Hús dagsins: Hlíðargata 1

Þrjár þvergötur liggja upp og vestur úr Oddeyrargötu. Neðst og styst er Krabbastígur, fyrir miðri götunni er Hamarstígur, og efst er Lögbergsgata. Tvær tiltölulega stuttar götur liggja á milli þessara tveggja gatna, sú neðri nefnist Hlíðargata. Gatan liggur í A-V og er nokkuð brött neðst við Hamarstíg. (Mögulega klóra einhverjir sér í kollinum yfir þessari staðarlýsingu) Hlíðargata er að öllu leyti byggð árin 1939-48, enn þess má geta, að í upphafi árs 2019 er þar hús í byggingu. Hlíðargata er um 130 m löng, skv. lauslegri mælingu undirritaðs á kortavef ja.is .

Árið 1939 fékk Guðmundur Tómasson  lóð norðan við Lögbergsgötu ogPA090845 vestan Hlíðargötu, m.ö.o. hornlóð þessara tveggja gatna, og leyfi til að byggja íbúðarhús á einni hæð á kjallara með hallandi þaki, að stærð 9,25x7,0m með útskotum. Guðmundur gerði sjálfur teikningarnar að húsinu. Guðmundur Tómasson, sem var trésmiður, teiknaði nokkur hús á ytri Brekkunni, m.a. við Munkaþverárstræti. Hann var einnig forstjóri hinnar valinkunnu kexverksmiðju Lórelei. Hann bjó ekki lengi á Hlíðargötu 1 en fljótlega eftir byggingu fluttist hingað Arnheiður nokkur Skaptadóttir, lengst af skrifstofumaður og gjaldkeri hjá KEA. Margir hafa átt hér heima í lengri eða skemmri tíma, en húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús.

  Hlíðargata 1 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með hallandi þaki. Horngluggi er á SA horni en  „sneiðingur“ , 45°,  á SV horni. Húsið má heita nokkuð margbrotið en á suðurhlið, sem snýr að Lögbergsgötu er útskot og á vesturhlið er einnig útskot eða mjó álma þar sem eru inngöngudyr. Inngöngudyr á snýr mót suðri, inndregin og steyptar tröppur upp að henni, en inngöngudyr á kjallara til vesturs. Þá er viðbygging við húsið til norðurs, sem fellur vel að upprunalega húsinu. Sú bygging var reist árið 1967 eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Í flestum gluggum hússins eru einfaldir lóðréttir póstar og bárujárn á þaki. Steining er á upprunalega hluta hússins en viðbygging múrsléttuð. Húsið er stórbrotið og skemmtilegt hús, útskotin gefa nokkurs konar „stuðla“ yfirbragð. Húsið er í góðri hirðu og til mikillar prýði. Þá setur frumlegt skraut, steypt skeifa ofan útidyra og vagnhjól á framhlið skemmtilegan svip á húsið, ásamt klifurjurt í kverk milli suðurhliðar og útskots. Lóð er vel hirt og gróin og þar eru m.a. gróskumikil reynitré. Í Húsakönnun 2015 er húsið sagt „Reisulegt og sérstakt hornhús í funkisstíl“  (Ak. Bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 113) og hefur 1. stigs varðveislugildi sem hluti heildar eða götumyndar.  Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 834, þ. 30.maí 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Bloggfærslur 10. janúar 2019

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 623
  • Frá upphafi: 420096

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 471
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband