Hús dagsins: Oddeyrargata 12

Oddeyrargötu 12 reisti Aðalsteinn Bjarnason, trésmiður frá Hlíðarhaga, árið 1928. P5030003Hann fékk leyfi til að reisa steinhús á einni hæð með háum kjallara, 8,8x7,6m að stærð. Teikningarnar af húsinu gerði Halldór Halldórsson. Haustið 1929 fékk Aðalsteinn leyfi til að reisa skúr á lóðinni, 6,4x4,3m. Þann 6.sept 1930 gerir bygginganefnd hins vegar athugasemd við skúrbyggingu Aðalsteins, hún fari í bága við byggingareglugerðir vegna hæðar og skuli hún rifin hvenær sem bærinn krefst þess, bænum að kostnaðarlausu. Skemmst er þó frá að segja, að enn stendur skúr á baklóðinni, 86 árum síðar. Hann er steinsteyptur (eða forskalaður), einlyftur með flötu þaki og raunar tvær álmur- sú nyrðri eilítið hærri. (Það var víst hæðin sem byggingarnefnd var ekki ánægð með á sínum tíma). Oddeyrargata 12 er steinsteypuhús í einföldum nýklassískum stíl, tvílyft eða einlyft á háum kjallara- jarðhæð- með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og krosspóstar í gluggum og inngöngudyr á miðri framhlið með gluggum beggja vegna. Fljótt á litið virðast hús nr. 12 og 14 vera einskonar systurhús, enda svipuð í megindráttum en í raun eru húsin nokkuð frábrugðin t.d. hvað gluggasetningu og innganga varðar. Þá eru þak nr. 12 mun lægra en nr. 14. Þó má geta þess, að Halldór Halldórsson teiknaði bæði húsin.

Á upprunalegum teikningum, sem sjá má í tengli hér að ofan, má sjá að húsið hefur frá upphafi verið skipulagt sem tvíbýli- alltént eru eldhús á báðum hæðum. Aðalsteinn, kona hans Halldóra Davíðsdóttir og börn þeirra bjuggu þarna um langt árabil. Sem áður segir var Aðalsteinn trésmiður og smíðaði hann og seldi m.a. skíði og ýmis konar smíðisgripi s.s. eikarílát. Ekki þykir mér óvarlagt að áætla að hann hafi starfrækt verkstæði sitt í bakhúsinu á lóðinni. Þarna bjó árið 1932 Jón Norðfjörð, skrifstofumaður, leikari og skátaforingi. Hann fór fyrir skátasveitinni Fálkum, sem var ansi stórhuga á þessum árum. Stóðu þeir fyrir ræktun Skátagilsins (sem þá var nafnlaust) og byggingu útileguskálans Fálkafells á Súlumýrum. Sá skáli stendur enn og er í fullri notkun - mikið breyttur og bættur frá upphafi. Sveitin gaf einnig út blaðið Akurliljuna sem var þeirra málgagn og auk þess auglýsingarit fyrir Akureyrskar verslanir og þjónustuaðila. Jón var ábyrgðarmaður blaðsins, sem virðist aðeins hafa komið út einu sinni- en mögulega hefur ætlunin verið að útgáfa blaðsins yrði árviss. Það er fróðlegt að skoða þetta 84 ára málgagn Fálka og þarna má sjá líkast til eina elstu mynd sem til er af Fálkafelli, sem sveitin reisti þá um sumarið. (Og hver veit, nema einhverjir úr hópi Fálka eða annarra Akureyrskra skáta hafi rennt sér upp í Fálkafell á skíðum frá Aðalsteini Bjarnasyni í Oddeyrargötu 12. "Ungur sveinn og ítur snót/ ei skal hræðast vetur hót / bindið skíði á fiman fót/ og fikrið ykkur upp í mót/ því uppi í Fálkafelli, því uppi í Fálkafelli, er allra meina bót. Þetta, eins og svo marga góða skátasöngva kvað Tryggvi Þorsteinsson ).  )

Margir hafa búið í húsinu í lengri eða skemmri tíma þessa tæpu níu áratugi sem það hefur staðið. Það er í góðri hirðu og lítur vel út, á því er t.d. nýlegt þakjárn. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og hefur líkast til verið svo frá upphafi. Myndin af húsinu er tekin 3.maí 2015.

Á lóðinni stendur Alaskaösp sem mun ein sú hæsta á Akureyri. Síðast þegar ég vissi, mældist hún 24,5m há en það skal haft í huga, að það var í trjágöngu Skógræktarfélagsins í lok ágúst 2013, fyrir rúmum þremur árum. Þannig að mögulega hefur hún náð 25-26 metrum í dag. Öspin á Oddeyrargötu 12 virðist þó í harðri samkeppni við aðra slíka handan götunnar, en sú stendur á Bjarmastíg 1. Sú síðarnefnda stendur raunar eilítið lægra. P8200459Á þessari mynd, sem tekin er  má sjá þessar tvær aspir, Oddeyrargötuöspin vinstra megin. Fremst má sjá ljósastaur og þak Oddeyrargötu 16. 

 

 

 

 

 

 

Hér má öspina við Oddeyrargötu 12 í öllu sínu veldi að vetri og sumri. Myndirnar teknar 10.jan 2016 og 31.ágúst 2013

P1100307 P8310017

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 631
  • Frá upphafi: 420104

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 477
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband