Hús dagsins: Helgamagrastræti 13

Helgamagrastræti 13 reistu Jón Helgason skósmiður og PetrónellaP2240893 Pétursdóttir árið 1936, en Jón fékk haustið 1936 „aðra lóð norðan við hús Jóhanns Kröyer“ [Helgamagrastræti 9]. Hann fékk að reisa sams konar hús og þau sem þegar voru risin og voru að rísa við Helgamagrastræti, tvær hæðir með flötu þaki og kjallaralaus, veggir og loft úr steinsteypu, 7,6x8,10m að grunnfleti, eftir teikningu Þóris Baldvinssonar.

Helgamagrastræti 13 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, sem og svalir á efri hæð á SA horni. Perluákast er á veggjum og bárujárn á þaki og þverpóstar í gluggum. Á norðurhlið er útskot, jafn hátt húsinu og valmaþak slúttir þak yfir svalirnar.

Jón Helgason sem byggði húsið, var lengst af verkstjóri á skógerðinni Iðunni á Gleráreyrum og vann þar í meira en 40 ár. Hann var frá Neðri Núpi í Miðfirði. Jón og Petrónella, sem var frá Sigtúnum í Öngulsstaðahreppi (nú Eyjafjarðarsveit) bjuggu hér í hálfa öld, eða allt þar til hún lést árið 1987. Síðan hafa ýmsir búið í  Helgamagrastræti 13 og öllum auðnast að halda þessu glæsta og traustlega húsi vel við, sem og gróskumikilli lóð. Samkvæmt Húsakönnun 2015 var byggt við húsið árið 1939 til vesturs og árið 1950 var byggt við það til norðurs og árið 1957 var byggt ofan á húsið, eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Fékk húsið þá það lag sem það hefur æ síðan.

Helgamagrastræti 13 er traustlegt hús og í góðri hirðu. Þá er einnig bílskúr á lóðarmörkum norðaustanmegin, líklega byggður á svipuðum tíma og húsið og mun hann sá eini í þessari húsaröð Samvinnubyggingafélagsins. Áfastur honum er lágur steyptur veggur með járnavirki sem einnig er vel við haldið.  Lóðin er vel gróin og hefur verið svo allt frá tíð Jóns Helgasonar og Petrónellu. Ber þar mikið á stæðilegum birkitrjám, en það er sammerkt með flestum húsum við Helgamagrastrætið að þar eru ræktarlegir og vel hirtir garðar og margt gróskumikilla trjáa.  Ein  íbúð er í húsinu.

Helgamagrastræti 13, sem er annað hús sunnan og austan megin frá horni götunnar og Hamarstígs er yst í röð sams konar funkishúsa. Þessi hús, sem flestöll voru reist af starfsmönnum KEA voru byggð árin 1936-37. Þessi húsaröð var þá sú efsta í bænum; það sem lá ofan og vestan Þórunnarstrætis var „úti í sveit“. Alls urðu þessi hús níu að tölu, ef talið eru með Þingvallastræti 16 sem reist var eftir áþekkri teikningu en ekki þeirri sömu og  Helgamagrastræti 1-13, 4 og 6. Öll húsin teiknaði Þórir Baldvinsson. Helgamagrastræti 2 er einnig mjög svipað, enda mun Skarphéðinn Ásgeirsson hafa stuðst við útlit og yfirbragð nærliggjandi húsa við hönnun og byggingu þess.  Þessi funkishúsaröð Samvinnubyggingafélagsins er metin sem „varðveisluverð heild“ í Húsakönnun 2015 og hljóta húsin varðveislugildi 2, sem hluti þeirrar merku heildar.  Þar á meðal, að sjálfsögðu, Helgamagrastræti 13. Myndin er tekin þann 24. febrúar 2019, en hér má sjá mynd frá 1940 eða þar um bil, af funkishúsaröðinni við Helgamagrastræti ásamt Þingvallastræti 16. 

Heimildir:  Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 780, þ. 5. sept. 1936. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Bloggfærslur 2. júlí 2019

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 222
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 753
  • Frá upphafi: 419695

Annað

  • Innlit í dag: 179
  • Innlit sl. viku: 610
  • Gestir í dag: 171
  • IP-tölur í dag: 169

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband