Hús dagsins: Hríseyjargata 22

Ég birti pistil um Hríseyjargötu 19 þann 19. og nr. 20 þann 20. og þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að fylgja því eftir. Í dag er 22. des, dagurinn eftir vetrarsólstöður, og hér Hríseyjargata 22 en byggði hinn valinkunni bátasmiður Nói Kristjánsson árið 1942. Ekki verða hins vegar pistlar um 23, 24 eða ofar einfaldlega vegna þess, að hæsta númer við Hríseyjargötu er einmitt 22. Um Hríseyjargötu 21 skrifaði ég í febrúar 2011.  

Kristján Nói Kristjánsson, kallaður Nói bátasmiður, PB180856fékk árið 1941 lóð við Hríseyjargötu, hornlóð við Eyrarveg. Fékk hann að byggja íbúðarhús, á einni hæð og kjallaralaust, 14x9m að grunnfleti, steinsteypt og þiljað að innan með timbri og þak járnklætt úr timbri. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Sú lýsing byggingarnefndar á enn við húsið; það er einlyft steinsteypuhús með valmaþaki og útskoti til norðausturs. Gluggar eru með einföldum lóðréttum fögum og bárujárn á þaki en veggir múrsléttaðir.  

Nói bátasmiður, sem var frá Innri- Lambadal í Dýrafirði, hóf að stunda skipasmíðar á Akureyri 1924 starfrækti skipasmíðastöð sína um áratugaskeið og smíðaði marga stærri og smærri báta. Þeirra stærstur var Fagriklettur sem gerður út frá Hafnarfirði, 135 tonn. Trillur, hringnótabáta og snurpubáta og „sand af árabátum“ að eigin sögn smíðaði hann, auk þess sem hann smíðaði fjóra 48 tonna báta fyrir Nýsköpunarstjórnina. Hér má sjá mynd af Gylfa EA628 sem Nói smíðaði fyrir Valtý Þorsteinsson í Rauðuvík árið 1939. Nói var sérlega afkastamikill og víðfrægur fyrir báta sína og skip og þegar Erlingur Davíðsson  heimsótti hann hingað í Hríseyjargötu 21 í fyrsta bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið árið 1972 var hann enn að, 76 ára gamall (Nói var fæddur 1896). Erlingur gaf sex árum síðar út ævisögu Nóa, sem kallaðist einfaldlega „Nói bátasmiður“.  Kristján Nói Kristjánsson lést 1983.  

Húsið, sem  er það ysta við austanverða Hríseyjargötu, er næsta lítið breytt að ytra byrði frá upphafi og í mjög góðri hirðu, þak virðist t.d. nýlegt sem og hurðir og gluggar. Það er hluti skemmtilegrar og samstæðrar heildar funkishúsa með valmaþökum frá árunum 1940-43 og kallast sú heild einnig skemmtilega á við aðra sambærilega röð, eilítið eldri við Ægisgötuna, næst vestan við. Snyrtilegir runnar eru á lóðarmörkum og er húsið og lóðin til mikillar prýði á þessum stað, horni Eyrarvegar og Hríseyjargötu. Myndin er tekin sunnudaginn 18. nóvember 2018 en þá var síðuhafi á vappi um Hríseyjargötuna með myndavélina, í haustblíðu og nærri 10 stiga hita.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 882, 22. ágúst 1941. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Erlingur Davíðsson. 1973. Aldnir hafa orðið I bindi: Nói bátasmiður. Akureyri: Skjaldborg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 52
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 459
  • Frá upphafi: 420159

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 332
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband