Hús dagsins: Hríseyjargata 13

Eftir að hafa haldið mig við neðri hluta Ytri brekku um all nokkurt skeið færi ég mig um set úr miðjum Bjarkarstíg. Þaðan er einmitt stórkostlegt útsýni niður á Oddeyri, en þangað skal einmitt haldið. Nánar tiltekið á Hríseyjargötu en við nyrsta hluta hennar, stendur skemmtileg heild tiltölulega smárra steinhúsa í funkisstíl frá fimmta áratug 20. aldar (1940-45). Er hún nokkuð áþekk húsaröðinni geðþekku við næstu götu vestan við, Ægisgötu, en sú röð er örlítið eldri (b. 1936-40) en Hríseyjargöturöðin. Hríseyjargata liggur til norðurs frá Strandgötu, en ysti hlutinn, sem er umfjöllunarefni næstu vikna er á milli Eiðsvallagötu í suðri og Eyrarvegar í norðri. 

Sumarið 1942 sækir Ásgeir Austfjörð um lóð og byggingarleyfi f.h.PB180851 Björns L. Jónssonar við Hríseyjargötu. Birni er heimilað að reisa íbúðarhús, eina hæð með valmaþaki með kjallara undir 2/3. Grunnflötur hússins 14,6x8,9m auk útskots að SA 1,2x6,1m. Ekki fylgir sögunni hver teiknaði en ef ég ætti að giska á mögulegan höfund hússins myndi ég veðja á Tryggva Jónatansson. Hríseyjargata 13 er nokkuð dæmigert einnar hæðar funkishús, með lágu valmaþaki og horngluggum. Í gluggum eru lóðréttir þverpóstar með opnanlegum þverfögum en bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og ýmsir búið hér í gegn um tíðina. Þarna bjó um árabil Jórunn Bjarnadóttir ljósmóðir, frá Geitabergi í Svínadal. Hún var um langt skeið, fyrir tíma Fjórðungssjúkrahússins, eina starfandi ljósmóðirin á Akureyri og tók þannig á móti allflestum börnum sem fæddust í bænum á þessum árum. Hún mun hafa ræktað garðinn við húsið og hefur mögulega gróðursett birkitrén sem prýða lóðina framanverða. Ein íbúð er í húsinu. Mér vitanlega hefur ekki verið gefin út Húsakönnun fyrir Oddeyrina norðan Eiðsvallagötu ( mögulega er hún þó til einhvers staðar) þannig að varðveislugildi húsanna við Hríseyjargötu norðanverða liggur ekki fyrir. Væri ég spurður álits myndi ég segja að Hríseyjargata 13 ætti hiklaust að hljóta varðveislugildi. Húsið er í góðu standi og lítið sem ekkert breytt frá upprunalegri gerð. Þá hefði ég sagt, að hinar heillegu þyrpingar einlyftu funkishúsanna við Ægisgötu og Hríseyjargötu ættu að hafa ótvírætt varðveislugildi, ef ekki friðaðar, sem merkar og skemmtileg heildir. Myndin er tekin þann 18. nóvember 2018.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Bloggfærslur 25. nóvember 2018

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 15
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 432
  • Frá upphafi: 417801

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 243
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband