Hús dagsins: Fjólugata 11

Er ekki upplagt, að fyrsta "Hús dagsins" á nýju ári sé númer 11 og birtist á 11.degi þess...Hér tek ég upp þráðinn í Fjólugötu á Oddeyri en vestast við þá götu eru þrjú sams konar hús sem öll eru áttræð í ár. 

Árið 1937 fékk Byggingafélag Akureyrar m.a. útvísað þremur vestustu lóðunum við Fjólugötu. Var það Halldór Halldórsson byggingafulltrúi sem fór þess á leit, fyrir hönd áðurnefnds Byggingafélags, að fá þessar lóðir.P1070724 Félagið hugðist reisa þar hús, sem yrðu tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með risþaki, og með svölum yfir neðri hæð að hluta. Þarna var um að ræða hús nr. 11, 13 og 15 við Fjólugötu sem öll munu reist eftir sömu teikningu 1937-38.  Skömmu eftir að Byggingafélagið fékk þessar lóðir voru lóðirnar leigðar, einstaklingum. Lóð númer 11 fengu þeir Bjarni Erlendsson og Gísli Ólafsson og reistu þeir húsið eftir áðurnefndri forskrift byggingafélagsins. Bjó Gísli á neðri hæð en Gísli á þeirri efri. Gísli fékk árið 1943 leyfi til að byggja yfir svalirnar að hluta. Byggði hann yfir norðvesturhlutann en árið 2003 var byggt yfir svalarýmið til suðvesturs, eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar. Fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Fjólugata 11 er sem áður segir tvílyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með lágu risi. Um tíma bjuggu í húsinu þau Jenna Jensdóttir og Hreiðar Stefánsson sem starfræktu Smábarnaskólann og voru einnig mikilvirkir rithöfundar, líklega hvað þekktust fyrir Öddubækurnar. Skólin var rekinn í Verslunarmannahúsinu, sem stóð við Gránufélagsgötu 9 en það er horfið- eins og raunar hvert einasta hús sem stóð norðan Gránufélagsgötu, vestan Glerárgötu.

Fjólugata 11 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og á lágum kjallara. Einfaldir póstar með lóðréttum póstum eru í gluggum og bárujárn á þaki og tvær inngöngudyr eru á framhlið og svalir út af efri hæð til suðurs, frá svipuðum tíma og byggt var yfir gömlu svalirnar. Húsið er í góðu standi og lítur vel út, en ekki eru mörg ár frá gagngerum endurbótum á efri hæð. Það er eitt þriggja húsa sem Byggingafélagið lét reisa 1938 eftir sömu teikningu en eins og gengur og gerist hafa þau tekið ýmsum breytingum, mis miklum, og eru hvert með sínu lagi þó líkindi séu augljós. Húsið er ekki ósvipað í laginu og næstu hús neðan við, þ.e. 1-9 en nokkuð hærra og stærra að grunnfleti. Myndin er tekin þann 7.janúar 2018.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1935-41. Fundur nr. 804, 4.sept. 1937. Fundur nr. 808, 8.nóv 1938.

Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 945, 11.júní 1943

Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 427
  • Frá upphafi: 420127

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 316
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband