Hús dagsins: Brekkugata 13

Síðla árs 1903 var Stefáni Þórarinssyni leyft að byggja hús “12 x16 að stærð” (líkast til átt við álnir) norðan við hús Frímanns Jakobssonar (þ.e. Brekkugötu 11). P7240117Stefán átti að undirgangast skilyrði vegna götulagningar en ekki kemur fram hver þau skilyrði voru. En Stefán reisti húsið Brekkugötu 13 árið 1904, mögulega í félagi við Hallgrím Kristjánsson en þeir eru skráðir íbúar í húsinu ásamt fjölskyldum sínum árið 1910 en íbúafjöldi hússins það ár er alls 24. Húsið hefur þannig verið parhús frá upphafi.

Brekkugata 13 er tvílyft timburhús með lágu risi og stendur það á háum steinsteyptum kjallara. Á framhlið er húsið klætt steinblikki en panelklæðning á parti en norðurstafn er steyptur og múrsléttaður. Á bakhlið er stigabygging og útbygging við norðurstafn, en auk þess er inngönguskúr á norðurhlið. Bárujárn er á þaki og krosspóstar í gluggum.

Árið 1918 er húsið virt og sagt tvílyft timburhús með lágu risi og á háum steinsteyptum kjallara. Þak er járnklætt. Norðurhluti sem er í eigu Hallgríms Kristjánssonar er sagður 6 herbergi auk geymslu, lóð 329 fermetrar að stærð en suðurhlutinn er sjö herbergi og geymsla, lóð 262 fermetrar. Sá hluti er þá eign Jakobs Stefánssonar verkamanns. Hvor hluti fyrir sig er sagður 5x7,5m og hvorri eign tilheyrir “hálfur skúr” 3,5x2m og sameiginlegar tröppur, allar að stærð 3,5x1,3m. Alls er húsið virt á kr. 8100, norðurhluti á 4100kr. Inngangur var fyrir miðju. Árin 1936-37 var byggt við húsið til norðurs, það lengt um tvö “gluggabil” og var sú bygging breiðari en upprunalegt hús. Hönnuður þeirra breytinga var Stefán Reykjalín. Fékk húsið þá að mestu það lag sem það nú hefur, en forstofubygging kom raunar enn síðar. Stigabyggingin hefur að öllum líkindum verið frá upphafi- og líkast til er sú bygging “hálfi skúrinn” sem fram kemur í virðingunni frá 1918.

Um áratugaskeið hefur verið verslun og þjónusta í kjallara- og er enn í dag og fletti maður heimilisfanginu upp á timarit.is koma 368 niðurstöður. Með þeim elstu eru auglýsingar frá 1917 þar sem Hallgrímur Kristjánsson verslaði með málningu, loftrósettur “og fleira er að byggingum lýtur”. Þarna var m.a. rakarastofa og skósmiðir störfuðu þarna um áratugaskeið, Oddur Jónsson frá 1956 og síðar tók Halldór Árnason eða “Dóri skó” við rekstrinum. Hér er skemmtilegt við viðtal við Halldór frá árinu 2000. Nú er húsgagnaverkstæðið Mublur rekið í kjallara hússins. Á hæðum eru íbúðir og er húsið parhús líkt og í upphafi. Þrjár íbúðir eru í húsinu, tvær í norðurhluta og ein í þeim syðri. Húsið er orðið 100 ára gamalt- og ellefu árum betur þegar þetta er ritað- og telst því friðað skv. Þjóðminjalögum. Fyrir um 10-15 árum var það orðið nokkuð hrörlegt en hefur á síðastliðnum árum hlotið þó nokkrar endurbætur, nýlega málað og lítur mjög vel út og virðist í frábæru standi. Lóðin er nokkuð stór og vel gróin, líkt og margar nærliggjandi lóðir. Á suðausturhorni lóðar við götu stendur stórt og gróskumikið tré, sem ég myndi giska á að væri gráreynir eða silfurreynir. Myndirnar með þessari færslu eru teknar þann 24.júlí sl. sumar, að neðan má sjá áðurnefnt tré.

P7240116

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 261 12.nóv. 1903.

Manntal á Akureyri 1910

Fasteignamat á Akureyri 1918, virðingar á fasteignum unnar 1916-17.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 424
  • Frá upphafi: 417793

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 237
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband