Hús dagsins: Lögbergsgata 1

Lögbergsgata er stutt og nokkuð brött gata sem liggur til vesturs og upp frá Oddeyrargötu upp að Helgamagrastræti. Neðri og eystri endi götunnar liggur nokkurn veginn beint upp af Oddagötu, á milli húsa nr. 36 og 38 við Oddeyrargötu. Gatan liggur samsíða Þingvallastræti og liggja baklóðir gatnanna saman. Húsin við götuna eru byggð á árunum 1938-46 og  standa  þau öll sunnan megin við götuna og bera oddatölunúmer en norðan götunnar eru hornhús við Hlíðargötu og Holtagötu. En þær götur liggja á milli Lögbergsgötu í suðri og Hamarstígs í norðri. Lögbergsgata er um 150 metrar að lengd.

Lögbergsgata 1

Árið 1938 fær Steingrímur Kristjánsson austustu lóð P2100881sunnan Lögbergsgötu og byggingarleyfi fyrir steinsteyptu húsi með flötu þaki. Það varð reyndar svo, eftir því sem hverfið milli Þingvallastrætis og Hamarstígs byggðist upp, að öll hús við Lögbergsgötu stóðu sunnan hennar, en norðanmegin voru hornlóðir Hlíðargötu og Holtagötu. Árið 1939 var hús Steingríms risið af grunni, en teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson.

 Lögbergsgata 1 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, jafnvel mætti kalla húsið tvílyft með lágu valmaþaki, bárujárni á þaki og múrhúð á veggjum. Lóðréttir póstar eru í gluggum og á austurhlið eru tröppur upp að inngöngudyrum á hæð og dyraskýli yfir þeim. Horngluggar í anda funkisstefnunnar, sem alls ráðandi var undir lok fjórða áratugar 20. aldar, eru til SV á húsinu.

Steingrímur Kristjánsson, sá er byggði húsið, var lengst af bílstjóri og bifvélavirki, og var með þeim fyrstu hér í bæ sem tóku bifreiðapróf en síðar sneri hann sér að húsgagnabólstrun. Eiginkona Steingríms var Guðrún P. Hansen.  Stundaði Steingrímur iðn sína hér og árið 1952 auglýsir hann framleiðslu á rúllugardínum hér. Um miðja 20. öld var þannig hægt að verða sér út um m.a. bólstrun, rúllugardínur o.fl. á efri hæð og kjóla, blússur og kvenhatta á neðri hæð Lögbergsgötu 1. En á neðri hæð bjó tengdamóðir Steingríms, Sesselja Stefánsdóttir Hansen ásamt dætrum sínum Soffíu og Mörtu Nielsen.  Sú síðarnefnda tók að sér kjóla-   blússusaum og fékkst auk þess við kvenhatta. Steingrímur bjó hér til æviloka, en hann lést langt fyrir aldur fram í ársbyrjun 1962, fæddur 1899. Síðan hafa fjölmargir búið í húsinu. Húsið var upprunalega með flötu þaki, en árið 1999 var byggt á það valmaþak með 14° halla eftir teikningum Árna Gunnars Kristjánssonar og rúmum áratug síðar dyraskýli á austurhlið, eftir teikningum Águsts Hafsteinssonar. Að öðru leyti er húsið lítið breytt frá upphafi og er í góðri hirðu. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 10. febrúar 2019.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 823, þ. 19. sept 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 631
  • Frá upphafi: 420104

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 477
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband