Hús dagsins: Holtagata 5

Holtagötu 5 reisti Snorri Pálsson múrarameistari eftir teikningum Stefáns Reykjalín PA090824árið 1939. Hann fékk lóð við vestanverða Holtagötu, aðra lóð norðan við hús Hauks Stefánssonar (þ.e. Holtagötu 1). Snorra var leyft að byggja húsið eftir framlögðum teikningum en var leyfið háð nokkrum skilyrðum þ.á.m. að „reykháfseftirlíking“ yrði felld burt og smávægilegar útlitsbreytingar yrðu gerðar í samráði við byggingarfulltrúa. Húsið er, einlyft steinsteypuhús með aflíðandi einhalla þaki undir háum þakkanti, stölluðum á hliðum. Að framan eða austan er útskot og inngangur í kverkinni á milli og einnig er lágt útskot, geymsla að norðan.  Suðvestan á húsinu er bogadregið útskot og tröppur að inngangi einnig bogadregnar. Einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í gluggum og bárujárn á þaki. Húsið er sagt „sérstakt funkis“ í Húsakönnun 2015 og má það sem sannarlega má  segja nokkuð sérstakt fyrir funkishús er hið mikla og áberandi skraut sem einkennir húsið. Ber þar helst að nefna steinhlaðinn turn á framhlið, sem er væntanlega reykháfseftirlíkingin sem Byggingarnefnd vildi burt, steinhleðslumunstur á bogadregnu útskotinu og steypt bönd ofarlega á sömu hlið.

Snorri Pálsson  sem byggði húsið, var fæddur árið 1904 á Staðarhóli í Eyjafirði (nánar tiltekið Öngulsstaðahreppi, nú Eyjafjarðarsveit) Hann bjó ekki mörg ár á Holtagötu 5, en haustið 1944 auglýsir hann húsið til sölu. Kona Snorra var Hólmfríður Ásbjarnardóttir frá Litla Hóli í Eyjafirði. Þau fluttust síðar, eða 1953, til New York þar sem Snorri vann við iðn sína. Þannig eru eflaust þó nokkur hús vestan hafs sem Snorri Pálsson hefur komið að.  Snorri lést á Akureyri árið 1983.  Ýmsir hafa búið í húsinu á eftir Snorra og Hólmfríði en húsið mun alla tíð hafa verið einbýlishús.

Holtagata 5 er í einstaklega góðri hirðu og mun nýlega hafa hlotið endurbætur. Húsið er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Það er sérlega skrautlegt og glæst og setur hleðslan, steyptu skrautlínurnar og falski skorsteinninn sérstæðan og einstakan svip á húsið. Í Húsakönnun 2015  er húsið einmitt sagt „mjög sérstakt funkishús með bogaformi, skrautlínum og hleðsluformi í múrnum“ (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 128) og hlýtur fyrir vikið + „í kladdann“ ásamt varðveislugildi 1. Lóðin er einnig vel hirt og aðlaðandi, hún er að hluta á klöpp sem aftur kallast skemmtilega á við húsið sjálft og steyptan vegg á lóðarmörkum. Hlaðin varða undir fánastöng á klöppinni sunnan við húsið er einnig til prýði. Holtagata 5 og lóðin í kring er svo sannarlega til mikillar prýði í umhverfinu og að áliti undirritaðs ein af helstu perlum Ytri Brekkunnar. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 829, þ. 21. febr. 1939. Fundur nr. 832, 18. apríl 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 47
  • Sl. viku: 739
  • Frá upphafi: 420025

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 591
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband