Hús dagsins: Oddeyrargata 6

Oddeyrargötu 6 tók ég mjög stuttlega fyrir, í  nokkrum setningum á fyrstu vikum þessarar síðu en í dag ætla ég að birta nokkuð ítarlegri skrif um þetta ágæta steinhús á Neðri- Brekkunni. Það er engin tilviljun að þessi dagur, Hvítasunnudagur verði fyrir valinu. Í dag, 15.maí 2016, eru nefnilega liðin 100 ár frá útgáfu Byggingarnefndar Akureyrar á byggingarleyfi til handa þeim Trausta Reykdal og Sigurþóri Gunnarssyni fyrir Oddeyrargötu 6. 

 P4190053

Árið 1916 fengu þeir Trausti Reykdal fiskmatsmaður og Sigurþór Gunnarsson lóð og byggingarleyfi við “framhald af Gránufélagsgötu” líkt og gatan er kölluð í bókun Byggingarnefndar. Þess má þó geta, að nafnið Oddeyrargata finnst í bókunum frá 1904 eða tólf árum fyrr. Þá er ákveðið var að flytja hana sunnar en fyrirhugað hafði verið áður. Það er að vísu ekki útilokað, að í bókuninni frá 1904 sé um aðra götu að ræða.

Oddeyrargata 6 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn er á þaki. Á norðurgafli er viðbygging með skúrþaki og steyptar tröppur og á norðurhluta er einnig timburpallur með tröppum og inngang á efri hæð. Húsið er parhús og hefur verið svo frá upphafi. Í Manntali árið 1920 eru skráðir þarna Trausti Reykdal og Guðmundur Halldórsson og fjölskyldur þeirra. Ljóst er að Trausti hefur byggt suðurhlutann og búið þar því árið 1921 fær Guðmundur leyfi til að reisa “gangpall vestur með norðausturgafli”. Húsið hefur líkast alla tíð verið íbúðarhús. Ég gat allavega ekki fundið neinar auglýsingar um verslun eða iðnað er ég sló heimilisfanginu inn í gagnagrunn timarit.is. Sennilega hefur fjöldi íbúða verið nokkuð breytilegur gegn um tíðina; á fyrstu áratugum 20.aldar var t.a.m. ekki óalgengt að margar fjölskyldur byggju saman í húsum sem voru kannski um 150 fermetrar alls- kjallari og ris meðtalin ! Nú eru þrjár íbúðir í húsinu, tvær á hvorri hæð í norðurhluta en ein í suðurhluta. Oddeyrargata 6 er einfalt hús og látlaust og virðist traustlegt og gott og vel við haldið. Lóðin er einnig vel hirt og gróin og hleðsla úr gömlum símastaurum eða háspennustaurum á lóðarmörkum við götu þykja undirrituðum skapa skemmtilega umgjörð. Þegar gengið er framhjá Oddeyrargötu 6 á heitum og sólríkum dögum leggur ágætan tjöruilm (undirrituðum þykir sú lykt góð- sjálfsagt margir ósammála því) frá áðurnefndri símastaurahleðslu og blandast hún ljúfum ilmi af reynitrjám og öðrum gróðri nágrennisins. Þessi mynd er orðin átta ára, tekin 19.apríl 2008.

 

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir nr. 269 5.júní 1904, nr. 427, 15.maí 1916 og 497 23.maí 1921.

Manntal á Akureyri 1920. Bæði þessi rit eru varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 12
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 429
  • Frá upphafi: 417798

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 240
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband