Hús dagsins: Þingvallastræti 4

Árið 1929 fékk Helgi Tryggvason leyfi til byggingar íbúðarhúss, p5080331.jpgá einni hæð á háum kjallara og með risi, að stærð 8,10x9m. Teikningarnar af húsinu gerði Sigtryggur Jónsson og var húsið fullbyggt árið 1930. Í byggingaleyfi er húsið sagt einlyft á kjallara og upprunalegar teikningar virðast gera ráð fyrir því að kjallari sé lægri eða a.m.k. meira niðurgrafinn. Það er a.m.k. Mat þess sem þetta ritar að húsið sé tvílyft, þar eð neðri hæð hússins er algjörlega ofanjarðar. Húsið er af klassískri gerð, með háu risi og miðjukvistum að framan og aftan. Bakkvistur er lægri en sá að framan. Steyptar tröppur eru uppá aðra hæð að austanverðu og á þeim skrautlegt, steypt handrið. Inngangur á neðri hæð er á vesturgafli. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn á þaki.

Þingvallastræti 4 er ekki langt ofan Miðbæjarins, í raun aðeins í fimm mínútna göngufæri þaðan. Þó er það svo, að þegar húsið var byggt var það í hópi útvarða þéttbýlis Akureyrar, í hópi efstu húsa bæjarins. Ofar voru erfðafestulönd, grasbýli og tún, m.a. nýtt af Oddeyringum. Voru kýr þeirra reknar upp og niður Oddeyrargötuna sem hlaut viðurnefnið Kúagata þess vegna.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Það er auglýst sem einbýlishús fyrir hálfri öld, og líkast til varð það byggt sem slíkt. Um og fyrir miðja 20.öld öld bjó Sigmund Jacobssen í húsinu. Hann ritstýrði ásamt séra Nils Ramselius Barnablaðinu sem gefið var út á vegum Filadelfíusafnaðarins. Hófu þeir útgáfu blaðsins árið 1938 og var afgreiðsla blaðsins í húsinu um árabil. (Hér að framan er krækja á fyrsta tölublað Barnablaðsins frá október 1938, og á öftustu síðu kemur fram að afgreiðsla blaðsins sé í Þingvallastræti 4). Þá var einnig starfrækt saumastofa í húsinu um 1947. Öfugt við það sem margir kynnu að halda er kvisturinn á þaki hússins ekki upprunalegur en kvistirnir voru settir á húsið árið 2000 í kjölfar þess að þakið var endurnýjað algjörlega. Hönnuður þeirra breytinga er Þröstur Sigurðsson.

Húsið er stórglæsilegt og virðist sem nýtt, enda er rishæðin raunar tiltölulega nýleg. Samkvæmt Húsakönnun sem gerð var 2015 fer nýr kvistur húsinu vel og get ég sannarlega tekið undir það. Húsið sómir sér vel í þessari glæsilegu götumynd sem þessi elsti og neðsti hluti Þingvallastrætis er og ekki skemmir fyrir að lóð er vel hirt og umhverfi stórglæsilegt líka. Í húsinu eru tvær íbúðir. Myndin er tekin þann 8.maí 2016.

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 429
  • Frá upphafi: 420129

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 318
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband