Hús dagsins: Munkaþverárstræti 22

Á þessum merkisdegi, kjördegi til Sveitarstjórnarkosninga og 50 ára afmæli hægri umferðar er Hús dagsins hið 82 ára Munkaþverárstræti 22:

Fundargerðar Bygginganefndar Akureyrar, sem eru mikilvægar heimildir í skrifum pislahöfundar eru varðveittar vélritaðar í innbundum bókum á Héraðskjalasafninu. P2180722Á fyrstu blaðsíðu bókarinnar sem nær yfir árin seinni hluta ársins 1935 til hluta árs 1941 blasir við Fundargerð nr. 735 frá 23.ágúst 1935. Meðal þess sem tekið var fyrir á þeim fundi var leyfi til handa Bjarna Rósantssyni sem fékk að reisa hús á lóð sinni við Munkaþverárstræti samkvæmt teikningu og lýsingu, 10,7x8,2m að stærð ein hæð á kjallara og með flötu þaki. Um var að ræða Munkaþverárstræti 22 sem reis af grunni 1936. Bjarni Rósantsson annaðist sjálfur teikningar að húsinu.Þær hafa ekki varðveist, en á Landupplýsingakerfinu má sjá teikningar frá 1938 að steyptri girðingu, sem enn stendur. Þær teikningar gerði Bjarni Rósantsson einnig. Þar sést upprunalegt útlit hússins nokkuð glögglega.

En Munkaþverárstræti 22 er einlyft steinsteypuhús með á háum kjallara, raunar mætti telja húsið tvílyft austanmegin vegna hæðarmismunar á lóð og með einhalla þaki með háum kanti á framhlið. Á suðurhlið er forstofuálma og steypt stétt og tröppur að henni en svalir til austurs á efri hæð.m Veggir eru múrsléttaðir, þak bárujárnsklætt en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Í upphafi var flatt þak á húsinu en núverandi þak var byggt á húsið um 1970 eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar. Það er ekki óalgeng saga Funkishúsa frá fjórða áratugnum, með flötum þökum, að þau hafi á einhverjum tímapunkti fengið „uppbyggð“ þök. Oftar en ekki valmaþök, en stundum einhalla þök eða risþök. Gagnasafnið timarit.is gefur upp 69 niðurstöður fyrir „Munkaþverárstræti 22“ og tæplega helmingur þeirra eða 32 eru frá sjöunda áratugnum. Kemur það líklega til af því, að þá bjó í húsinu Rögnvaldur Rögnvaldsson sem starfrækti þarna umboð fyrir Mál og Menningu og auglýsti vitaskuld reglulega í blöðum. En Munkaþverárstræti 22 er traustlegt og reisulegt hús og í góðri hirðu. Húsakönnun 2015 segir þakkant ekki í samræmi við upprunalegt útlit en telur upprunalega girðingu framan við hús til tekna. Á áratugunum um og fyrir miðja 20.öld var oftar en ekki mikill metnaður lagður í steyptar girðingar á lóðarmörkum oftar en ekki með vönduðu járnaverki, framan við hús. Margar slíkar er að finna við Munkaþverárstræti  og nærliggjandi götum. Í flestum tilfellum hefur eigendum auðnast að halda þeim mjög vel við. Sem er í raun aðdáunarvert, því þessir steyptu veggir eru oftar en ekki viðhaldsfrekir og e.t.v. skiljanlegt að menn vilji frekar skipta þeim út fyrir bílastæði eða einfaldar timburgirðingar. Það er svo sannarlega ekki tilfellið við Munkaþverárstræti 22 þar sem hinn áttræði steinveggur er sem nýr og til mikillar prýði, í samræmi og stíl við húsið. Myndin er tekin þann 18.febrúar 2018.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41Fundur nr.755, 23.ágúst 1935.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Bloggfærslur 26. maí 2018

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 607
  • Frá upphafi: 420080

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 457
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband