Hús dagsins: Holtagata 10

Holtagötu 10 mun Jóhann Franklín bakarameistari hafa byggt árið 1946, PA090829en lóðina fékk hann 1945. Nokkrum árum áður, eða í árslok 1941, hafði Guðmundur Ólafsson fengið lóðina ásamt nr. 8, en ekki byggt þarna. Ekki fann höfundur byggingarleyfi fyrir Holtagötu 10 í bókunum Byggingarnefndar en Jónas Franklín fékk allavega lóðina árið 1945 og nærtækast að gera ráð fyrir, að hann hafi byggt húsið. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.

Holtagata 10 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, útskotum til suðurs og vesturs. Í kverkinni við vesturútskot eru inngöngudyr og steyptar tröppur á efri hæð en svalir við suðurskot. Gluggar eru með lóðréttum póstum og bárujárn á þaki en veggir eru múrsléttaðir.

Húsið var frá upphafi tveir eignarhlutar, hvor á sinni hæð og árið 1946 rak Björgvin Friðriksson klæðskerastofu á neðri hæð hússins. Þremur árum síðar auglýsir Jóhann Franklín neðri hæðina til sölu, en hann bjó hins vegar þarna ásamt fjölskyldu sinni til dánardægurs árið 1978.  Eiginkona Jóhanns, María Jóhannesdóttir Franklín náði 102 ára aldri, lést 2016. Ýmsir hafa búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma þessi rúmu 70 ár sem það hefur staðið. Húsið hefur verið tvíbýli mest alla tíð, íbúðirnar á efri og neðri hæð. Árið 1995 var byggt við húsið til norðurs og byggður bílskúr á lóðinni en að öðru leyti er húsið óbreytt frá upphafi. Á lóðarmörkum er steypt girðing með járnavirki, sem er einmitt í stíl við handrið á útitröppum og svölum. Húsið hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015, og viðbygging sögð fara húsinu vel. Að byggja við hús svo haganlega falli að upprunalegu húsi, líkt og í tilfelli Holtagötu 10 er ákveðin list. Lóð er einnig vel gróin og í góðri hirðu, sunnan við húsið er um 10 metra hátt stæðilegt grenitré, sem höfundur giskar á að sé blágreni. Myndin er tekin þann 9. október 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 894, þ. 29. des. 1941. Fundur nr. 1012, 27. apríl 1945. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnór. Ég fór að skoða á loftkortinu svæðið sem þú hefur verið að fjalla um og rak þá augun í mikið glæsihýsi, Helgamagrastr.10. Hefurðu skrifað pistil um þetta hús?

P.S. Nú er búið að gera á loftkortið af Akureyri gul strik þar sem nýju "hagarnir" eru. Svona er líka gert f. sunnan. Ekki veitti af að fá ný loftkort, á Rvíkurkortinu er t.d. bygging sem brann í mars 2016.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 4.4.2019 kl. 15:01

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð.

Þetta er rétt með loftkortin, þau þarf að endurnýja reglulega, á nokkurra ára fresti þar sem bæir eru síbreytilegir. Varðandi Helgamagrastræti 10 þá er gaman að segja frá því að Helgamagrastræti er á dagskrá hjá mér á næstu vikum. Á eftir Holtagötu er það Lögbergsgata og svo reikna ég með að taka Helgamagrastrætið eins og það leggur sig. Það mun líklega taka nokkra mánuði. Miðað við áætlaða "pistlatíðni" gæti pistill um Helgamagrastræti 10 birst nærri mánaðamótum maí - júní.

Kveðja, Arnór.

Arnór Bliki Hallmundsson, 4.4.2019 kl. 23:35

3 identicon

Sæll aftur og takk f.svarið. Ég skoðaði Hagana í google-farartækinu s.l. ár, eftir að þú bentir mér á hvar þeir væru. En getur þú sagt mér hvaða konur þetta eru, Margrét og Geirþrúður? Elísabet var myndlistarkona, er það ekki rétt? Er þetta Halldóra ekkja Sig.Guðm. skólameistara? Og hvaða Kristján er þetta? Sá frá Djúpalæk eða kannski bílakóngurinn, sem beitti sér gegn því að önnur stytta yrði sett upp eftir Jónas sem gerði þá af Þórunni+Helga magra? Frá þessu segir Jón Hjaltason í Sögu Akureyrar(5).

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 5.4.2019 kl. 00:25

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl aftur, ekkert að þakka. Þetta er líkast til rétt tilgáta varðandi Elísabetarhaga, Elísabet Geirmundsdóttir var listakona sem bjó allan sinn aldur við Aðalstræti; kölluð Listakonan í Fjörunni. Ég er ekki viss hver Margrét var (mögulega Margrét Schiöth. Geirþrúður er væntanalega Eyrarlandsmaddaman, Geirþrúður Thorarenssen, húsfrú á Stóra Eyrarlandi, sem var líklega ríkasta konan í Eyjafirði um miðja 19. öld. Átti hún á tímabili stóran hluta landsvæðisins sem Akureyri sunnan ár er byggð á. Kristján held ég að sé Kristján frá Djúpalæk, er þó ekki viss. Mögulega má finna þessar upplýsingar einhvers staðar á veraldarvefnum, s.s. akureyri.is 

Kveðja, Arnór. 

Arnór Bliki Hallmundsson, 7.4.2019 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 412
  • Frá upphafi: 420112

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 302
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband