Hús dagsins: Bjarkarstígur 7

Eftir að hafa dvalið sl. vikur við Hríseyjargötu auk viðkomu í Glerárþorpi bregðum við okkur aftur í Bjarkarstíginn á Brekkunni. 

Síðla vetrar  1944 fékk Bragi Sigurjónsson, síðar alþingismaður og landbúnaðar- og PA090815iðnaðarráðherra, lóð vestarlega í Bjarkarstíg, næstu lóð við hornlóð við Helgamagrastræti og Bjarkarstíg. Í kjölfarið fékk byggja íbúðarhús, eina hæð á kjallara úr steinsteypu með flötu steinþaki. 9,5x8,3m að stærð auk útskota: að sunnan, 1,9x5m og vestan 1,0x4,7m. Litlu síðar fékk Bragi að breyta þaki hússins úr flötu í járnklætt valmaþak með steyptri þakrennu. Teikningarnar gerði Adam Magnússon trésmiður, sem skömmu áður hafði reist hús við Bjarkarstíg 2.

Sú lýsing sem gefin er upp í bókunum Byggingarnefndar á að mestu leyti við húsið enn í dag, það er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara (raunar er kjallari það hár að sjálfsagt mætti kalla hann jarðhæð eða segja húsið tvílyft) með valmaþaki, útskoti til vesturs og steyptum tröppum og inngangi á efri hæð í kverkinni á milli álmanna. Steining er á veggjum og bárujárn á þaki en einfaldir póstar í gluggum.

Ein af helstu heimildum höfundum við ritun greinanna hér á síðunni er gagnagrunnurinn timarit.is. Það er ekki óalgengt, að sé íbúðarhúsi frá 5. áratugnum flett upp þar að um 50-70 niðurstöður komi upp. En sé Bjarkarstíg 7  flett upp á timarit.is birtast hvorki meira né minna en 514 niðurstöður og þar af 309 frá bilinu 1950-59. Ástæðan fyrir því er sú, að á þessum árum var Bragi Sigurjónsson ritstjóri Alþýðumannsins og var heimilisfangs hans getið í hverju einasta tölublaði. Bragi gegndi hinum ýmsu störfum gegn um tíðina, við kennslu og fulltrúi við almannatryggingar og útibústjóri Útvegsbankans og ritstjóri. Hann var kjörinn á Alþingi 1967 og sat þar til 1971, og sat sem landbúnaðar- og iðnaðarráðherra 1979-80 í ríkisstjórn Benedikts Gröndal. Bragi var auk þess rithöfundur og skáld. Meðal þekktustu rita Braga er líklega safnritið Göngur og réttir sem kom út á árunum 1948-53. Bækurnar hafa, eins og nafnið gefur til kynna, að geyma ýmsar frásagnir af göngum, gangasvæðum og gangna- og réttatilhögum, að ógleymdum svaðilförum og ævintýrum gangnamanna. Bragi bjó hér ásamt konu sinni Helgu Jónsdóttur allt til æviloka, 1995 en Helga lést ári síðar. Eins og gjarnt er þegar sömu eigendur eru að húsum frá upphafi og í áratugi – í þessu tilfelli ríflega hálfa öld- er húsið lítið breytt frá upphafi en að sama skapi í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig vel hirt og gróskumikil, þar eru m.a. mörg stæðileg birkitré, sérlega viðeigandi á Bjarkarstíg, sem Bragi og Helga hafa væntanlega gróðursett á sínum tíma. Á lóðarmörkum er einnig, eins og segir í Húsakönnun  2015 „upprunaleg vönduð girðing við götu“ (Ak. bær, Teiknistofa arkitekta 2015: 31) steyptir stöplar með járnavirki. Í sömu Húsakönnun er húsið metið með varðveislugildi sem hluti af þeirri samstæðu heild sem húsaröðin við Bjarkarstíg er. Meðfylgjandi mynd er tekinn í haustblíðunni þann 9. október 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-57. Fundur nr. 969, 20. mars 1944. Fundur nr. 971, 14. Apríl  1944. Fundur nr. 983, 21. Júlí 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 413
  • Frá upphafi: 420113

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 303
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband