Hús dagsins: Lögbergsgata 3

Það var í febrúar 1938 að Gunnar Eiríksson leigðaP2100882 byggingarlóð sunnan „Lögbergsstrætis“ sem nefnt er svo í bókunum Byggingarnefndar, aðra lóð neðan frá. Þess má hins vegar geta, í þessu samhengi, að heitið Lögbergsgata er frá maí 1928, en veganefnd gaf þá fjölmörgum götum skv. nýju skipulagi nöfn. Lögbergsstræti finnst hins vegar ekki á timarit.is. Gunnar fékk í kjölfarið að byggja íbúðarhús úr steinsteypu á kjallara undir austurhluta, útveggir úr r-steini og stærð hússins 10,6x8,5m. Teikningarnar að húsinu gerði Friðjón Axfjörð. Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi en þar má hins vegar finna teikningar Mikaels Jóhannssonar af breytingum á þaki hússins frá 1960.  Ekki virðast þær breytingar hafa verið stórvægilegar.

Lögbergsgata 3 er dæmi um látlaust og einfalt funkishús, einlyft steinsteypuhús á kjallara með einhalla, aflíðandi þak. Veggir eru múrsléttaðir og pappi á þaki en einfaldir þverpóstar að neðanverðu í gluggum. Horngluggar eru til SV og NA. Á framhlið, í kverkinni milli útskots til norðurs eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim.  

Margir hafa átt húsið og búið svo sem gengur og gerist með 80 ára gömul hús. Á fimmta áratugnum stundaði Þorvaldur Jónsson bókbindari iðn sína þarna og auglýsti t.d. gyllingar á innbundnar bækur. En í húsinu bjuggu lengi vel þau Erlingur Davíðsson frá Stóru - Hámundarstöðum á Árskógsströnd og Katrín Kristjánsdóttir frá Eyvík á Tjörnesi. Erlingur var lengi vel ritstjóri Dags en einnig mjög afkastamikill rithöfundur og eftir hann liggja fjölmargar bækur, ævisögur og æviágrip og ber þar helst að nefna bókaflokkinn Aldnir hafa orðið. En þær bækur,  komu út hjá bókaútgáfunni Skjaldborg frá upphafi 8. áratugarins  til loka þess 9. og geyma frásagnir á annað hundrað karla og kvenna, sem flest voru fædd áratugina í kring um aldamótin 1900. Þar sögðu frá bændur, sjómenn, forstjórar, verkamenn, kennarar, hannyrðakonur, alþingismenn, húsmæður o.fl, valinkunnir, óþekktir og víðfrægir; einfaldlega fólk úr öllum stéttum og lögum samfélagsins. Má nærri geta, hversu dýrmætur heimildasjóður þessar bækur eru orðnar öllum þessum árum síðar. Hefur síðuhafi ósjaldan flett upp í Öldnum hafa orðið við vinnslu pistlanna hér, og mæli ég svo sannarlega með þessum bókum.

Lögbergsgata 3 er dæmi um einfalt funkishús, látlaust og smekklegt og svo til óbreytt frá upphafi en engu að síður í góðri hirðu. Húsið er í góðri hirðu, sem og lóðin og fær húsið varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015. Myndin er tekin sunnudaginn 10. febrúar 2019.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 811, þ. 22. feb. 1938. Fundur nr. 815, 23. apríl 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 166
  • Sl. viku: 741
  • Frá upphafi: 419877

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 586
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband