Hús dagsins: Helgamagrastræti 1

Helgamagrastræti er nokkuð löng gata sem þræðir Ytri Brekkuna (Norðurbrekku) frá Hamarkotsklöppum í norðri að Þingvallastræti í suðri. Mót Þingvallastrætis og Helgamagrastrætis eru við Sundlaugina og suðurendi götunnar er nokkurn veginn beint á móti vatnsrennibrautunum miklu á laugarsvæðinu. Helgamagrastræti er kennt við landnámsmann Eyjafjarðar, Helga magra og liggur samsíða Þórunnarstræti, sem er kennt við konu hans Þórunni hyrnu. Á elstu skipulagsuppdráttum af Akureyri frá fyrstu árum 20. aldar  má sjá götuna Helgastræti áætlaða samsíða og austan Þórunnarstrætis. Helgastræti kemur fyrst fyrir á prenti í grein Páls Briem Um Skipulag bæja í blaðinu Norðurlandi, snemma árs 1904. Það er þó ekki fyrr en 1928 að ákvörðuð er gatan Helga-magrastræti á fundi veganefndar. Þá er götuheitið skrifað í tveimur orðum með bandstriki og tíðkaðist það almennt fyrstu árin og tíðkast raunar enn. Gagnagrunnurinn timarit.is finnur 417 dæmi um eldri ritháttinn með bandstriki en 2400 án bandstriks. Elsta heimildin sem finna má á timarit.is þar sem Helgamagrastræti kemur fyrir í einu orði er frá haustinu 1939. Þess má geta að umrædd heimild er auglýsing frá  föðurafa þess sem þetta ritar, Kristni Sigmundssyni, þar sem hann býður kartöflur til sölu á þáverandi heimili sínu, Helgamagrastræti 3. Helgamagrastræti er um 700 metrar að lengd.

Helgamagrastræti 1

Öll húsin við vestanvert Helgamagrastrætið, á milli Þingvallastrætis og Hamarstígs P2240886(og nokkur austanmegin líka) eru byggð árin 1936-37 á vegum Samvinnubyggingafélagsins, eftir sömu teikningu. En það var um miðjan september 1935 sem Vilhjálmur Þór sótti um, fyrir hönd áðurnefnds Samvinnubyggingafélagsins, byggingarlóðir beggja vegna Helgamagrastrætis. Gatan var þá ekki tilbúin, því Byggingarnefnd óskaði eftir því að Helgamagrastrætið yrði „lögð svo fljótt sem auðið er“. (B.nefnd Ak. 1935, 757). Ekki stóð á því, að byggingafélagið fengi lóðirnar, því aðeins nokkrum dögum síðar var félaginu veitt leyfi til að byggja hús á lóðunum. Húsin skyldu vera tvær hæðir með flötu þaki og kjallaralaus, veggir og loft úr steinsteypu, 7,6x8,10m að grunnfleti. Húsin voru byggð eftir teikningu Þóris Baldvinssonar

Á síðari hluta ársins 1935 var Samvinnubyggingafélagið komið með lóðir og byggingarleyfi fyrir Svo vildi til, að fyrsta verk Byggingarnefndar á árinu 1936 var að yfirfæra lóðir  Byggingarfélagsins til nokkurra félagsmanna. Var það gert á fundi nr. 767, þann 4. janúar 1936. Lóð nr. 1 fékk Kjartan Sæmundsson, og lauk hann við byggingu hússins. Kjartan var fæddur á Ólafsfirði, og kona hans var Ásta Bjarnadóttir frá Húsavík. Kjartan fluttist nokkrum síðar (1942) til Bandaríkjanna þar sem fékkst við vöruinnkaup á vegum SíS. Hann varð síðar deildarstjóri við búsáhaldadeild SíS og kaupfélagsstjóri KRON frá 1957. Kjartan Sæmundsson lést árið 1963, langt fyrir aldur fram. Kjartan var fæddur á Ólafsfirði árið 1911, og kona hans var Ásta Bjarnadóttir frá Húsavík.

Helgamagrastræti 1 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, sem og svalir á efri hæð á SA horni. Perluákast eða gróf steining er á veggjum og eru þeir málaðir en bárujárn á þaki. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, einbýli og er að mestu óbreytt frá upphafi. Árið 1954 var þó byggt á húsið valmaþak, en upprunalega var þakið einhalla, aflíðandi undir kanti. Helgamagrastræti 1 er í senn einfalt og látlaust, í anda funkisstílsins en engu að síður stórglæsilegt hús. Það er í góðri hirðu og sómir sér vel í þessari heilsteyptu og samstæðu götumynd frá fjórða áratug síðustu aldar. Þá er lóðin vel hirt og gróin, þar eru m.a. gróskumikil reynitré.

Húsakönnun 2015 metur þessa húsaröð við ofanvert Helgamagrastræti sem varðveisluverða og merkilega  Helgamagrastræti 1 hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 2, sem hluti af mikilvægri heild. Þessi umrædda heild við Helgamagrastræti, funkishúsin eru sögð „[...] verðugir fulltrúar funkisstílsins og mynda heild sem vert er að varðveita.“ (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 66). Sá sem þetta ritar tekur svo sannarlega undir hvert orð þarna. Myndin er tekin þann 24. Febrúar 2019.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41Fundur nr.758, 17. sept 1935. Fundur nr. 759, 21. okt. 1935. Fundur nr. 767, 4. jan. 1936. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 754
  • Frá upphafi: 420040

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 605
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband