Hús dagsins: Helgamagrastræti 26

Skráð byggingarár Helgamagrastrætis 26 er 1949. En það var fjórum árum fyrr,P5030908 eða í ágúst 1945, sem Sigurður Guðmundsson var úthlutuð lóðin.  Þess má geta til gamans, að  sama fundi og Sigurði var veitt lóðin, ákvað Bygginganefnd að nýta svæðið á vestan Helgamagrastrætis, norðan við hornlóðina að Bjarkarstíg sem leikvöll fyrir börn. Þar stendur nú leikskólinn Hólmasól. Haustið 1945 fékk Sigurður síðan byggingarleyfi, fyrir hús á einni hæð á háum kjallara; kjallari úr steinsteypu en hæð úr r-steini. Stærð að grunnfleti 8,3x10,56m. Teikningarnar, sem ekki eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, gerði Friðjón Axfjörð.

Helgamagrastræti 26 er einlyft steinhús á háum kjallara, raunar mætti segja húsið tvílyft með þaki sem kallast í Húsakönnun e.k. mansard, kemur þeim sem þetta ritar fyrir sjónir sem nokkurs konar blendingur valmaþaks og mansardriss. Þakhæðin er nánast fullburðug hæð, þannig að með góðum vilja má jafnvel kalla húsið þrílyft með lágu valmaþaki. Gluggar eru flestir fjórskiptir með lóðréttum póstum en í stigagangsglugga á framhlið eru krosspóstar. Veggir eru ýmist klæddir plasti eða málmi (jarðhæð múrhúðuð) og bárujárn á þaki. Yfir inngangi er dyraskýli og svalir á þakhæð til suðurs.

Árið 1960 var byggð ofan á húsið þakhæð með þessu sérstaka valma/mansard lagi og eru þó nokkur hús hér í bæ, sem fengu sambærilega þaklyftingu um og upp miðri 20 . öld. Var þar í flestum tilvikum um að ræða tiltölulega nýleg funkishús (þá um 15-30 ára) sem höfðu verið flötu eða valmaþaki. Má t.d. nefna Munkaþverárstræti 12 og Fjólugötu 18 á Oddeyri. Teikningarnar að þessum breytingum gerði Ásgeir Valdemarsson.

Sigurður Guðmundsson, klæðskeri og forstjóri var fæddur árið 1917 að Ferjubakka í Mýrarsýslu. Hann rak um árabil, eða frá 1955, Klæðaverslun Sigurðar Guðmundssonar sem lengi vel var til húsa í Hafnarstræti 96, París.   Elsta heimildin sem finna má um timarit.is um Helgamagrastræti 26 er nánast réttra 70 ára þegar þetta er ritað, en þann 24. ágúst 1949 auglýsir Sigurður að hann vanti saumastúlkur til starfa. Sigurður bjó hér allt til dánardægurs, 1993. Kona Sigurðar var Guðrún Karitas Karlsdóttir, frá Veisu í Fnjóskadal. Bróðir hennar, Arnór Karlsson, var einnig búsettur hér um áratugaskeið. Hann þekkja flestir Akureyringar og nærsveitarmenn sem Arnór í Blómabúðinni en hann stundaði blómasölu í meira en hálfa öld, lengst af undir merkjum Blómabúðarinnar Laufás, sem hann stofnaði 1966. Þeir mágar Sigurður og Arnór stunduðu saman verslunarrekstur í París (húsinu, ekki borginni) um áratugaskeið og eiga Akureyringar á öllum aldri sjálfsagt ýmsar minningar tengdar þeim og verslunum þeirra.

Helgamagrastræti 26 er stórbrotið funkishús, þakhæðin frá 1960 setur þó nokkurn svip á það. Húsið er í góðri hirðu og sömu sögu er að segja af lóð, þar eru nokkur gróskumikil reynitré. Á lóðarmörkum er lágur steyptur veggur með stöplum, sem mun upprunalegur en í góðri hirðu. Ein íbúð mun í húsinu. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1026, þ. 10. ágúst 1945. Fundur nr. 1034, 12. okt. 1945 Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Bloggfærslur 19. ágúst 2019

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 137
  • Sl. viku: 754
  • Frá upphafi: 419890

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 596
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband