HÚS DAGSINS NR. 150: Amtsbókasafnið á Akureyri, Brekkugata 17.

Inngangur: Þá lítur dagsins ljós hundraðasti og fimmtugasti húsapistillinn hér á þessari síðu. Pistlana hef ég ævinlega kallað "Hús dagsins" en þó hafa þetta verið langt frá því að vera daglegir pistlar. Stöku sinnum hafa komið pistlar nokkra daga í röð en stundum hafa liðið tveir- þrír dagar, stundum meira en vika. Held að lengsta hlé hjá mér hafi staðið tvær vikur. En að meðaltali hafa pistlarnir verið vikulegir, sbr. að nú hef ég verið að þessu í að verða þrjú ár og hér er pistill nr. 150. Upphaflega ætlaði ég nú aldrei með þetta svona hátt og halda þessu gangandi svona lengi. En hér er sumsé 150 .pistillinn og svo skemmtilega vill til að hann birtist nú á 150. afmælisári Akureyrarbæjar, en afmælisfögnuður mun standa - og hefur staðið allt árið með ýmsum uppákomum. Ég sá það að pistillinn með þessu númeri yrði að vera einhverskonar "viðhafnar" eða hátíðarpistill og kannski litið um öxl. Hér ætla ég aðeins að fara yfir hvernig þetta "Hús dagsins" hjá mér byrjaði og einnig ætla ég að fara yfir sögu Akureyrar gegn um byggingarsöguna- þ.e. hvernig byggðin hefur dreifst þessi 150 ár, auk þess að birta heildarlistann yfir öll þessi 150 "Hús dagsins". En söguágripið og yfirlitið verða í sér pistlum, en áður en ég fjalla um húsið á myndinni ætla ég aðeins að renna stuttlega yfir hvernig þessi hugmynd varð til.

Hver er sagan á bakvið "Hús dagsins"? Upprunalega varð þessi síða til hjá mér í kringum myndasafn sem ég hafði komið mér upp árin 2005-08 af húsum í eldri hverfum Akureyrar. Ég hafði þá þegar haft það sem sérstakt áhugamál að kynna mér sögu bæði bæjarins og sérstaklega húsanna sem slíkra, flett og lesið öllum mögulegum bókum þess efnis og auk þess stundað Sögugöngur Minjasafnsins öll sumur frá 1997- en þá flutti ég í bæinn. (Má geta að fram að því var ég búsettur í Eyjafjarðarsveit, við Kristnes og svo við Hrafnagil- þannig að Akureyri var aldrei langt undan Wink) Mér þótti um að gera að deila myndunum mínum og fróðleiknum sem ég hafði viðað að mér og 2008 skellti ég einhverjum tugum mynda inná Flickr . En mig langaði að geta látið meiri texta fylgja- svo ég athugaði möguleikan á helstu bloggveitunum og sá að moggabloggið væri heppilegur vettvangur. 22.júní 2009 setti ég þessa síðu af stað og þremur dögum seinna birti ég fyrsta pistilinn. Hann var um Norðurgötu 17; Steinhúsið eða Gömlu Prentsmiðjuna. Textinn var í lágmarki hjá mér og það hefur alla tíð verið stefnan; að láta frekar myndirnar tala sínu máli og birta aðeins stutt ágrip af sögu húsana, byggingarár o.þ.h. fylgja. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að mér sjálfum þykja langir textar ekki þægilegir aflestrar af tölvuskjá- vil þ.a.l. ekki bjóða ykkur uppá eitthvað sem mér finnst sjálfum óþægilegt. Einnig er því þannig farið með marga að þegar þeir eru á netinu þá taka þeir e.k. "rúnt" kíkja kannski á nokkrar síður í einu og dvelja stutt við- og þá eru mjög langir textar ekki heppilegir- jafnvel fráhrindandi. (En stundum er það nú bara þannig að um sum hús hef ég bara meira fram að færa en önnur og á það til að verða langorður...) Pistlarnir eru alls ekki hugsaðir sem fræðirit- heldur einungis skemmtilegur fróðleikur sem ég man úr mínu grúski- oftast skrifa ég bara það sem ég man utanbókar um viðkomandi hús. Enda nota ég mikið orð á borð við líklega, sennilega og gæti ég trúað og forðast í lengstu lög að fullyrða eða staðhæfa, nema hafa þá heimildir til taks sem ég vísa þá til. En fyrst þegar ég fór af stað með þetta þá ætlaði ég aðeins að deila þeim 80 myndum sem ég átti frá 2005-08 og láta svo gott heita- átti raunar ekki von á að nenna þessu nema nokkra mánuði. En svo fóru menn að hnippa í mig og benda mér á að ég yrði nú að taka þetta hús og þetta hús og auk þess fannst mér að fyrst ég fjallaði um eitt hús þá yrði kannski annað ákveðið hús að fylgja með- samhengisins vegna. Og svo uppgötvaði ég alltaf eitthvað nýtt- t.d. fékk ég bókina um Sveinbjörn Jónsson í afmælisgjöf í júní 2010 og sá þar að ég gæti myndað og tekið fyrir talsvert af húsum eftir hann og hús byggð úr r-steini. Og þegar ég hafði tekið fyrir mörg hús úr Innbænum og Oddeyrinni sá ég að ekki gat ég látið Þorpið afskipt og myndaði ég þar fyrst í febrúar 2011. Og enn eru fjölmörg hús sem ég get hugsað mér að mynda og birta hér því þessi pistill er enginn endapunktur.P3180113

Oft leiðir eitt af öðru hjá mér í pistlunum, stundum tek ég fyrir hús sem hýsti eða hýsir ákveðna starfsemi og þá þykir mér oft nauðsynlegt að taka næst annað hús sem hýsti sömu starfsemi. Það verður tilfellið í þessum pistli- en þessi má segja að komi í framhaldi af pistlinum mínum um Aðalstræti 40, sem áður hýsti Amtsbókasafnið. En á myndinni má sjá núverandi hús Amtsbókasafnsins en það stendur við Brekkugötu 17. En ég ákvað að taka fyrir Amtsbókasafnið í þessum "viðhafnarpistli" mínum en hér er bæði um að ræða áberandi og merka byggingu á Miðbæjarsvæðinu- kennileiti í bænum. Einnig er Amtsbókasafnið rótgróin stofnun sem hefur fylgt Akureyrarkaupstað alla hans tíð- en Amstbókasafnið er miklu eldra en Akureyrarkaupstaður- stofnað 1827. Þá hefur þetta val á húsi nr. 150 persónulega tengingu því hér hefur undirritaður verið hér fastagestur frá júní 1997 og hér sat ég löngum stundum og las mér til um sögu bæjarins og húsanna- og geri enn. Þarna fékk ég nefnilega lánaða bókina sem upphaflega vakti áhugan minn á gömlum húsum, þ.e. Oddeyri húsakönnun eftir Guðnýju Gerði Gunnarsdóttir Hér er saga Amtsbókasafnsins rakin ítarlegar. En húsið var reist árið 1968 eftir teikningum Bárðar Ísleifssonar og Gunnlaugs Halldórssonar en bygging safnsins á þessum stað hafði raunar verið ráðgerð í meira en þrjá áratugi! Fyrir byggingu hússins þurfti timburhús frá því um aldamót 1900, Brekkugata 19 að víkja. En húsið er tvílyft steinhús með flötu þaki, en stór hluti framhliðar eru gluggar en einskonar malarsteypa á neðri hæð, þ.e. litlir steinar þekja ysta byrði steypunnar- ekki ósvipað grófum skeljasandsmúr. Nýrri bygging er hinsvegar glerjuð frá "grunni og uppúr". Almenningsrými upprunalega hússins er á tveimur hæðum og var á efri hæðinni lestrarsalur en útlánsdeild á þeirri neðri. Bakatil , í starfsmannarýmum voru hæðirnar þrjár en einnig var og er geymslukjallari undir húsinu. Fyrir stækkun voru sem áður segir, útlánabækur á neðri hæð, afgreiðsla og barnabækur og myndbönd í suðurenda. Á báðum hæðum voru litlir tímaritakrókar á neðri hæð voru það dagblöðin en önnur tímarit á þeirri efri. Allur suðurhluti efri hæðar var skipaður lesborðum og nokkrum röðum af bókahillum og þegar komið var upp stigan var gestabók á vinstri hönd en áðurnefndur tímaritakrókur til vinstri. Um 2000 var starfsemin farin að sprengja utan af sér húsnæðið og framkvæmdir við stækkun hófust um 2001-2. Byggt var við húsið til norðurs og var viðbygging í svipuðum stíl og eldra húsið. Þá var stiga milli hæða snúið við en nú liggur hann upp til suðurs auk þess sem gerðar voru miklar endurbætur á eldra húsinu. Viðbyggingin hýsir nú Héraðsskjalasafnið (á 2.hæð) og tímaritahorn og tölvuver , þar sem hægt er að kaupa netaðgang og veitingasal, Amts Café. Á neðri hæð er afgreiðsla u.þ.b. þar sem eldra hús og viðbygging mætast en anddyri er í nýbyggingu. Þá er lesrými nú afstúkað í suðurenda með glervegg og fræðibækur og handbækur, ásamt veglegu DVD-myndasafni á neðri hæð. Í norðurenda efri hæðar er barnadeild en þar eru einnig skáldsögur og fræðibækur. Núverandi húsakostur safnsins var tekinn í notkun 6.mars 2004 og varð aðstaðan stórbætt, bæði fyrir safngesti og starfsfólk- og að sjálfsögðu er búnaður og safngögn í stöðugum endurbótum. Þó eru eflaust margir (og undirritaður þ.m.t.) sem þótti óneitanlega sjarmi yfir safninu eins og það var t.d. að þurfa að fara úr skónum í gömlu forstofunni og teppalögðum lestrarsalnum og gestabókinni svo fátt eitt sé nefnt. Þessi mynd er tekin 18.mars 2012.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veistu nafni, ég held að það sé komin tími til að þú reynir að koma þessu efni í bók.

Arnór Kárason (IP-tala skráð) 3.6.2012 kl. 05:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 78
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 554
  • Frá upphafi: 417775

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 352
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband