Hús dagsins: Oddeyrargata 10

Árið 1927 fengu þeir Áskell Sigurðsson og Sigurbjörn Friðriksson leyfi til að reisa íbúðarhús við Oddeyrargötu, steinhús á einni hæð á háum kjallara og valmaþaki, 11x8m að stærð.P1100305 Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Oddeyrargata 10 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki. (Á teikningum og í bókunum bygginganefndar er neðri hæð raunar kölluð kjallari) Á þaki er bárujárn en krosspóstar eru í gluggum. Framhlið hússins er samhverf um miðju; þar eru tvær inngöngudyr og gluggi nær horni en á efri hæð “hálfur gluggi” næst miðju hvoru megin og tveir gluggar við hlið þeirra.

Húsið hefur frá upphafi verið parhús og íbúðaskipan alla tíð sú sama. Bjó Sigurbjörn, sem síðar byggði hús við Norðurgötu á Oddeyri, í nyrðri hluta en í syðri hluta bjuggu þau Áskell Sigurðsson og kona hans Sigríður Aðalheiður Jónsdóttir. Þess má geta, að þau voru langafi og langamma þess sem þetta ritar. Sigríður hafði mikinn áhuga á garðrækt og hafði lítið gróðurhús á lóðinni þar sem hún ræktaði ýmsar skrautjurtir og matjurtir. Þá gróðursetti hún nokkur tré á lóðinni, þ.á.m. gullregn sem stóð og stendur enn sunnan við húsið. Í þessari grein frá 1981 minnist Ingólfur Davíðsson grasafræðingur á gullregnið við Oddeyrargötu 10. Síðar bjó hér um áratugaskeið Júdit nokkur Jónbjörnsdóttir. Með henni bjó faðir hennar, Jónbjörn Gíslason. Hann var um tíma búsettur í Vesturheimi en fluttist aftur til Íslands 1956 og bjó í þessu húsi ásamt dóttur sinni til dánardægurs. Hann var mikill áhugamaður um rímnakveðskap og átti hljóðrita og safnaði með honum ýmsum kvæðum til varðveislu. Hann hljóðritaði á hólka, líkt og tíðkaðist á þeim tíma (1920-30) en yfirfærsla þeirra upptaka á segulband fór fram í Oddeyarargötu 10 á kyndilmessu 1968. (Frásögn Júditar í Húnavöku 1982) Nú eru þessi hljóðrit, sem yfirfærð voru á segulband í þessu húsi aðgengileg á ismus.is. Hér má m.a. heyra Jónbjörn kveða Andrarímur ásamt Sigríði Hjálmarsdóttur en hljóðritunin er talin gerð á bilinu 1920-23 – þ.e. rétt innan við aldargömul!

Oddeyrargata 10 er reisulegt hús í einföldum klassískum stíl. Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi en í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig vel gróin og vel frágengin m.a. með bjálkahleðslu á lóðarmörkum og klifurjurtir setja einnig skemmtilegan svip á húsið. Að ógleymdu gullregninu sem mikil prýði er af. Húsið stendur á horni Krabbastígs og Oddeyrargötu og er neðst í röð svipaðra húsa, 10-22 og hefur skv. Húsakönnun 2015 varðveislugildi sem hluti þessarar glæsilegu húsaraðar. Húsið er eilítið stærra að grunnfleti en flest þessara húsa og jafnframt það eina sem skiptist eftir miðju í eignarhluta. Myndin er tekin í upphafi ársins sem senn er á enda, 10. janúar 2016. Hér að neðan má sjá gullregnið í haustskrúða, myndin tekin þann 4.okt. sl.

 PA040460

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þennan pistil. Í þessu húsi fæddist ég. Á tal um garðræktaráhuga ömmu má þess líka geta að hún var ein af  þeim sem tóku þátt sköpun Lystigarðsins á sínum tíma.

Kær kveðja,

Magga

Margrét Harðardóttir (IP-tala skráð) 3.1.2017 kl. 08:36

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Mín var ánægjan, takk fyrir innlit og athugasemd- og skemmtilega fróðleiksmola. Ég vissi ekki að langamma hefði komið að stofnun Lystigarðsins, en það kemur mér sannarlega ekki á óvart. Vissi að hún var stofnfélagi í kvenfélaginu Baldursbrá sem m.a. gróðursettu í Glerárþorpi, þar sem síðan kallast Kvenfélagsgarðurinn. Mér skilst að sá garður megi raunar muna sinn fífil fegri frá því sem áður var. En þó hefur þar verið komið fyrir upplýsingaskilti um upphaf garðsins og kvenfélagsins. 

Bestu kveðjur,

Arnór.  

Arnór Bliki Hallmundsson, 7.1.2017 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 11
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 428
  • Frá upphafi: 417797

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 239
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband