Hús dagsins: Laxagata 5, "Kirkjan"

Götumynd Laxagötu er fjölbreytt og skemmtileg þó aðeins standi sjö hús við götuna. P8140177Sú bygging sem er kannski mest áberandi er Laxagata 5 eða “kirkjan” en hér er um að ræða fullgilda kirkjubyggingu með turni. En kirkju þessa reisti Aðventistasöfnuðurinn með þá O.J. Olsen og O. Frenning í broddi fylkingar árið 1933. Í skjölum byggingarnefndar er talað um kirkju innan gæsalappa og jafnframt tekið fram að söfnuður muni gefa alla vinnu við bygginguna. Upprunalegar teikningar hafa varðveist sjá hér, en þær eru hvorki áritaðar né dagsettar. Húsið er hefðbundið timburgrindarhús á steyptum grunni og með risi og turni á framhlið. þak bárujárnsklætt og steinblikk á veggjum en á turni er hins vegar slétt þakjárn. Gluggar eru stórir og víðir með margskiptum rúðum og eru þrír gluggar á hvorri hlið og einn á turni.

Ekki þekki ég það hversu lengi Aðventistar nýttu þessa kirkju sína en ekki hefur það verið um margra ára skeið. Torfi Maronsson nuddlæknir rak þarna nudd- og ljóslækningastofu á 5. og 6.áratugnum en fluttist úr húsinu með þá starfsemi árið 1960 og stóð húsið autt um einhver misseri . Vorið 1961 sýna Karlakór Akureyrar og Lúðrasveitin húsinu áhuga og var húsið um áratugaskeið aðsetur þeirra, en einnig hafði kvennadeild Slysavarnarfélagsins aðsetur í húsinu. Laxagata 5 hefur því löngum verið vettvangur söngs, samkoma og tónlistarflutnings. Nú gegnir húsið hlutverki aðseturs og æfingaaðstöðu Harmonikkuunnenda við Eyjafjörð en félagið keypti hlut Lúðrasveitarinnar í húsinu árið 2010. Þannig að nú eru dragspil þanin dátt í Laxagötu 5 þar sem áður ómaði lúðrablástur. Laxagata 5 er nánast óbreytt frá upphaflegri gerð að utan sem innan. Ómar Ívarsson telur húsið ekki hafa sérstakt gildi fyrir götumyndina en saga hússins og byggingarlagið gefi því töluvert gildi, auk þess sem húsið er afhelguð kirkja. Þeim sem þetta ritar þykir rík ástæða til þess að kirkjan við Laxagötu verði varðveitt áfram. Húsið virðist vel byggt og í nokkuð góðu standi. Þessi mynd er tekin 14.ágúst 2015 og með á mynd er stórglæsilegur Opel Rekord, A-518. Hann er árgerð 1961 (skv. uppflettingu í Ökutækjaskrá) og væntanlega er mikil saga á bak við hann. Það væri meira en vel þegið, ef einhver myndi lauma fróðleiksmolum um A518 hingað inn á athugasemdir eða Gestabók smile(ekki verður hægt að birta athugasemdir við færslu eftir 5.okt en gestabókin er alltaf opin) 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar.Fundargerðir 1930-35:Fundur nr. 705,17.8.1933. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

Tenglar í texta vísa beint á netheimildir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 58
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 465
  • Frá upphafi: 420165

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 337
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband