Hús dagsins: Bjarkarstígur 4

Árið 1942 sótti Gaston Ásmundsson múrari um lóð við Krabbastíg, þá þriðju fráPA090814 Helgamagrastræti en fær ekki í fyrr en í annarri tilraun, og er þá tekið fram, að gatan verði ekki lögð þessa leið það sumarið (1942). Ári síðar fær hann lóðarleigu framlengda um eitt ár, en um sama leiti fékk þessi efri hluti Krabbastígs heitið Bjarkarstígur. Gaston fékk leyfi til að reisa hús úr steinsteypu með flötu steinþaki, 13,10x9,75m ásamt útskoti að austan 1x6,5m og útskoti að sunnan 1x4,6m, ein hæð á kjallara. Teikningarnar gerði Friðjón Axfjörð, sem einmitt byggði húsið á móti, Bjarkarstíg 3.

Bjarkarstígur 4 er einlyft steinsteypuhús með flötu þaki og á háum kjallara. Gluggar eru með einföldum lóðréttum póstum og horngluggar í anda funkisstefnunnar m.a. á NV horni. Útskot að framan er með ávölum brúnum og á SA horni hússins eru svalir í kverkinni milli suður- og austur útskota. Á vesturhlið eru steyptar tröppur upp að inngöngudyrum. Lítið þakhýsi stendur upp úr flötu þaki, líkt og brú á skipi og gefur húsinu sinn sérstaka og sérlega skemmtilega svip. Húsin númer 3 og 4 við Bjarkarstíg eru hvort um sig sérlega reisuleg og sérstök funkishús. Bæði eru þau reist eftir teikningum Friðjóns Axfjörð, en Gaston Ásmundsson gekk einmitt í félag við hann og saman stóðu þeir að hinum ýmsu stórbyggingum. Má þar nefna Hússtjórnarskólann á Laugalandi og Gagnfræðaskólann á Akureyri. Þeir samstarfsmennirnir bjuggu þó ekki í mörg ár hvor á móti öðrum, því árið 1948 eignaðist og fluttist í húsið  Jón G. Sólnes, bankastjóri og síðar alþingismaður, ásamt fjölskyldu sinni og bjó hann þarna til allt til æviloka 1986.

 En húsið, sem er allsérstætt og svipmikið er metið með 2. stigs varðveislugildi, sem „vel útfært funkishús emð vísun til erlendra fyrirmynda“. Ekki spillir fyrir, að húsið er í mjög góðu standi og hefur sjálfsagt alla tíð hlotið gott viðhald. Lóðin er einnig stór og vel gróin m.a. gróskumiklum reynitrjám. Á bakvið húsið er dálítill túnbleðill ásamt klöpp, semP5130723 löngum hefur nýst íbúum Bjarkarstígs, Helgamagrastrætis og Munkaþverárstrætis til leikja, útivistar, ánægju og yndisauka. Þaðan er gott útsýni yfir Oddeyri og yfir Pollinn, eins og sjá á meðfylgjandi mynd sem tekin er á fögrum vordegi, sunnudaginn 13. maí 2018 og horft til SA. Myndin af húsinu er tekin þ. 9. Okt. 2018, og þarna má sjá virðulegan Land Rover, árgerð líklega nærri 1970 í hlaðvarpanum. Sjálfsagt er saga hans ekki ómerkari en hins glæsta 75 ára gamla funkishúss á Bjarkarstíg 4.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.900, 28. feb 1942 . Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Fundur nr. 943, 11. júní 1943. Fundur nr. 955, 3. sept. 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Bloggfærslur 8. nóvember 2018

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 14
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 417800

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 242
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband