Hús dagsins: Bjarkarstígur 6; Davíðshús (áður birtur pistill ásamt viðbótum)

Um Davíðshús skrifaði ég hér á þessa síðu snemma árs 2011. Ég hef  oftast nær þá stefnu, að láta þau skrif sem ég hef þegar birt standa, enda þótt ég komist að nýjum upplýsingum um viðkomandi hús. Ástæðan er einfaldlega sú, að ef ég ætlaði að bæta við pistla eða skrifa nýja í hvert skipti sem ég fengi að vita eitthvað nýtt um húsin gerði ég lítið annað. Á þessu eru vitaskuld undantekningar. Fái ég að vita, að eitthvað sem ég hef skrifað sé beinlínis rangt leiðrétti ég það auðvitað. Svo er sjálfsagt að endurbirta og minna á gamla pistla, einhverjir þeirra eru orðnir illaðgengilegir. Og nú ber þannig undir, að röðin er komin að Davíðshúsi í umfjöllun um Bjarkarstíg. Ég hyggst þannig endurbirta fyrri pistil, með „uppfærslum“. Árið 2011 skrifaði ég eftirfarandi um Davíðshús:

Það eru nokkur hús hér á Akureyri sem ég hef sett mér sem skylduviðfang, P2020112fyrst ég er að fjalla um skrautleg og/eða sögufræg hús hér í bæ. Eitt þeirra fór ég að ljósmynda ( ásamt fáeinum öðrum) í dag en þetta hús stendur við eina bröttustu götu bæjarins, Bjarkarstíg, nánar tiltekið Bjarkarstíg 6. En þetta er Davíðshús, kennt við Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) en húsið reisti hann árið 1944 og bjó þar til dánardags. Húsið er steinsteypt, einlyft á kjallara, grunnflötur nánast ferningslaga með valmaþaki; með nokkuð dæmigerðu lagi steinhúsa þess tíma en dálítið stærra og veglegra en almennt gekk og gerðist. Akureyrarbær erfði húsið eftir Davíð og er þar varðveitt mikið bókasafn hans og vistarverur eins og þær voru í hans tíð; í rauninni er engu líkara en að skáldið hafi bara brugðið sér frá í kaffi. Þar er einnig íbúð fyrir fræðimenn og rithöfunda sem leigð er út. Hér má finna nánari upplýsingar um Davíðshús. Myndin er tekin fyrr í dag, 2.2.2011.

Þetta er að sjálfsögðu gott og gilt, nema hvað húsið var líklega byggt á bilinu 1942-44, skv. Húsakönnun 2015 er byggingarárið 1943.PA090816 Um upprunasöguna er það að segja skv. bókunum Byggingarnefndar, að það var í árslok 1941 að Davíð Stefánsson sótti um að fá byggingarlóð við framlengingu á Krabbastíg, 3. Lóð neðan frá, beint suður af klöppinni. Bygginganefnd frestaði hins vegar að taka ákvörðun, þar eð óraðið var hvenær gatan yrði lögð. Leið og beið veturinn 1942, fram á vor og sumar og 5. júní ítrekaði Davíð beiðni sína um lóð og fékk en þó með þeim fyrirvara að gatan yrði mögulega ekki lögð það sumarið. Og það var loks í júlíbyrjun 1942 sem Davíð fékk byggingarleyfi, ásamt þeim Adam Magnússyni og Gaston Ásmundssyni. Þannig voru byggingarleyfin fyrir öll þrjú húsin við Bjarkarstíginn norðanverðan afgreidd á einum og sama fundi Byggingarnefndar 3. júlí 1942. En Davíð fékk að reisa íbúðarhús á lóð sinni, eina hæð með valmaþaki og kjallara undir 2/3 hluta hússins. Stæðri 14,6x8,9m auk útskots að NV, 1,2x6,1m. Teikningarnar gerði Hörður Bjarnason.  Davíð Stefánsson og hans verk þarf vart að kynna fyrir lesendum, en hann bjó hér allt til dánardægurs 1964. Davíðshús var friðlýst skv. Þjóðminjalögum af bæjarstjórn Akureyrar árið 1977, og friðað í A-flokki sem var alhliða friðun, að innan jafnt sem utan. Menningarsögulegt gildi hússins er auðvitað mikið og ótvírætt en húsið sjálft er einnig mjög skemmtilegt að gerð, sérstakt funkishús. Það sem e.t.v. setur helst svip sinn á húsið er sveigt valmaþakið, miklar tröppur með sveigðu handriði og stór gluggi með voldugri umgjörð á framhlið. Lóðin er einnig mjög smekkleg og gróin, og á Minjasafnið  heiður skilinn fyrir smekkvísi og afbragðs viðhald á Davíðshúsi. Í húsinu er sem áður segir, safn og fræðimannsíbúð. Færslunni fylgja tvær myndir, teknar 2. febrúar 2011 annars vegar og 9. okt. 2018 hins vegar.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 894, 29. des 1941. Fundur nr. 913, 5. júní 1942. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Bloggfærslur 16. nóvember 2018

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 14
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 417800

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 242
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband