Hús dagsins: Holtagata 2

Holtagata 2 er byggð 1938 og stendur á horni Holtagötu og Lögbergsgötu og raunar er aðkoman að húsinu við síðarnefndu götuna. Í september 1937 fékk Halldór Halldórsson f.h.PA090821 Byggingafélags Akureyrar lóðir fyrir hús félagsins, annars vegar þrjár lóðir við Fjólugötu á Oddeyri og hins vegar staka lóð á horninu norðan Lögbergsgötu og austan Holtagötu. Húsið á síðarnefnda staðnum skyldi vera steinsteypuhús, ein hæð með valmaþaki að stærð 6,6x8,6m + 7,2x7,2m (tvær álmur). Í janúar 1938 fengu þeir Jóhannes Jóhannesson og Jón Sigurjónsson lóð Byggingafélagsins, væntanlega með byggingarleyfi inniföldu þó ekki sé það tekið fram í bókun byggingarnefndar. Reistu þeir húsið og þann 14. maí 1938 fluttu þau Jón Sigurjónsson og Birna Finnsdóttir á Holtagötu 2. Í Manntali 1940 kemur fram, að í húsinu búi 12 manns, þ.e. fjölskyldur þeirra Jóns og Jóhannesar og einnig er tekið fram sérstaklega, að það sé vikurklætt að innan.  

Holtagata 2 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Austurhluti hússins skagar eilítið til suðurs frá þeim vestari og í kverkinni er inngöngudyr og svalir. Þar er aðkoma að húsinu, sem snýr að Lögbergsgötu. Á austurálmu er einnig útskot, viðbygging til austurs með inngöngudyrum og steyptum tröppum og þar eru svalir sem liggja í boga fyrir SA horn.  Í gluggum eru krosspóstar með opnanlegum neðri hornfögum og stórir gluggar til suðurs á viðbyggingu. Glugga af því tagi hefur sá sem þetta ritar kallað „stofuglugga“ einfaldlega vegna þess að gluggar af þeirri gerð eru oftar en ekki í stofum íbúðarhúsa. Veggir hússins eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki.

Jóhannes og kona hans Karolína Jósefsdóttir og þau Jón og Birna bjuggu um áratugaskeið í húsinu, Jón allt til dánardægurs árið 1986. Árið 1953 var byggt við húsið til austurs, álma jafn há húsinu stofa á efri hæð og geymsla (bílskúr) á þeirri neðri. Hönnuður að viðbyggingunni var , líkt og að húsinu í upphafi, Guðmundur Gunnarsson. Fellur enda viðbygging vel að upprunalegu húsi, svo sem segir í Húsakönnun 2015.  Margir hafa átt heima í húsinu um lengri eða skemmri tíma þau 80 ár sem það hefur staðið. Húsið er í sérlega góðri hirðu, þak og gluggar virðast t.d. nokkuð nýlegir. Húsið tekur sem hornhús þátt í götumyndum tveggja gatna og er til mikillar prýði í mikilli og heilsteyptri  torfu funkishúsa á Norðurbrekkunni. Í áðurnefndri Húsakönnun er húsið metið til varðveislugildis 1 og „sómir sér ágætlega við Lögbergsgötu“ (Ak. bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 125). Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin í haustblíðunni þann 9. okt. 2018.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 804, þ. 4. sept. 1937. Fundur nr. 810, 25. jan. 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal á Akureyri 1940.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 17
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 424
  • Frá upphafi: 420124

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 313
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband