Hús dagsins: Oddeyrargata 17

 

Oddeyrargatan er að mestu byggð á 3.áratug 20.aldar.P2210309 Þá voru flest hús sem byggð voru steinhús, enda standa aðeins tvö timburhús við götuna. Annars vegar elsta hús götunnar, númer 3 sem byggt var 1908 og hins vegar númer 17, sem byggt er 1920-21. En það var haustið 1920 að Eggert M. Melsteð fékk lóð og leyfi til húsbyggingar á þessum stað. Húsið yrði timburhús á steinkjallara samkvæmt framlögðum uppdrætti. Umræddur uppdráttur hefur ekki varðveist og ekki er vitað hver teiknaði. Hugsanlega hefur Eggert teiknað húsið sjálfur en hann teiknaði húsið Oddagötu 9 sem byggt var fyrir Odd C. Thorarensen apótekara árið 1928.

Mér finnst stundum dálítið gaman að ímynda mér, hvernig umhorfs hefur verið í næsta nágrenni húsa þegar þau voru nýbyggð. Árið 1921, þegar þetta hús var fullbyggt, hefur það staðið hæst húsa við Oddeyrargötuna, ásamt næsta húsi neðan við, en 15 var einnig byggt 1920. Næstu hús neðan við risu ekki fyrr en fáeinum síðar og enn var rúmur áratugur í að nokkuð yrði byggt við Bjarmastíg. Húsin hafa því staðið nokkuð hátt í brekkunni bak við húsin við Brekkugötu, og nokkrar húsalengdir í næstu hús við Oddeyrargötuna þ.e. nr. 3 og 8. Vestan við það, handan götunnar hafa verið móar, klappir og beitilönd alla leið til fjalls. Húsið hefur verið á mörkum þess að standa “upp í sveit” líkt og Melshúsin handan Skátagils (sem raunar fékk ekki það nafn fyrr en löngu síðar), en nú er þessi staður nánast í Miðbænum.

Oddeyrargata 17 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti að framan en á bakhlið er kvistur að suðurgafli, með einhalla aflíðandi þaki. Á suðurgafli er einnig forstofubygging með svölum ofan á. Sexrúðupóstar eru í gluggum en skrautpóstur í suðurglugga á forstofu og er allt húsið bárujárnsklætt. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús. Þarna bjó um áratugaskeið Knud Ottersted rafveitustjóri og kona hans Lena Ottersted. Þau fluttust til Akureyrar árið 1922 frá Svíþjóð en Knud kom hér til starfa við byggingu háspennulínumannvirkja vegna Glerárvirkjunar. Hún var tekin í notkun haustið 1922 og þar með var Rafveita Akureyrar orðin að veruleika. Knud veitti henni forstöðu og gegndi því starfi í fjóra áratugi. Upprunalegar teikningar af húsinu hafa sem áður segir, ekki varðveist. Ekki er víst að kvistur hafi verið á því frá upphafi, en lengi vel var framkvistur með einhalla þaki. Sá kvistur sem nú prýðir húsið er raunar nýlegur eða frá því um 2000. Þá var húsið, sem var forskalað með perluákastsmúrhúð (“skeljasandi”) allt tekið til gagngerra endurbóta og fékk þá það útlit sem það síðan hefur. Skipt var gluggapósta, húsið allt bárujárnsklætt og ýmis bragarbót gerð, sem sjá má nánar á teikningu frá 1996. Húsið er þannig allt sem nýtt og með glæstari húsum og lóðin er vel hirt og gróin- þótt lítið beri á grósku þeirri á meðfylgjandi mynd sem tekin er í febrúar á tiltölulega snjóþungum vetri. Þess má geta að þáverandi eigendur, Kristján Magnússon og Snjólaug Brjánsdóttir, fengu viðurkenningu frá Húsverndarsjóði árið 2004 fyrir endurgerð á húsinu og má með sanni segja, að þau hafi verið vel að þeim heiðri komin. Ein íbúð er í húsinu. Þessi mynd er tekin þann 21.2.2016.

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 411
  • Frá upphafi: 420111

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 301
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband