Hús dagsins: Hafnarstræti 25

Ég hef síðustu vikur tekið fyrir miðhluta Hafnarstrætis frá 29 að 47 en ætla nú að færa mig niður fyrir húsaröð Jónasar og Sigtryggs númer 29 til 41.P9100030 Hafnarstræti 23 hef ég gert skil fyrir einhverjum árum en nú er það Hafnarstræti 25. Lóðin er ein þeirra  sem téðir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson eignuðust 1904 og áttu þeir hana til 1908 en þá keypti Kristján Sigurðsson verslunarmaður lóðina. Árið 1912 var húsið hans sem enn stendur risið. Um er að ræða tvílyft timburhús á lágum en djúpum steyptum og með háu en aflíðandi risi. Húsið er bárujárnsklætt og ekki ósennilegt að svo hafi verið frá upphafi en bárujárn tók að berast hingað um þetta leyti og menn farnir að huga mikið að því að verja timburhús vegna tíðra stórbruna m.a. á Akureyri. Var þetta líklega ein öflugasta eldvörn þessa tíma. Ef það kviknaði í timburhúsi um 1910 var það hús eiginlega bara búið að vera en það gat oft skipt sköpum að verja næstu hús til að koma í veg fyrir "raðbruna". Á þessum tíma fer samhliða að draga úr byggingum stórra timburhúsa og steinsteypuöld hefst, t.d. reis eitt fyrsta stóra steinhús Akureyrar ári á eftir þessu húsi nokkrum lóðum neðar. Á framhlið hússins er miðjukvistur en tvílyft bakbygging með risi er á norðanverðu húsinu. Í gluggum er þverpóstar, en gluggar eru nokkuð stórir og breiðir. Ég hef tekið eftir því í húsagrúskinu gegn um árin að eftir því sem húsin eru yngri eru gluggar íbúðarhúsa almennt stærri. Hlutföllin milli hæðar og breiddar eru þó yfirleitt svipuð og það er almennt ekki fyrr en í funkishúsum frá því eftir 1930 sem gluggar verða ferningslaga og seinna fara að sjást stórir stofugluggar, meiri á breidd en hæð. Og talandi um glugga þá eru gluggar neðri hæðar hússins áberandi stærri enda var þar áður verslun. Kristján Sigurðsson verslaði þarna um árabil og  bjó á efri hæð. Árið 1915 reisti hann fjós og hlöðu á lóðinni og er þar um að ræða bárujárnsklæddu skúrbygginguna sem stendur norðan við húsið og sést á myndinni. Nú eru þar geymslur. Kristján hefur átt húsið í rösk 30 ár en eigendaskipti verða að öllu húsinu 1942 og átján árum seinna var neðri hæð innréttuð sem íbúð. Síðustu hálfa öldina hefur húsið þ.a.l. eingöngu verið íbúðarhús og í húsinu tvær íbúðir hvor á sinni hæð. Húsið er tiltölulega nýmálað og virðist í góðu ásigkomulagi. Þess má geta að neðri hæð er til sölu og sýnist mér á myndum að húsið sé einnig í góðu standi að innan. Hér geta áhugasamir skoðað neðri hæð Hafnarstrætis 25: http://eignaver.is/soluskra/eign/288285/ (ath. þessi tengill verður líkast til óvirkur þegar eignin selst og upplýsingar hverfa af síðu fasteignasölunnar) Þessi mynd er tekin í haustblíðunni 10.september 2013.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 420131

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 320
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband