Hús dagsins: Helgamagrastræti 9

Helgamagrastræti 9 byggði Jóhann Þorsteinsson Kröyer verslunarstjóri hjá KEA árið 1936.P2240890 Hann var einn margra félaga Samvinnubyggingafélagsins sem fékk útvísaða lóð og húsgrunn félagsins við Helgamagrastrætið í ársbyrjun 1936. Það vildi meira að segja svo til, að það var fyrsta verk Bygginganefndar á árinu 1936 að yfirfæra þessar lóðir Byggingafélagsins til félagsmanna. Húsin sem þarna risu voru byggð eftir teikningu Þóris Baldvinssonar.

Helgamagrastræti 9 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, sem og svalir á efri hæð á SA horni. Á bakhlið er viðbygging, jafn há húsinu, og er hún einnig með flötu þaki.Perluákast er á veggjum og þeir málaðir en pappi á þaki.

Jóhann Þorsteinsson Kröyer var fæddur á Svínárnesi á Látraströnd þann 21. janúar 1895. (Þess má til gamans geta, að þann sama dag fæddist annar drengur handan fjarðarins á Fagraskógi á Galmaströnd, nefnilega þjóðskáldið Davíð Stefánsson). Jóhann  tók við búi foreldra sinna á Svínárnesi og var bóndi þar ásamt fyrri konu sinni Evu Pálsdóttur um nokkurra ára skeið. Á þriðja áratugnum fluttist hann til Neskaupstaðar þar sem hann var verslunarstjóri, þá var hann kaupfélagsstjóri á Ólafsfirði 1929-´34 en fluttist þá til Akureyrar. Jóhann var um lengi verslunarstjóri hjá KEA, nánar til tekið í kjötbúð félagsins en síðar gegndi hann stöðu forstjóra Vátryggingadeildar KEA. Hann bjó hér allt til æviloka, en hann varð 101 árs og var elsti borgari Akureyrar er hann lést haustið 1996. Seinni kona Jóhanns var Margrét Guðlaugsdóttir, sem tók upp ættarnafn hans, Kröyer. Margrét Kröyer var um áratugaskeið mjög virk í starfi kvenfélagsins Framtíðar og einn af máttarstólpum þess. Hún gegndi tvisvar formennsku félagsins en var einnig um tíma formaður Kvenfélagasambands Akureyrar. Hún seldi lengi vel héðan frá heimili sínu Minningaspjöld Framtíðar.

Helgamagrastræti er stórglæsilegt hús og í mjög góðri hirðu. Viðbygging fellur vel að húsinu, en hún er byggð árið 1954 af þeim Jóhanni og Margréti eftir teikningu Mikaels Jóhannssonar. Samkvæmt teikningum er ráð fyrir byggingu valmaþaks á sama tíma, en ekki virðist hafa orðið að þeirri þakbreytingu.  Segir í Húsakönnun 2015 að viðbygging sé „[...]látlaus og fari húsinu ágætlega“ (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 75). Lóðin er einnig vel hirt og gróin og ber þar mikið á gróskumiklum birkitrjám og runnagróðri á framlóð. Er það sammerkt húsum á þessu svæði, að lóðirnar eru mjög gróskumiklar. Húsið hlýtur í áðurnefndri Húsakönnun varðveislugildi 2 sem hluti merkrar heildar.

Sem áður segir gegndi Jóhann Kröyer, sem byggði Helgamagrastræti 9, stöðu verslunarstjóra í kjötbúð Kaupfélags Eyfirðinga á fjórða og fimmta áratug 20. aldar.  Í bók Steindórs Steindórssonar um Akureyri má finna eina gamansögu um samskipti Jóhanns Kröyer og bónda framan úr Eyjafirði. Þannig var, að bóndinn kom í   kjötbúð KEA í Hafnarstræti 87 og vildi selja þar kýrskrokk. Jóhann  vildi hins vegar aðeins kaupa hálfan skrokkinn. Bónda þótti það ekki alveg nógu gott og spurði þá, hvað hann ætti þá að gera við hinn helminginn. „O, þú lætur hann lifa“ svaraði Kröyer þá að bragði. (sbr. Steindór Steindórsson 1993: 143).

Myndin er tekin þann 24. febrúar 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 767, þ. 4. jan. 1936. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Bloggfærslur 12. júní 2019

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 36
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 771
  • Frá upphafi: 420057

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 611
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband