Hús dagsins: Munkaþverárstræti 5

Vorið 1930 hugðist Friðjón Tryggvason,búsettur á Glerárbakka, fá lóð undir íbúðarhús við Munkaþverárstræti, þá þriðju að austan, sunnan frá.P5250524 Erindi Friðjóns tók Bygginganefnd fyrir þann 22.apríl og komst að lagði til að “[...]mönnum sem ekki eru búsettir í bænum sje ekki leigðar lóðir fyrr en sýnt sje að þeir flytji í bæinn og geti reist sómasamleg hús þegar í stað.” (Bygg.nefnd. Ak. nr.646, 22.4.1930).

Enda þótt Glerárbakki stæði rétt norðan Glerár( h.u.b. á móts við verslunarmiðstöðina Glerártorgs í dag) líklega innan við einn kílómetra frá Munkaþverárstræti, stóð bærinn í Glerárþorpi. Og á þeim tíma tilheyrði Glerárþorp Glæsibæjarhreppi; sveitarfélagamörkin lágu um Glerá. En þannig var staðan, utanbæjarmenn fengu ekki byggingarlóðir nema að sýnt þætti að þeir væru í stakk búnir til að byggja (og hananú!). Gilti þá auðvitað einu um hvort þeir byggju 20 metra eða 50 km frá bæjarmörkunum. En mánuði síðar, 21.maí, hefur Bygginganefnd komist að þeirri niðurstöðu að téður umsækjandi geti byggt. Þá er Friðjóni leigð lóðin og byggingarleyfi fékk hann þremur vikum síðar. Fékk hann að reisa íbúðarhús steinsteypt r-steinhús, á einni hæð á kjallara og með porti og risi og miðjukvisti, 8,2x8m að grunnfleti. Teikningar að húsinu gerði Halldór Halldórsson, en hann á ófáar teikningar að Akureyrskum íbúðarhúsum frá þessum tíma.

Sú lýsing sem gefin er upp í byggingarnefndarbókuninni á enn við, húsið er einlyft steinhús með portbyggðu risi og á lágum kjallara og með miðjukvisti. Í gluggum eru krosspóstar á hæð en einfaldir póstar á rishæð og í kjallara og bárujárn er á þaki. Á bakhlið er nokkuð breiður kvistur með einhalla þaki. Þar er um að ræða síðari tíma viðbót- en ekki fylgir sögunni hvenær hann var byggður.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Hér er það auglýst til sölu árið 1947 í Íslendingi og þar er eigandinn Viggó Ólafsson. Þá eru í húsinu tvær íbúðir og líklega hefur svo verið frá upphafi. Þær gætu vel hafa verið fleiri á einhverjum tímapunkti. Aftur er það auglýst til sölu í ársbyrjun 1964 og þá er þar sögð átta herbergi og í húsinu geti verið tvær litlar íbúðir, algerlega aðskildar. Sá sem auglýsir þar er Tryggvi Þorsteinsson, skólastjóri og skátaforingi með meiru. Hann bjó ásamt fjölskyldu í þessu húsi um árabil og þarna bjuggu einnig foreldrar hans Þorsteinn Þorsteinsson gjaldkeri og frumkvöðull í fjallaferðum og Ásdís Þorsteinsdóttir. Þeir feðgar Tryggvi og Þorsteinn hafa líkast til lagt af stað héðan í þann frækilega björgunarleiðangur sem þeir leiddu í september 1950 á Vatnajökul eftir Geysisslysið. Munkaþverárstræti 5 er reisulegt hús og í góðu standi. Það skemmdist nokkuð í bruna fyrir um fjórum áratugum og var líkast til endurbyggt að stórum hluta eftir það. Húsið er hluti skemmtilegrar raðar steinsteypuklassískra húsa syðst við Munkaþverárstrætið og Húsakönnun 2015 metur það til varðveislugildis sem hluti þeirrar heildar. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin að kvöldi sl. Uppstigningadags, 25.maí 2017.

 

Heimildir

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 646, 22.apríl 1930. Fundur nr. 648, 21.maí 1930. Fundur nr. 649, 14.júní 1930.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Tvö ofantalin rit eru óprentuð og óútgefin og varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 627
  • Frá upphafi: 420100

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 474
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband