Hús dagsins: Oddeyrargata 30

Við ofanverða Oddeyrargötu standa mörg reisuleg steinhús í klassískum stíl 3. og 4.áratugar 20.aldar, einlyft á kjallara með háu risi og miðjukvisti. P4240326Eitt þeirra er hús nr. 30 en það reistu þeir Veturliði og Marteinn Sigurðarsynir frá Veturliðastöðum í Fnjóskadal árin 1929-30. Þann 25.3.1929 fékk Veturliði leyfi Bygginganefndar Akureyrarbæjar fyrir byggingu íbúðarhúss úr steini, eina hæð á kjallara með kvist í gegn. Stærð hússins skyldi vera 8,8x8m. Fjórum árum síðar fær hann að byggja forstofu ofan á tröppur hússins á norðurgafli. Veturliði gerði sjálfur teikningarnar af húsinu.

Oddeyrargata 30 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu portbyggðu risi og miðjukvisti. Á norðurgafli þess er forstofubygging og steyptar tröppur upp að henni en einnig er inngangur í kjallara fyrir miðju. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki hússins. Kjallari er með grófum múr og húsið prýðir ýmist skraut. Á hornum eru steyptar flatsúlur, “steinhleðslu” á kjallara undir þeim og undir þakskeggjum og ofan glugga eru steypt kögur (tannstafur). Handrið á uppgöngu er gegnheilt steypt, stallað líkt og tröppur. Á kvisti er einnig kringlóttur gluggi - en slíkir smágluggar þykir þeim sem þetta ritar ævinlega gefa húsum ákveðinn svip.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, Veturliði Sigurðarson bjó þarna allt til dauðadags, en hann lést 1974. Fyrstu áratugina bjuggu systkini hans, Jónasína, Marteinn og Jóhanna þarna og móðir þeirra Sigríður Sigurðardóttir- en hún varð ekkja löngu áður en stórfjölskyldan frá Veturliðastöðum fluttist í Oddeyrargötu 30. Þarna bjó einnig um tíma Jón Norðfjörð skrifstofumaður og leikari. Hér má sjá tilkynningu frá honum frá hausti 1939 þar sem hann auglýsir kennslu í framsögn og upplestri og “byrjun í leiklist” á heimili sínu. Jón var ein af helstu driffjöðrum akureyrskrar leiklistar á fyrri hluta 20.aldar og var einnig skátaforingi. Hann fór fyrir hinni valinkunnu skátasveit Fálkum sem m.a. tóku að sér ræktun í Skátagilinu - sem er að heita má “ í túnfæti” þessarar lóðar. Oddeyrargata 30 er reisulegt og skrautlegt hús af klassískri gerð, og er í góðri hirðu og ástandi. Sama er að segja um lóðina, sem er stór og vel gróin og mörg stæðileg birkitré á henni. Húsið stendur innarlega á lóðinni og er falið á bakvið laufskrúð yfir hásumarið; húsið er eitt þeirra sem ógerningur er fyrir ljósmyndara á götubrún að mynda frá  yfir hásumarið. Í húsakönnun 2015 er húsið sagt hafa varðveislugildi sem hluti af merkri heild. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 24.apríl 2016.

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 58
  • Sl. sólarhring: 79
  • Sl. viku: 534
  • Frá upphafi: 417755

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 340
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband