Hús dagsins: Bjarmastígur 13

Árið 1928 fékk Guðrún Sigurgeirsdóttir leigða lóð við „Bjarmagötu“ og leyfi til að reisa þar „tvíloptað íbúðarhús með valmaþaki, 8,4x8,8m“. P2280336Heitið Bjarmagata er notað í bókun Bygginganefndar en svo vill til, að elsta heimildin sem leitarvél timarit.is finnur, þar sem heitið Bjarmastígur kemur fyrir er einmitt frétt um veitingu byggingaleyfa fyrir 5 íbúðarhúsum í Verkamanninum. Þar með talið er hús Guðrúnar Sigurgeirsdóttur við Bjarmastíg. En húsið er líkast til elsta húsið við Bjarmastíg, byggt 1929. Hönnuður hússins er ókunnur, upprunalegar teikningar hafa mögulega ekki varðveist en húsið er ekki ósvipað húsum sem Halldór Halldórsson og Tryggvi Jónatansson teiknuðu. Húsið er raunar af nokkuð útbreiddri gerð steinhúsa frá síðari hluta þriðja áratugarins og mörg svipuð hús má t.d. finna við Oddeyrargötu, í næsta nágrenni.

Bjarmastígur 13 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og stendur húsið á kjallara. Á austurhlið er tvílyft álma með flötu þaki og svalir ofan á, gengið út á þær af annarri hæð. Þar eru einnig inngangar sem snúa mót suðri, annars vegar á kjallara og á hæð hins vegar og þangað eru steyptar tröppur að götu. Hvít timburhandrið á tröppum og svölum gefa dálítið skemmtilegan svip. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn á þaki. Húsið stendur hærra en gatan, líkt og flest oddatöluhúsin við Bjarmastíg og er steyptur kantur á lóðarmörkum.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en þar hefur m.a. verið starfrækt saumastofa (hér er auglýsing frá 1933). Upprunalega voru tvær íbúðir í húsinu, væntanlega hvor á sinni hæð en við gagngerar endurbætur á húsinu um 2010 var húsinu breytt í einbýlishús. Húsið lítur vel út og virðist sem nýtt en er þó að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð að yrta byrði. Fyrir fáeinum árum var unnin Húsakönnun á þessu svæði og metur hún sem svo, að húsið hafi ekki varðveislugildi umfram önnur hús við Bjarmastíg. En húsið er til mikillar prýði, vel hirt og snyrtilegt og sömu sögu er að segja um lóðina.

Framan við húsið stendur stórt og mikið döglingsviðartré.P8310028 Dögglingsviður, sem einnig er kallað Douglasviður eða douglasgreni (sem er rangnefni- er ekki grenitegund) er amerískættað barrtré af þallarætt. Það er í hópi þeirra trjátegunda í heiminum sem verða hæst, allt að 100 m, í heimkynnum sínum og er einnig fyrirtaks smíðaviður. Viðargerðin “Oregon Pine” er unnin úr dögglingsviði. Hér er mynd, sem tekin var í trjágöngu Skógræktarfélags Eyfirðinga í lok ágúst 2013 en þar var numið staðar við Bjarmastíg 13 og haldin tala um dögglingsviðartréð. Myndin af húsinu er tekin 28.febrúar 2016.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 619, 17.sept. 1928. Óútgefið, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 13
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 489
  • Frá upphafi: 417710

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 336
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband