Hús dagsins: Bjarmastígur 15

Efri hluti Bjarmastígs liggur á norðurbarmi Skátagils, austur og niður frá Oddeyrargötu. Efst við götuna stendur hið reisulega steinhús Bjarmastígur 15. Það er meðal elstu húsa við götuna, byggt 1930 af Gunnari Jónssyni. PA280252Höfundur hússins er ókunnur en hér eru teikningar af húsinu, uppmælingarteikningar, dagsettar í mars 1938.

Bjarmastígur 15 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Á þaki eru miðjukvistur á framhlið eða austurhlið (suðurstafn hússins snýr að götu) en kvistur með hallandi þaki á bakhlið eða vesturhlið. Á þeirri hlið eru einnig steyptar tröppur upp á aðra hæð og þar eru tveir inngangur, hvor fyrir sína hæð. Á götuhlið eru einnig inngöngudyr fyrir miðju. Krosspóstar eru í gluggum en nýlegt stallað bárujárn á þaki. (Þessa klæðningu hef ég einnig stundum nefnt “skífustál” en mér þykir hún líkja nokkuð eftir steinskífuklæðningu). Efst, upp undir í rjáfri eru tígullaga gluggar, líklega á háalofti. Nyrsti hluti hússins er álma með flötu þaki. Þar er á teikningunum sem vísað er til hér að framan gert ráð fyrir kvisti með aflíðandi risi (stafnkvisti). Þar er gert ráð fyrir stofu til austurs en tveimur herbergjum til vesturs og gangi á milli. Á teikningunni kemur fram að hann verði byggður 1942 þ.e. fjórum árum eftir að teikningarnar eru gerðar. Mögulega hafa teikningar þessar verið gerðar vegna áforma um stækkun hússins, því þar er einnig að finna geymsluálmu sem standa átti áföst húsinu við norðausturhornið. Bygginganefnd gaf grænt ljós á byggingu norðurkvistsins vorið 1942, en ekki varð þó úr framkvæmdunum.

Húsið er byggt sem íbúðarhús og hefur alla tíð þjónað sem slíkt. Nú eru þrjár íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð og í risi. Húsinu er vel við haldið og virðist í góðu standi og er til mikillar prýði í umhverfinu. Það er nokkuð stærra en nærliggjandi hús- en þó ekki svo að það skeri sig úr. Skv. Húsakönnun frá 2014 er varðveislugildi hússins ekki metið verulegt umfram önnur hús við Bjarmastíg en húsið er líkast til annað elsta hús götunnar. Oft er það tilfellið, að litlir hlutir eða smáatriði gefa húsum ákveðinn svip eða skemmtileg sérkenni. Það geta verið t.d. útskornir sperruendar undir þakskeggi, gluggar, handrið, dyraskýli o.s.frv. Í tilfelli Bjarmastígs 15 myndi ég segja að tígullaga smágluggarnir flokkist undir þetta. Myndin er tekin sl. haust, 28.október 2015.

 

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Bygginganefnd Akureyrarbæjar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 908, 30.4.1942,

Óprentaðar heimildir, varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 412
  • Frá upphafi: 420112

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 302
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband