lóðina, Grundargötu 4, árið 1902 og stendur það hús enn. Þá reisti hann bryggju í fjörunni framan við húsið.

Árið 1903 fékk Havsteen leyfi til að reisa „veranda“ austan við, 6,5 álnir austur af stafni og í „flugti“ við suðurhlið. Var verönd þessi öll hin vandaðasta og glæsilegasta, yfirbyggð að hluta með stórum og miklum skrautrúðum og sannkallaður sólskáli. Þakbrúnir og þakskegg voru skreytt útskurði. Vorið 1913 fékk Jakob Havsteen leyfi til að byggja saman Grundargötu 2 og Strandgötu 35 en fyrrgreinda húsið mun hafa verið pakkhúsið frá 1891. Þar með fékk húsið það lag sem það síðan hefur; pakkhúsið var orðin áföst bakálma við húsið. Nyrsti hluti þess hefur þó nokkuð örugglega verið rifinn síðar, því eftir stækkun 1898 var pakkhúsið orðið samtals 23,5 álnir, eða um 15 metrar og núverandi bakálma er hvergi nærri það löng. Í Fasteignamati 1918 er húsinu lýst svo: Íbúðar- og verslunarhús úr timbri, klætt steinplötum á veggjum, einlyft með porti, kvisti og háu risi, á kjallara, þak pappaklætt. Á gólfi: 2 stofur, 2 skrifstofur, eldhús og veranda. Á lofti: 5 íbúðarherbergi og geymsla. Bygt [svo] 1888. Stærð: 25,0x10,0m. tröppur 12,5x1,3m, 2 skúrar, 4,4x1,9+6,6x2,2m, pallur 3,1x2,2m. Viðbótarbygging b. 1913, tvílyft stærð 5,6x4,4m.  (Úr Fasteignamati 1918).

Í fasteignamatinu 1918 segir að húsið sé klætt steinplötum. Umræddar steinplötur eru bogadregnar skífur. Mögulega hefur Havsteen sett skífuna á í kjölfar Oddeyrarbrunans 1906, en eldvörn var einn megintilgangur steinskífu. Ekki einu sinni,  heldur tvisvar hafa næstu hús við Strandgötu 35 brunnið til grunna og  hlýtur timburhúsið að hafa verið í hættu í bæði skiptin. Handan Grundargötu eða við Strandgötu 33, stóð stórhýsið Hótel Akureyri, byggt 1884, en mikið breytt og bætt um 1905, m.a. settir á það turnar og skreyttur kvistur. Það hús brann til ösku í október 1908, ásamt húsinu Strandgötu 31, sem byggt var 1886. Núverandi hús við Strandgötu 33 er byggt 1924. Þann 3. september 1931 brann þáverandi Strandgata 37 til grunna, en það hús reisti téður Havsteen einnig, sem brauðgerðarhús, árið 1899. Núverandi hús á þeirri lóð (þ.e. 37) sem löngum hýsti Kristjánsbakarí er byggt í áföngum frá 1931-46. Margir muna eftir Havsteenshúsinu skífuklæddu, en skífan mun hafa verið á húsinu eitthvað fram undir 1970. Upprunalega var húsið með láréttri panelklæðningu á veggjum. Sólskálanum eða veröndinni frá 1903 var lokað um 1950 og síðaP1230978n eru tveir gluggar með þverpóstum þar sem skautrúður voru áður. 

J.V. Havsteen eða Jakob Valdemar Havsteen var fæddur á Akureyri þann 6. ágúst 1844. Hann nam verslunarfræði í Danmörku og árið 1875 hóf hann störf hjá Gránufélaginu og gegndi þar stöðu verslunarstjóra. Hann var við störf hjá Gránufélaginu til ársins 1887 en ári síðar hóf hann eigin verslunarrekstur og stundaði hann til dánardægurs. Hann rak umfangsmikla útgerð og fiskvinnslu, síldveiðar og söltun, auk þess sem hann rak bakarí og sláturhús. Stundaði einnig ýmsan inn-og útflutning og var þannig nokkurs konar eins manns verslunarveldi. Hann gegndi auk þess ýmsum embættum og ábyrgðarstöðum, var m.a. konsúll Dana og Svía og hlaut árið 1907 etasráðsnafnbót, einn Íslendinga fyrr og síðar.  Jakob Havsteen lést þann 19. júní árið 1920.

 Margt hefur verið ritað og rætt um Jakob V. Havsteen og af honum fóru margar skemmtilegar sögur, enda valinkunnur mektarmaður og einn virtasti borgari Oddeyrar. „Það var tvímælalaust að í æsku minni var Jakob Havsteen kaupmaður mestur virðingarmaður á Oddeyri“  segir Jóhannes Jósefsson í æviminningum sínum. Jakob  Havsteen var  gamansamur mjög og tók hvorki sjálfan sig né aðra hátíðlegar en þörf gerðist, spaugsamur og góðlátlega stríðinn.   Þá má geta þess, að hann og kona hans, Þóra Emilie Havsteen, stóðu um árabil fyrir jólaskemmtunum fyrir börn og voru miklar hjálparhellur fátæks og þurfandi fólks. Greiddi Havsteen starfsfólki sínu í verslunum hærra kaup en aðrir, og sagði það vera vegna þess, að þá stæli það minna (Sbr. Jóhannes Jósefsson 1964:32).

Verslun Havsteens var staðsett í vesturenda hússins, með inngöngudyr frá Grundargötu. Þar mun hann hafa verslað með hinar ýmsu nauðsynja- og nýlenduvörur auk áfengis, uns áfengisbann gekk í gildi 1915. Jakob Havsteen lést, sem áður segir,  árið 1920 og eignaðist skrifstofustjóri hans, Jón Stefánsson þá húsið. Enda þótt verslun Havsteen hafi liðið undir lok með andláti hans, fór það ekki svo, að verslun hætti í Havsteenshúsi. Árið 1922, þegar sala á vínum var leyfð aftur, gerðist Jón framkvæmdastjóri útibús Áfengisverslunar ríkisins og opnaði útibú í kjallara hússins. Þar var áfengisverslunin fram yfir 1950 eða í rúma þrjá áratugi. Í upphafi fyllti Jón glugga verslunarinnar vínflöskum til auglýsingar og þótti mörgum nóg um en á síðari árum var hins vegar farið að öllu með mikilli leynd og gát, og þess gætt að börn sæju alls ekki hverjir komu inn í verslunina og þess þá heldur, að þau sæju hvað viðskiptavinir keyptu (sbr. Jón Þ. Þór 2021:234).  

 Eftir daga Havsteens varð húsið nokkurs konar fjölbýlishús og er það raunar enn. Árið 1930 er t.a.m. 31 skráður til heimilis í Strandgötu 35.  Í manntalinu 1901 er húsið talið nr. 29 við Strandgötu og áður kallaðist það Consúls Havsteens hús. Árið 1940 er afgreiðsla Strandgötu 35 einföld í manntalinu. Þar stendur einfaldlega „leigt Bretum“ og ekki orð um það meir- nema tekið fram, að eigandi sé Jón Stefánsson. En breska setuliðið hafði einmitt afnot af húsinu yfir stríðsárin en einnig og aðallega norsk flugherdeild, sem hér hafði bækistöð. Kallaðist húsið þá Norges hus.  Ekki er ósennilegt, að eftir brotthvarf norsku hermannanna hafi núverandi íbúðaskipan eða vísir að henni, komist á. Nú munu alls sjö íbúðir í húsinu.

Strandgata 35 er reisulegt og glæst hús, í mjög góðri hirðu og er til mikillar prýði í götumynd Strandgötu.  Á árunum 2012-22 voru í gildi  húsfriðunarlög, sem kváðu á um aldursfriðun húsa yfir 100 ára aldri. Er Strandgata 35 því friðuð vegna aldurs og er það vel, enda verðskuldar húsið svo sannarlega friðun. Í Húsakönnun 2020 hlýtur það einnig hátt varðveislugildi. Meðfylgjandi myndir eru teknar 23. janúar og  29. mars 2021.

Þess má geta, að lengri og ítarlegri grein um Strandgötu 35, eftir undirritaðan, má finna í nýjasta hefti Súlna - norðlensks tímarits, sem Sögufélag Eyfirðinga gefur út. 

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 77, 8. maí 1888. Fundargerðir 1902-21 Fundur nr. 254, 18. ágúst 1903. Fundur nr. 378, 16. apríl 1913. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Fasteignamat á Akureyri 1918. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Jóhannes Jósefsson. 1964. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Stefán Jónsson skráði. Reykjavík: Ægisútgáfan.

Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa

Jón Sveinsson. „Jónsbók“, safn upplýsinga um hús og lóðir á Akureyri. 1933.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Jón Þ. Þór. 2021. Höndlað við Pollinn. Saga verslunar- og viðskipta á Akureyri frá öndverðu til 2000.

Manntal á Akureyri 1940. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Auk upplýsinga af timarit.is og manntal.is, sjá tengla í texta.

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2023
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 58
  • Sl. sólarhring: 193
  • Sl. viku: 667
  • Frá upphafi: 419758

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 541
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 52

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband