Hús dagsins: Þingvallastræti 16

Af Lögbergsgötu er ætlunin að halda út Helgamagrastrætið í umfjölluninni hér. En áður en þangað er haldið er eiginlega nauðsynlegt, samhengisins vegna, að taka fyrir hornhús þeirrar götu og Þingvallastrætis. En Þingvallastræti 16 tekur nefnilega þátt í mikilli og glæstri funkishúsaröð við ofanvert Helgamagrastrætið. 

P2100887

Síðsumars árið 1935 voru þéttbýlismörk Akureyrar nokkurn veginn við Sundlaugina, og húsaröðina á móti en efst við strætið stóð hús nr. 14 en vestan þess hús var fyrirhuguð gatan Helgamagrastræti.  Það var einmitt um það leyti eða í ágústlok 1935 sem Stefán Árnason fékk úthlutað lóðinni á horni Þingvallastrætis og Helgamagrastrætis. Bygginganefnd ákvað hins vegar að fresta ákvörðum um það, við hvora götun húsið stæði „uns fyrir liggur uppdráttur“. (Bygg.nefnd Ak. 1935:756). Rúmum mánuði síðar var Stefáni veitt leyfi til að byggja hús á lóð sinni , 8,9x8,9m að stærð, steinsteypt á tveimur hæðum á lágum grunni. Þá lá og fyrir, að húsið skyldi standa við Þingvallastræti. Teikningarnar að húsinu gerði Þórir Baldvinsson.

Þingvallastræti 16 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og á lágum grunni. Útskot eða viðbygging er á norðurhlið hússins en á SA horni hússins eru svalir á annarri hæð. Pappi er á þaki, einfaldir lóðréttir póstar í gluggum og perluákast á veggjum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs en í Húsakönnun 2015 flokkast það undir „sérstakt funkis“.  Stefán Árnason og Helga Stephensen, sem byggðu húsið, bjuggu hér í rúman aldarfjórðung. Hann var frá Skáldalæk í Svarfaðardal en hún var fædd á Lágafelli í Mosfellssveit.  Stefán gegndi lengi vel stöðu framkvæmdastjóra Almennra Trygginga hér í bæ. Stefán og Helga bjuggu hér í rúman aldarfjórðung, en þau  fluttust til Reykjavíkur árið 1963.  Stefán lést árið 1966, en Helga árið 1986. Einhvern tíma var byggt við húsið til norðurs, en ekki liggur fyrir hvenær eða hver teiknaði. Á mynd sem tekin er yfir Gilið og Brekkuna árið 1958, og finna má á bls. 148 í Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs, virðist viðbyggingin vera risin.

En Þingvallastræti 16 er traustlegt og glæst hús í góðri hirðu. Húsið hefur 2. stigs varðveislugildi skv. Húsakönnun 2015 sem hluti merkrar heildar. Það er nefnilega hluti af einni heillegri og merkri funkishúsatorfu Akureyrar, sem stendur við Helgamagrastrætið. Um er að ræða hús, byggð eftir sömu eða sambærilegum teikningum Þóris Baldvinssonar og byggð af félagsmönnum  Samvinnubyggingafélagsins. Um þessi hús segir í húsakönnun að þau séu „verðugir fulltrúar funkisstílsins og mynda heild sem vert er að varðveita“ (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015: 226). Lóðin er einnig vel gróin og þar er margt trjáa svo sem greni og reynitré og aspir og mikill runnagróður áberandi á suðurlóð, sem snýr að Þingvallastræti. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki, væntanlega frá upphafi.  Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 10. febrúar 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr.756, 30. ágúst 1935. Fundur nr. 760, 3. okt. 1935. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 13
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 430
  • Frá upphafi: 417799

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 241
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband