Hús dagsins: Lögmannshlíðarkirkja

Í síðustu viku lauk ég umfjöllun um hús við Lögbergsgötu, sem eru aðeins fimm að tölu og næst á dagskrá er Helgamagrastrætið. Þar eru húsin miklu fleiri og líklega mun umfjöllunin um hana taka einhverja mánuði, hugsanlega áfangaskipt. En áður en ég færi mig úr Lögbergsgötunni bregðum við okkur upp fyrir þéttbýlið upp að Lögmannshlíð (úr Lögbergs- í Lögmanns-...allt frekar löglegt hér wink). En í Lögmannshlíð stendur geðþekk 19. aldar timburkirkja, elsta bygging Akureyrar norðan Glerár.

Lögmannshlíð er höfuðból og kirkjustaður frá fornu fari, P6190773og liggur hátt í hlíðunum ofan Glerárþorps, syðst í Kræklingahlíð við rætur Hlíðarfjalls, u.þ.b. 4 km frá miðbæ Akureyrar. Ekki hefur verið búskapur á Lögmannshlíð í hartnær hálfa öld og öll íbúðar- og útihús hafa verið jöfnuð við jörðu. En kirkja stendur enn á Lögmannshlíð sem og kirkjugarður, ásamt áhaldahúsi. Lögmannshlíðarkirkja er líklega önnur elsta kirkjan sem stendur innan sveitarfélagamarka Akureyrar. En kirkjan var byggð árið 1860 af þeim Jóhanni Einarssyni frá Syðri Haga á Árskógsströnd og Þorsteini Daníelssyni frá Skipalóni. Hafði sá síðarnefndi yfirumsjón og eftirlit með smíðinni en sá fyrrnefndi var yfirsmiður.

Lögmannshlíðarkirkja er timburhús á steyptum grunni,  með háu risi og forkirkju og turni til vesturs skv. hefðinni, klædd slagþili eða reisifjöl á veggjum og bárujárni á þaki. Krosspóstar eru í gluggum. Á vesturhlið sunnarlega er smár kvistur með einhalla þaki. Kirkjan er 10,10x5,73 að grunnfleti, auk turnbyggingar 1,86x3,22m.

Lögmannshlíðarkirkju vígði sr. Sveinbjörn Hallgrímsson P6190774í Glæsibæ þann 30. nóvember 1860. Var kirkjan þá í raun ekki fullgerð, og þegar hún var vísiteruð eða tekin út árið 1862 af sr. Daníel Halldórssyni prófasti var „[...] þakið ennþá einfalt og er það skarsúð, en vantar ytra þak“ (Guðmundur, Jóhannes og Kristján 1990: 682). Þess má til gamans að geta, að vísitasía kirkjunnar fór fram þann 29. ágúst 1862 en þann sama dag var Akureyrarkaupstaður stofnaður. Það var raunar ekki fyrr en árið 1866 að endanlegur reikningur var gefinn út fyrir kirkjusmíðinni, og kostaði hún þá 1157 ríkisdali og 11 skildinga. Ekki ætlar sá sem þetta ritar að reyna að snara þessari upphæð á núvirði. Árið 1877 vísiteraði sr. Davíð Guðmundsson prófastur Lögmannshlíðarkirkju og gerði athugasemdir við frágang kirkjuklukkna sem staðsettar voru á lofbita eða skör framarlega í kirkju. Mun hann hafa ítrekað þetta atriði á næstu árum, en úr þessu rættist árið 1886 þegar byggð var forkirkja sem hýsti klukkurnar á viðeigandi og fullnægjandi hátt. Sex árum síðar var turninn byggður á forkirkjuna og um svipað leyti kvisturinn á suðurþekju. Þannig mun kirkjan hafa fengið núverandi útlit árið 1892. Kirkjan hefur vitaskuld hlotið hinar ýmsu endurbætur, bæði að utan sem innan. Árið 1931 var kirkjan endurbætt hátt og lágt og það í orðsins fyllstu merkingu því þá var grunnurinn styrktur og múrhúðaður og klæðning sett á þak,og á sjötta áratugnum var kirkjan raflýst og máluð að utan. Svo fátt eitt sé nefnt.  Á meðal gripa og muna í kirkjunni má nefna altaristöflu frá 1648, predikunarstól frá 1781 auk þess sem orgel frá 1929 mun enn vera þar í notkun.

Lögmannshlíðarsókn tilheyrði framan af, og þegar núverandi kirkja var byggð, Glæsibæjarprestakalli, var útkirkja frá Glæsibæ en um 1880 var hún lögð undir Akureyrarprestakall. Um svipað leyti tók dreifbýli að byggjast í Glerárþorpi og þjónaði kirkjan sem guðshús Glerárþorpsbúa allar götur síðan. Árið 1981 varð til Glerárprestakall og var kirkja þess í Lögmannshlíð en fljótlega eftir það hófst bygging hinnar veglegu Glerárkirkju, sem vígð var 1987. En hið tæplega 160 ára guðshús í Lögmannshlíð er þó enn í notkun og fer þar fram helgihald að jafnaði einu sinni í mánuði fyrir sumartímann, auk ýmissa minni athafna. Kirkjunni er mjög vel við haldið og er sannkölluð perla sem og kirkjugarðurinn. Um 1990 var byggt  aðstöðuhús vestan kirkjunnar sem þjónar einnig sem salernisaðstaða auk afdreps fyrir presta sem þarna messa. Þar er einnig malbikað og hellulagt bílaplan og allt er vel upplýst.  Lögmannshlíðarkirkja var friðlýst skv. þjóðminjalögum árið 1990. Myndirnar eru teknar þann 19. júní 2018.

Heimildir: Finnur Birgisson. 2007. Lögmannshlíðarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson, ristj: Kirkjur Íslands, 10. Bindi. Reykjavík: Minjastofnun Íslands.

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Aðrar heimildir, sjá tengla í texta.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 413
  • Frá upphafi: 420113

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 303
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband