Hús dagsins: Krabbastígur 4

Við Krabbastíg standa einungis þrjú hús, tvö norðan götu og eitt sunnan megin. Efra húsið norðan megin, þ.e. Krabbastígur 4 stendur á horni götunnar og Munkaþverárstrætis, en þar er um að ræða járnklætt timburhús. P1140491Sumarið 1934 sótti Jóhannes Jónasson um byggingarleyfi fyrir hönd Snjólaugar Jónasdóttur um að fá lóð við Krabbastíg, norðan við Gest Bjarnason. Þannig var staðsetningu húsa og lóða og ævinlega lýst í bókunum Bygginganefndar, þ.e. afstaða miðað við lóðir eða hús tilgreindra manna- húsnúmer sjást afar sjaldan. Vildi hún fá að reisa íbúðarhús úr timbri, járnklætt, 7,6x7,6m að stærð. Byggingaleyfið var veitt en þó með þeim skilyrðum að neðri hæð væri steinsteypt og senda skyldi nýja teikningu og lýsingu þar sem fram kæmi hæðarafstaða við götu. Þá teikningu samþykkti bygginganefnd á næsta fundi sínum. Páll Friðfinnsson teiknaði húsið, en upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Fullbyggt mun húsið hafa verið árið 1936.

Krabbastígur 4 er tvílyft hús á lágum grunni og með lágu risi. Neðri hæð er steinsteypt og múrhúðuð (tæpast hægt að tala um neðri hæð sem kjallara jafnvel þótt hún liggi nokkuð neðar en götubrún) en efri hæð úr timbri og járnklædd. Bárujárn er á þaki. Á norðurgafli er forstofubygging, viðbygging frá um 1967 eftir teikningum Páls Friðfinnssonar, sem teiknaði húsið í upphafi sem áður segir. Sú bygging er múrhúðuð, með einhalla þaki, aflíðandi til norðausturs og inngöngudyr að götu og bakatil á neðri hæð. Efri hæð viðbyggingar er stærri að grunnfleti en neðri hæð og stendur hún á stólpum á nyrsta parti. Gluggapóstar eru þverpóstar með margskiptum efri fögum og á neðri hæð eru neðri fög einnig skiptir í miðju lárétt.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líklega einbýlishús í upphafi en árið 1944 er það til sölu í heilu lagi, sjá hér og þar er Sigurlaug Jónasdóttir, sú er byggði húsið sem hyggst selja það. Fimmtán árum síðar er húsið hins vegar orðið a.m.k. tveir eignarhlutar, sbr. Þessa tilkynningu frá 1959 þar sem Jóhann Hauksson selur Sigurði Karlssyni sinn hluta hússins. Átta árum síðar er byggt við húsið til norðurs og fékk það þá núverandi útlit. Þá eru skv. teikningum tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Krabbastígur 4 er einfalt og látlaust timburhús- eitt fárra slíkra í þessu hverfi sem byggt er á sannkallaðri “steinsteypuöld”. Það er raunar eina húsið með þessu lagi á þessu svæði en sambærileg hús má finna t.d. Á Fjólugötu en einnig er húsið ekki ósvipað húsunum við Goðabyggð 7 (Silfrastaðir) og Hrafnagilsstræti 27 (Þrúðvangur) sem standa ofar og sunnar á Brekkunni. Þau eru jafnaldrar Krabbastígs 4 og byggð sem grasbýli en þéttbýli tók ekki að myndast á þeim slóðum fyrr en aldarfjórðungi síðar. Líklega er húsið nánast óbreytt frá upphafi að ytra byrði- ef undan er skilin er viðbygging. Húsið og umhverfi þess er til mikillar prýði, við inngönguskúr og lóðarmörk er sólpallur úr timbri og tvö smá þintré sitt hvoru megin við hlið, sem ramma aðkomuna að húsinu skemmtilega inn, a.m.k. að mati þess sem þetta ritar. Myndin er tekin þann 14.janúar 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur 723, 22.júní 1934. Fundur nr. 724, 20.júlí 1934.Óprentað og óútgefið varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 421
  • Frá upphafi: 417790

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 234
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband