Hús dagsins: Oddeyrargata 19

 

Haraldur Jónsson snikkari fékk lóð árið 1928 á milli húsa nr. 17 og 21 við Oddeyrargötu. Í mars árið eftir er honum heimilað að reisa hús á lóð sinni, íbúðarhús á einni hæð á kjallara og með kvisti. Hitt er svo annað mál- að þetta er eina heimildin sem ég hef fundið um hús nr.21 við Oddeyrargötu. P2210310Því hlið þessa húss stendur Oddeyrargata 23 og stóð raunar þegar þegar þetta hús var reist. Því hlýtur að vera um að ræða misritun í fundargerðum Bygginganefndar. Það er raunar ekki óalgengt í eldri götum Akureyrar að eitt og eitt númer vanti í röðina. Í sumum tilvikum er um að ræða lóðir sem aldrei voru byggðar en þá er hitt einnig til, að aðeins ein húsbreidd sé á milli. Skýringarnar á þessu er líkast til eins misjafnar og þær eru margar. Ég hvet þá lesendur, sem ganga um götur Akureyrar, til að reyna að finna t.d. Ægisgötu 9, Norðurgötu 14 eða Hafnarstræti 51.

Haraldur reisti árin 1929-30 það hús sem enn stendur á Oddeyrargötu 19, en teikningar gerði H. Jónsson (skv. Húsakönnun 2014, ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi). Þar er mögulega um að ræða Harald sjálfan. Húsið er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með háu risi og miðjukvistum að framan og aftan. Á norðurstafni hússins er forstofubygging með nokkrum steyptum yfirbyggðum tröppum upp að útidyrum. Margskiptir póstar eru í gluggum hússins og eru að öllum líkindum upprunalegir eða a.m.k. í samræmi við upprunalegt útlit, en stallað bárujárn á þaki. Þá klæðningu hef ég löngum kallað skífustál, vegna þess hve áferð þess líkist þakskífu.

Haraldur Jónsson bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni um áratugaskeið og starfrækti þarna húsgagnaverkstæði. Ég er að vísu ekki viss hvort að húsgagnaverkstæðið var starfrækt í húsinu eða hvort skúr eða verkstæðisbygging stóð á lóðinni, en alltént var vinnustofan starfrækt á þessu heimilisfangi. Húsgagnavinnustofa Haraldar var sem sagt starfrækt þarna lengi vel og þar smíðaði Haraldur hinar ýmsustu “mubblur” á borð við barnarúm sem sjá má í auglýsingu í tenglinum hér að framan. Hér má einnig sjá forláta stól frá Haraldi í auglýsingu frá haustinu 1950. Mögulega eru einhverjir lesendur sem annað hvort eiga eða a.m.k. muna eftir húsgögnum frá Haraldi í Oddeyrargötu , en það er ekki annað að sjá en að þetta hafi verið eigulegir gripir. Svo er það nú einu sinni svo, að það sem framleitt var á þessum áratugum var smíðað til að endast og því ekki ólíklegt að mörg þau húsgögnin sem smíðuð voru þarna séu enn í fullu fjöri. Oddeyrargata 19 er stórglæsilegt og vel hirt hús, og mun að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Þó voru gerðar nokkrar breytingar á þaki hússins árið 1982, m.a. þak hækkað á austurkvisti.  Ein íbúð er í húsinu. Margskiptir gluggapóstar gefa húsinu sinn sérstaka svip, en það er kallað að augnstinga hús þegar póstum er skipt út fyrir einfaldari og gluggaumbúnaður fjarlægður en Oddeyrargata 19 hefur svo sannarlega ekki orðið fyrir slíkum aðgerðum. Myndin er tekin þann 21.febrúar 2016.

 

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri, teknar saman 1945-55.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 227
  • Sl. sólarhring: 227
  • Sl. viku: 758
  • Frá upphafi: 419700

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 614
  • Gestir í dag: 173
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband