Hús dagsins: Hríseyjargata 2

Sl. vikur hef ég tekið fyrir elstu og neðstu hús Hamarstígs en færi mig nú niður á Oddeyri í umfjölluninni, nánar tiltekið að hinu 94 ára gamla steinhúsi við Hríseyjargötu 2.

Hríseyjargata er ein margra þvergatna sem liggja til norðurs út frá Strandgötu. P9170457Hún liggur á milli húsanna Strandgötu 39 og 41. Á bakvið síðarnefnda húsið stendur einmitt Hríseyjargata en húsið var upprunalega reist á baklóð þess. En Hríseyjargötu 2 reisti Kristján Jónsson bakari í Strandgötu 41 árið 1923. Húsið var tvílyft steinsteypuhús með lágu risi. Húsið var í upphafi hænsnahús, fjós og geymsla enda þótt byggingarleyfið væri fyrir íbúðarhúsi. Húsið var innréttað sem íbúðarhús árið 1937 og gerði Tryggvi Jónatansson teikningar að þeirri breytingu. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið í upphafi.

Hríseyjargata 2 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, með perluákasti á veggjum og bárujárni á þaki og krosspóstum í gluggum. Stafn hússins snýr að götu og snýr sá til vesturs en inngangar eru á suðurhlið hússins. Steyptar tröppur eru upp að inngangi á efri hæð, og áfastur þeim er mikill timburpallur. Norðanmegin er bílskúr og geymsluskúr sambyggður húsinu. Á teikningum frá 1937 eru geymslur á neðri hæð (sem er raunar að nokkru niðurgrafin) og íbúð á þeirri efri. Síðar var innréttuð íbúð á neðri hæð og hélst sú íbúðaskipan fram á 10.áratuginn. Skömmu fyrir 1990 var húsið tekið í gegn að utan, það múrhúðað og málað, eins og segir í Húsakönnun um Oddeyri 1990 (sbr.Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995). Húsið var einnig allt endurnýjað að innan um 1998-2000 og um svipað leyti var sólpallurinn byggður við uppgöngu á efri hæð. Húsið er því í góðu standi, að mörgu leyti sem nýtt. Lóðin er ekki stór en engu að síður vel nýtt og skipulögð. Í áðurnefndri Húsakönnun er húsið ekki talið hafa varðveislugildi en “geta orðið til prýði í framtíðarbyggð á Oddeyri” (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 95) Sá sem þetta ritar getur ekki annað en tekið undir það. Myndin er tekin 17.september 2016.

 

 

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 174
  • Sl. sólarhring: 204
  • Sl. viku: 783
  • Frá upphafi: 419874

Annað

  • Innlit í dag: 132
  • Innlit sl. viku: 620
  • Gestir í dag: 129
  • IP-tölur í dag: 126

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband