Hús dagsins: Munkaþverárstræti 9

Munkaþverárstræti 9 reisti Gunnar Austfjörð árið 1932, eftir teikningum bróður síns, Ásgeirs Austfjörð. P5250536Gunnar fékk leigða lóð við Munkaþverárstræti vestanvert og var leyft að reisa þar hús, eina hæð á kjallara og með háu risi. Grunnflötur hússins var 8x7,55m. Bygginganefnd fól byggingafulltrúa að útvega fullkomna teikningu af húsinu, áður en mælt skyldi fyrir því en framlögð byggingarlýsing var sögð “ærið ófullkomin”. (Bygg.nefnd.Ak, 674; 21.3.1932). Hvort að þær teikningar sem aðgengilegar eru á Landupplýsingakerfinu séu þær fullkomnu, sem bygginganefnd kallaði eftir, eða þær sem lagðar voru fram til nefndarinnar er óvíst. En eitt er víst, að þær sýna glögglega útlit og herbergjaskipan hússins á skýran hátt. Ári eftir byggingu hússins fékk Gunnar leyfi til að lengja forstofubyggingu til vesturs, og síðar var byggt við húsið að vestanverðu og settur á það kvistur. Ekki er hins vegar vitað hvenær það var; þær framkvæmdir teljast “án árs” í Húsakönnun 2015.

En Munkaþverárstræti 9 er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á miðlungsháum kjallara. Á norðurstafni er forstofubygging með svölum ofan á og steyptar tröppur upp að inngangi. Ólíkt flestum húsunum í þessari röð er ekki kvistur á framhlið en á bakhlið er hins vegar kvistur með einhalla, aflíðandi þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum en á forstofu er gluggi með tígli og margbrotnum póstum. Bárujárn er á þaki.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús Gunnar Austfjörð pípulagningameistari, sá er húsið byggði, bjó hér alla sína tíð en hann lést 1981. Húsið er einbýli og hefur líkast til verið alla tíð. Líkt og flest húsin í þessari röð er það í góðu standi og lítur vel út- og sömu sögu er að segja af lóðinni. Gróskumikið og stórt reynitré stendur sunnarlega á lóðinni og er það til mikillar prýði- líkt og húsið. Í Húsakönnun 2015 fær húsið eftirfarandi umsögn: “Húsið stendur reisulegt í röð klassískra húsa sem mynda samstæða heild. Það sómir sér vel í götumyndinni.” (AK.bær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 161). Sá sem þetta ritar getur ekki annað en tekið undir það. Myndin er tekin að kvöldi sl. Uppstigningadags, 25.maí 2017.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr.674, 21.mars 1932. Fundur nr. 698, 1.maí 1933.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). 

Tvær ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar; varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 77
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 553
  • Frá upphafi: 417774

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 351
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband