Hús dagsins: Bjarmastígur 1

Oddeyrargata er nokkuð löng og brött gata sem skásker Brekkuna ofan Miðbæjar. Hún tengist Þingvallastræti að ofan og mótum Gránufélagsgötu og Hólabrautar að neðan, en Brekkugatan sker götuna örfáum metrum ofan við Gránufélagsgötu. Nokkrar þvergötur liggja út frá Oddeyrargötu að vestan og upp á Brekku. Efst er Lögbergsgata, þá Hamarstígur og neðst er Krabbastígur. (Þarna tel ég Brekkugötu ekki með, en síðast talda gatan er fáeinum húsalengdum ofan við hana). En þó að afleggjarar séu þrír út frá Oddeyrargötunni milli Þingvallastrætis og Brekkugötu er göturnar aðeins tvær, það er Oddagata og Bjarmastígur. Bjarmastígur liggur semsagt í vinkil ofan Brekkugötu og neðan Oddeyrargötu og tengist síðarnefndu götunni í báða enda. Á neðra horni gatnanna er vel gróin lóð og þar stendur reisulegt steinhús frá upphafi 4.áratugarins, en það er Bjarmastígur 1. P1100308

            Um upprunasögu Bjarmastígs 1 er það að segja að skv. Jónsbók eru það Gunnar Jónsson og Eggert Melsteð sem fá byggingarleyfi á horni austan Oddeyrargötu og vestan Bjarmastígs, og má þá bókun finna í fundargerðum bygginganefndar frá 25.september 1930. Fá þeir leyfi til að reisa steinsteypt hús, 7,85x9,40m auk tveggja útbygginga. Á teikningum Halldórs Halldórssonar að húsinu er húsið aftur á móti sagt hús Péturs Ólafssonar en nafn hans yfirstrikað og búið að rita þar nafn Jón C.F. Arnesen konsúls. Vorið 1931 er hann orðinn eigandi hússins og fær leyfi til að breyta húsinu skv. framlagðri teikningu- sem er einmitt teikningin sem varðveist hefur og er aðgengileg gegn um tengilinn hér að framan. Sumarið 1932 fær Jón Arnesen leyfi til að reisa viðbótarbyggingu vestan á húsið, 4x1,8m og teikningarnar að þeirri breytingu hafa einnig varðveist. Bjarmastígur 1 er steinsteypuhús,tvílyft með háu risi og kvisti við suðurgafl vestan megin. Svalir eru framan á kvisti og undir þeim lítil bakbygging sem nær út fyrir horn hússins. Á norðurgafli er einnig stigabygging, lítið eitt mjórri en húsið. Þá er einnig kvistur með hallandi þaki á framhlið. Krosspóstar eru í gluggum en þakið skífuklætt. Á lóðinni stendur einnig steinsteyptur bílskúr, byggður 1957. Á teikningum er húsið að því er virðist einbýli með eldhúsi og stofum á jarðhæð og herbergjum á sk. stofuhæð en ris er óinnréttað, að öllum líkindum hugsað sem geymsluloft. Bjarmastígur 1 er stórbrotið og skemmtilegt hús, traustlegt og í góðu standi. Þakskífan gefur húsinu að mörgu leyti skemmtilegan svip, sem og kvistir (ekki eru þeir þó kynlegir wink ) .

Samkvæmt Húsakönnun sem Akureyrarbær lét framkvæma 2014 (síða 104 í pdf-skjali) fyrir þetta svæði er húsið sagt nánast óbreytt frá upphafi en ekki talið hafa varðveislugildi umfram önnur hús í Bjarmastíg. Lóðin er vel gróin og nánast hægt að tala þar um lítinn skóg. Húsið og trjágarðurinn er til mikillar prýði í umhverfinu en raunar er það svo að nokkra mánuði á ári sést húsið trauðla fyrir laufskrúði. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndirnar með færslunni eru teknar 10.jan. 2016, 8. og 28.október 2015 og 18.ágúst 2015 en þann dag lagði ég upp í myndagöngutúr um Brekkugötu, Bjarmastíg og Gilsbakkaveg. Komst ég þá að þeirri niðurstöðu, að bíða yrði vetrar til að ná húsinu á mynd.

Trjálundurinn á Bjarmastíg 1, hinar ýmsu árstíðir :

P8180235PA080249

PA280257 P1100300

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35;

Fundur nr. 635, 25.sept. 1930.

Fundur nr. 661, 4.maí 1931

Fundur nr. 680, 8.ágúst 1932. Óprentuð heimild, vélritað afrit varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 417794

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 238
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband