Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 24 (Eyrarlandsvegur 26, endurbirtur pistill frá 11.5.2010)

203. Húsapistillinn er um Eyrarlandsveg 24 og þar með loka ég umfjölluninni um Eyrarlandsveg neðanverðan upp að 26, en það hús er ívið eldra en röðin niður að nr. 12. P2230068Eyrarlandsveg 26 fjallaði ég um fyrir tæpum þremur árum síðan og mun ég endurbirta þann pistil hér að neðan. En hús númer 24 reisti Páll Sigurgeirsson, kaupmaður í Brauns-verslun árið 1925. Níu árum síðar byggði hann við húsið til norðausturs en á blaðsíðu 82 í bók Steindórs Steindórssonar (1993:82) sést glögglega hvernig húsið leit út upprunalega. Þá var það einlyft með háu risi og á lágum kjallara og alls með þremur kvistum einum bogadregnum á suðvesturhorni, öðrum með hallandi þekju nær norðausturgafli og einum mjög litlum efst uppi fyrir miðju húsinu. Þessi einkenni hússins hafa öll haldið sér og það sem meira er- gluggapóstar virðast með sama lagi nú og árið 1927 þegar umrædd mynd var tekin. (Sá sem tók þá mynd var Vigfús Sigurgeirsson, bróðir Páls sem byggði húsið!) Viðbygging frá 1934 er tvílyft að hluta en á henni eru einnig miklar svalir með skreyttu handriði og virðist fremsti hluti hugsaður sem forstofa. Alltént voru útidyr hússins á suðausturhorni hússins upprunalega, eiginlega hornrétt örlitlu innan við núverandi aðaldyr. Að utan er húsið næsta lítið breytt frá 1934 að viðbygging var reist en líklega hefur einhverju verið hnikað til að innan- það er alla jafna tilfellið þegar í hlut eiga hús um nírætt. Húsið mun vera einbýli og hefur líklega alla tíð verið án þess að ég viti það nákvæmlega; enda húsið meira en þrisvar sinnum eldra en undirritaður Wink. En líkt og öll húsaröðin í Eyrarlandsveginum er húsið , sem og umhverfi þess í glæsilegu og góðu standi og lóðin- eins og nágrannalóðir- vel gróin reyni- og birkitrjám. Þessi glæsilega húsaröð við neðanverðan Eyrarlandsveg er nefnilega "í felum" þrjá mánuði ársins fyrir laufskrúði áratuga gamalla og stæðilegra trjáa. Þessi mynd er tekin 24.febrúar 2013.

Heimild: Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Hér er pistillinn um næsta hús ofan við, Eyrarlandsveg 26, birtist fyrst 11.maí 2010. Myndina tók ég þann 6.mars 2010 á leið á kjörstað þegar kosið var um Icesave!

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 26

Eyrarlandsvegur 26, einnig kallað Breiðablik á stórafmæli á næ p3060051.jpg sta ári en það er 99 ára, byggt 1911. Húsið hefur mörg einkenni norskra katalóghúsa. Einkennandi fyrir húsið er útskorið skraut og á því er sérstæður kvistur og útbygging nálægt horni þess sem gefa því glæsilegan og sérstakan svip. Upprunalegur eigandi hússins var Sigurður Hlíðar dýralæknir en hann mun ekki hafa byggt það heldur fengu hann og kona hans Guðrún Louise Guðbrandsdóttir það í brúðkaupsgjöf frá móður hennar sem var stórkaupmannsekkja úr Reykjavík. (Steindór Steindórsson 1993) Kom húsið tilhöggvið frá Noregi. Næstu eigendur hússins á eftir Sigurði voru m.a. þeir Guðmundur G. Bárðarson, átti húsið 1923-26 og Brynleifur Tobíasson sem bjó þar lengi á eftir. Báðir kenndu þeir við Menntaskólann á Akureyri, en þetta hús er einmitt staðsett skáhallt á móti skólanum. Þá mun Sigurður sjálfur einhverntíma hafa kennt við skólann. Nú er húsið í eigu Kaþólsku kirkjunnar og þar mun vera íbúð prests og kapella. Kaþólska kirkjan á einnig næsta hús, Hrafnagilsstræti 2 ( gafl þess sést t.v. á myndinni) og var það hús gert upp á hennar vegum fyrir ca. 5-10árum og þjónar nú sem kirkja. Þessi mynd er tekin 6.mars 2010. En þann dag brá ég mér í mikinn ljósmyndaleiðangur á leið frá kjörstað (þann dag var einmitt kosið um IceSave eins og allir muna), þar sem ég hafði tæmt það húsamyndasafn sem ég átti fyrir. Myndaði ég þar þetta hús, Gamla Skóla, Sigurhæðir og nokkur hús við Hafnarstræti. Húsamyndasafn mitt frá Akureyri er þar með tæmt, en þó eru fáein sögufræg hús sem ég finnst mér verða að koma að fyrst ég er nú að þessu á annað borð.

En hvenær læt ég staðar numið af húsum dagsins ? Í því er ekkert ákveðið. Hugsanlega segi ég það gott eftir 100 hús (þetta er 80.húsamyndin sem ég set inn). Eða eftir eitt ár, en 25.júní nk. verður þessi dálkur Hús dagsins eins árs. Svo geta hlutirnir undið uppá sig; ef ég set inn eitt hús þá finnst mér kannski ekki stætt á öðru en að setja annað, sem ég tel á e-n hátt "sambærilegt". En eitt er víst að ég mun tilkynna það hvenær ég hyggst láta staðar numið af Húsum dagsins. Einhverjir kíkja hér eflaust reglulega og og athuga hvort komið sé "nýtt" hús og leiðinlegt þætti mér að skilja þá eftir í óvissu um hvort og hvenær ný umfjöllun kæmi.

Heimild: Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

(PS. Þetta er óneitanlega dálítið skemmtilegar hugleiðingar þarna í lokin á pistlinum frá maí 2010- svona í ljósi þess hvert framhaldið hefur orðið og hversu lengi þetta hefur gengið!)



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 29
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 436
  • Frá upphafi: 420136

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 325
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband