Hús dagsins: Sniðgata 1

Sniðgata er ein af styttri og brattari götum bæjarins og liggur á milli Brekkugötu og Munkaþverárstrætis og skásker hallan til suðvesturs, uppfrá norðurgafli Brekkugötu 25. Við götuna standa einungis þrjú hús, byggð árin 1935- 40. Sniðgata er einungis um 80 metra löng.

Neðsta, eða öllu heldur neðra þar eð húsin eru einungis tvö,P2180715 húsið við Sniðgötu sunnanverða er hús nr. 1, tvílyft steinsteypuhús í Funkisstíl. Húsið byggði Júlíus Davíðsson um 1936-37, en hann fékk lóð og  byggingarleyfi haustið 1935 og fékk að reisa íbúðarhús úr steinsteypu, 8x9m eina hæð á kjallara. Gerð var krafa um, að burðarveggir kjallara væru 20 cm þykkir. Ári síðar er Júlíusi leyft að hafa steinloft á húsinu (hefur líklega verið gert ráð fyrir timburlofti í upphafi) og r-stein í útveggjum og loks fékk hann að breyta þaki úr skúrþaki í valmaþak. Húsakönnun 2015 segir Stefán Reykjalín hafa teiknað húsið, en upprunalegar teikningar er ekki að finna á Landupplýsingakerfisvefnum, en þar má sjá nýlegar útlits- og uppmælingarteikningar Aðalsteins V. Júlíussonar og þar kemur fram, að þær séu unnar út frá teikningum Gunnars Pálsson frá 23.9.1935. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1940, það er alltént skráð byggingarár hússins. Húsið hefur hins vegar verið risið vorið 1939, en þann 5. apríl það ár auglýsir Júlíus Davíðsson stofu til leigu í húsinu.

Sniðgata 1 er einlyft steinhús á háum kjallara, sem er að hluta óniðurgrafinn vegna mishæðar á lóð, og með einhalla aflíðandi þaki; sk. skúrþaki. Veggir eru múrhúðaðir, bárujárn á þaki og gluggapósta mætti kannski kalla H-pósta, þar eð þeir mynda nokkurs konar H, tvö lóðrétt fög nærri jöðrum og eitt lárétt opnanlegt fag á milli þeirra. Á austurhlið er útskot eða forstofubygging með steyptum tröppum að götu en og viðbygging til austurs.

Árið 1956 var byggður bílskúr á lóðinni eftir teikningum Stefáns Reykjalín og byggt við húsið til austurs, einnig eftir teikningum Stefáns en ekki er vitað hvenær þaki var breytt úr valmaþaki í einhalla aflíðandi þak; mögulega hefur það verið á sama tíma. En Sniðgata 1 er ekki eina húsið á þessum slóðum sem Júlíus Davíðsson byggði, því skömmu áður hafði hann reist Hamarstíg 1 og nokkrum árum fyrr Oddeyrargötu 22 ásamt Ásgeiri Kristjánssyni. Síðar byggði hann Munkaþverárstræti 33. Sniðgata 1 hefur alla tíð verið íbúðarhús og margir þar átt heima gegn um tíðina. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og líklega hefur sú íbúðaskipan verið mest alla tíð. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út, og segir í Húsakönnun 2015 að það sé „talsvert breytt frá upprunalegri mynd en stendur ágætlega með þeim breytingum“ (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 214). Það er nefnilega vel hægt að bæta við og breyta eldri húsum án þess að það lýti þau, sem sannast m.a. á Sniðgötu 1. Myndin er tekin þann 18. febrúar 2018.

Heimildir:Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf  

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 757, 16. sept. 1935. Fundur nr. 3. Okt. 1935. Fundur nr. 773, 27. apríl 1936. Fundur nr. 778, 7. ágúst 1936.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 412
  • Frá upphafi: 420112

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 302
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband