Hús dagsins: Aðalstræti 12. (Jensensbaukur og Hótel Akureyri)

Hvert einasta gamla hús geymir mikla sögu. En sömu sögu má að sjálfsögðu segja um lóðirnar sem húsin standa á, því að öllu jöfnu er saga þeirra sú sama eða jafnvel enn lengri því stundum er ekki um fyrsta hús að ræða. (Og stundum er því jafnvel öfugt farið- þegar hús hafa verið flutt á lóðirnar). En það er einmitt tilfellið með Aðalstræti 12 í Innbænum. Þar stendur nú fjórða húsið en þarna var upprunalega torfbær, en þarna stóðu mikil og merk stórhýsi sem bæði urðu eldi að bráð. Hér mun ég auk þess að minnast á núverandi hús fara stuttlega yfir sögu fyrirrennara þess á lóðinni.

Aðalstræti 12 er tvílyft steinsteypuhús, byggt árið 1957 af Jóni Antonssyni.P5140020 Höfundur teikninga er Mikael Jóhannsson. Húsið er með háu risi og stendur á lágum grunni og snýr í N-S en þó er kvistur eða stafn eða álma sem snýr í austur, þ.e. að götu. Í gluggum eru þrískiptir lóðréttir póstar með tveimur mjóum bilum með opnanlegum fögum við jaðra og bárujárn á þaki. Svalir eru á suðurhlið hússins á annarri hæð. Húsið er líkast lítið breytt frá upphafi að ytra byrði og er í góðu standi. Þrjár íbúðir eru í húsinu, á hvorri hæð og í risi. Þessi mynd er tekin þann 14.maí 2015.

 

En steinhúsið á Aðalstræti 12 er sem áður segir ekki fyrsta húsið sem reis á lóðinni. Þarna stóð torfbær á 19.öld sem Lauritz H. Jensen keypti árið 1859. Ekki fer fleiri sögum af torfbæ þessum en ljóst er að Lauritz hefur rifið hann um 1865. Því árið 1866 reisti hann þarna mikið hús, einlyft timburhús með portbyggðu risi. Rak hann þar veitingahús en veitingaleyfi fékk hann þremur árum áður. Húsið þjónaði þessu hlutverki alla þá tíð sem það stóð. Kallaðist húsið Jensensbaukur og var Bauks nafnið dregið af iðn Jensens, en hann var beykir. Árið 1885 stækkaði Jensen húsið, hugsanlega hefur hann þá byggt kvist á húsið. En á mynd sem finna má m.a. í bók Steindórs Steindórssonar (1993: 26) sést að húsið var einlyft með háu porti og aflíðandi risi og miðjukvisti. Dyr voru á miðri framhlið. Krosspóstar voru á glugga jarðhæðar en einfaldir lóðréttir, skipt í miðju á efri hæð. Efri brún glugga efri hæðar námu við þakbrún og því má ímynda sér að efri hæðin hafi hálf verið undir súð og gluggar nokkuð neðarlega. Meðfylgjandi vatnslitamynd er máluð eftir myndinni í Akureyrarbókinni en hvað lit og umhverfi varðar tek ég mér skáldaleyfi. Ljóst er að húsið var ljósmálað. Húsið Jensens bauk hefur enginn núlifandi maður séð með berum augum. Jensensbaukur_A12Því þann 19.desember 1901 kom upp eldur í húsinu og brann það til kaldra kola- ásamt þó nokkrum öðrum nærliggjandi húsum. Þá var eigandi hússins Vigfús Sigfússon veitingamaður en hann hafði keypt húsið og reksturinn árið 1898 og breytt nafninu í Hótel Akureyri. En Vigfús var aldeilis ekki af baki dottinn og á brunarústum hótelsins reisti hann eitt veglegasta og stærsta timburhús bæjarins.

 

 

 

Næsta hús á lóðinni, sem Vigfús reisti árið 1902 var tvílyft á háum grunni með tveimur turnum og miklum útbyggðum miðjukvisti með svölum. Þá voru einnig tveir litlir kvistir á framhlið, milli miðjukvists og turna. Það hús kallaðist Hótel Akureyri. Þarna var um ræða hús af svipaðri stærð og gerð og hús Menntaskólans á Akureyri og Samkomuhúsið. Svipuð timburstórhýsi stóðu einnig í fáein misseri efst við Strandgötu en þau brunnu öll í Oddeyrarbrunanum 1906. Gluggapóstar hússins virðast hafa verið áþekkir þeim í Samkomuhúsinu. Húsið reistu þeir Sigtryggur Jóhannsson og Jónas Gunnarsson byggingameistarar og var húsið plankabyggt, þ.e. Í stað hefðbundinnar grindar var húsið hlaðið úr þriggja tommu plönkum sem geirnegldir voru á hornum. Vigfús var jafnan nefndur Vigfús vert og á hans tíð var hér um að ræða eitt glæsilegasta og fullkomnasta hótel á landinu. Var þar oft mikið fjör – mikið “djammað og djúsað” eins og það hefði kallast 100 árum síðar. Hótelrekstri lauk í húsinu um 1920 og var því þá breytt í fjölbýlishús. Þann 17.nóvember brann húsið til grunna og segir Steindór að þar hafi lokið “sögu glæsilegasta hótels og húss sem reist hefur verið á Akureyri”. Ég heyrði það í einni sögugöngu um Innbæinn að aðeins hefði munað nokkrum sekúndum að tekist hefði að bjarga húsinu. Menn voru komnir með slökkvidæluna að eldsupptökunum, sem voru glóðir í öskubakka. En skyndilega blés milli þylja og mikil súrefnissprenging sem og milliloftið fuðrað upp og menn orðið frá að hverfa í skyndi. En hér er ítarefni; samtímaheimild þar sem bruna Hótels Akureyri er lýst nokkuð skilmerkilega. Meðfylgjandi er grófrissuð mynd eftir undirritaðan sem sýnir Hótel Akureyri, húsið sem stóð á Aðalstræti 12 árin 1902- 1955. Til hliðsjónar hafði ég ljósmynd Hallgríms Einarssonar sem finna má í Akureyrarbók Steindórs á bls. 27.Hotel_Akureyri_A12

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Aðgengilegt á vefnum á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Innbaer/Innbaer_husakonnun.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 

Ekki man ég eftir hverjum þessi saga af slökkvistarfinu í Hótel Akureyri var höfð né hver sagði hana, hvort það var leiðsögumaður eða þátttakandi í sögugöngunni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P5150358
  • IMG_0082
  • IMG_0081
  • IMG_1520
  • IMG 1494

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 442
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 335
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband