Hús dagsins: Munkaþverárstræti 34

Munkaþverárstræti 34 reisti Þórður V. Sveinsson árið 1943. P2180734Hann fékk haustið 1942 leyfi til byggingar húss, sem skyldi steinsteypt með steinlofti og járnklæddu timburþaki, tvær hæðir með kjallara undir 2/5 hluta hússins. Að grunnfleti skyldi húsið vera 13,6x12,25 m.ö.o. ívið stærra en flest húsin í nágrenninu, bæði að lengd og breidd. (Til samanburðar má nefna, að næsta hús sunnan við þ.e. nr. 32 mun vera 11,2x9,2m)  Þá var húsið frábrugðið næstu húsum að á því var risþak, þó húsið sé með einkennum funkisstefnunnar. Teikningarnar að húsinu gerði Gunnlaugur Halldórsson.

Munkaþverárstræti 34 er steinsteypuhús, tvílyft á lágum kjallara en líkt og gengur og gerist við Munkaþverárstrætið er nokkur hæðarmismunur á lóð, þ.a. neðri hæð hússins er að nokkru niðurgrafin að vestanverðu. Á húsinu er lágt ris, bárujárnsklætt en veggir eru múrsléttaðir. Einfaldir, lóðréttir póstar eru í flestum gluggum með opnanlegu þverfagi í neðra horni. Svalir til austurs eru á efri hæð. Á suðausturhorni eru horngluggar, í anda funkisstílsins en á suðurhlið eru einnig stórir gluggar innrammaðar í eins konar útskoti. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, þarna bjó áðurnefndur Þórður V. Sveinsson ásamt fjölskyldu sinni til dánardægurs, en hann lést langt fyrir aldur fram árið 1964.

Þórður var m.a. húsgagnasali og hafði á 6. áratugnum umboð fyrir hin valinkunnu Hansa húsgögn. Hansa hillur, Hansa hurðin, Hansa gluggatjöld o.fl. kannast sjálfsagt margir við frá fyrri tíð. Og ekki bara fyrri tíð, því þessi húsgögn endast og endast og eru enn í fullu gildi á mörgum heimilum. Mér skilst, að Hansa húsgögn komi stundum inn á nytjamarkaði en staldri aldrei lengi við, því eftirspurnin mun mikil, um 60 árum eftir að Þórður V. og fleiri umboðsaðilar höfðu þau á boðstólnum.  Og nú hefur Bjartmar Guðlaugsson gert Hansa hillurnar ódauðlegar í texta lagsins „Þegar vindurinn sefur“  þar sem segir „ [...] þar ilmar tekkolíurómantíkin / skenkurinn og hansahillufárið [...] „ Þess má geta, að í textanum eru fleiri gersemar nefndar; eftirprentuð Fjallamjólk, Drengurinn með tárið og tveggja borða bíórgel. Lagið má finna á nýjustu plötu Bjartmars, „Blá nótt“ sem út kom sl. vetur.

En svo við víkjum aftur sögu að húsinu, er það svo að það mun vera svo til upprunalegt í útlitli að ytra byrði, og einnig er við götu steypt girðing sem mun upprunaleg. Innra skipulagi mun hafa verið breytt árið 1988 eftir teikningum Birgis Sigurðssonar. Var þá íbúðum fjölgað, og eru síðan tvær íbúðir á neðri hæð og ein á þeirri efri. Húsið fær varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015, en er sagt stórt og ólíkt húsum í húsaröðinni (án þess þó að það sé til nokkurrar foráttu). Húsið fær plúsa fyrir upprunaleika og viðhald. Enda ekki annað að sjá, en að viðhald og umhirða hússins sé til fyrirmyndar. Sömu sögu er að segja af lóð, en á henni m.a. sjá nokkrar stæðilegar aspir. Myndin er tekin þ. 18. feb. 2018.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bjartmar Guðlaugsson. 2017. Þegar vindurinn sefur af plötunni Blá nótt. Geimsteinn útgáfa, Reykjanesbæ.

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 927, 2. okt. 1942.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 117
  • Sl. sólarhring: 187
  • Sl. viku: 726
  • Frá upphafi: 419817

Annað

  • Innlit í dag: 95
  • Innlit sl. viku: 583
  • Gestir í dag: 93
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband