Hús dagsins: Gamli Skóli

p3060050.jpgEitt stærsta og veglegasta timburhús á Akureyri stendur við Eyrarlandsveg 28 og er einskonar einkennisbygging Menntaskólans á Akureyri. En Gamli Skóli ( margir kalla húsið einfaldlega bara Menntaskólann ) var reistur árið 1904  og yfirsmiður var Sigtryggur Jónsson timburmeistari.  Gamli skóli er nokkuð dæmigert fyrir norsk Sveitser hús og fullvíst er talið að hann hafi komið tilhöggvin frá Noregi, enda reis hann á aðeins fjórum mánuðum. Í bókinni Af Norskum Rótum er sagan rakin á þessa leið: Teikningar Sigtryggs eru dagsettar 26.apríl 1904 og samþykkti Stjórnarráðið verksamning við hann þremur dögum seinna. Þá mun hann hafa haldið til Noregs og valið við í húsið. 1.október um haustið er skólinn svo settur í húsinu. Hugsanlega hefur húsið verið reist með fullmiklu hraði. Allavega mun húsið hafa verið óþétt og varla haldið vatni eða vindum og Stefán Stefánsson, sem tók við sem skólameistari 1908, var ekki alls kostar sáttur með ástand hússins. Mikið tjón varð t.d. á húsinu í slagviðri í árslok 1914 og á árunum 1920-25 voru gerðar á því miklar endurbætur, húsið járnklætt og sett í það raflýsing og miðstöðvarhitun. Á fyrstu áratugum voru í húsinu bæði kennslustofur, heimavist og íbúð skólameistara og hans fólks en á lóðinni stóð einnig gripahús, reist 1905. Það hús stendur ekki bara enn, heldur er enn í dag í fullri notkun sem íþróttahús skólans og gengur undir nafninu Fjósið. Saga Gamla skóla er orðin bæði löng og merk og það yrði allt, allt og langt mál að rekja hana í smáatriðum. Miðað við hvað þetta er glæsilegt hús, kann etv. að þykja ótrúlegt að eitt sinn stóð til að rífa Gamla Skóla. Var það á árunum 1966-67 sem miklar hugmyndir voru á teikniborðinu um nýbyggingar, m.a. tveggja hæða bóknámshús og nýtt íþróttahús sem átti að standa á ca. sama stað og Gamli Skóli og raungreinahús. Það síðarnefnda reis 1969 og er kallað Möðruvellir. Einhversstaðar sá ég því fleygt fram að kreppan uppúr 1970 (gjarnan kennd við olíu) hafi raunar bjargað gömlu húsunum, orðið til þess að ekkert varð meira úr fyrirhugaðri uppbyggingu. Nú dytti væntanlega engum í hug að rífa Gamla Skóla. Enda hefur mikil uppbygging átt sér stað umliðnum áratugum án þess að hreyft hafi verið við húsinu. Hólar nefnist nýjasta bygging skólans, einnar hæðar bygging sem tengir saman Gamla Skóla og Möðruvelli.  Hólar voru reistir 1996 og þar er nú aðalinngangur skólans, afgreiðsla og Kvosin, samkomustaður nemenda. Langur gangur liggur frá Kvosinni og tengist við Gamla Skóla þar sem áður var lítil forstofubygging. Er það mjög sérstakt að ganga eftir þeim gangi, nýmóðins og steinsteyptum og koma svo inná brakandi timburgólf Gamla Skóla. Þess má geta að síðuhaldari er fyrrum MA-ingur og hefur setið ófáa tíma í þessu merka húsi. Myndin er tekin 6.mars 2010. 


Heimildir: Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason. (2003). Af norskum rótum. Reykjavík: Mál og menning.

Jón Hjaltason (ritstj.). 2008. Saga Menntaskólans á Akureyri 4.bindi.  Akureyri: Völuspá í samvinnu við Menntaskólan á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 44
  • Sl. viku: 625
  • Frá upphafi: 420098

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 473
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband