Hús dagsins: Helgamagrastræti 3

Árið 1935 fékk Samvinnubyggingafélagið byggingarlóðirnar við Helgamagrastræti P2240888milli Þingvallastrætis og Hamarstígs, ásamt byggingarleyfi fyrir húsum eftir teikningum Þórir Baldvinsson. Kaupin gerðust þannig á eyrinni- eða kannski öllu heldur Brekkunni í þessu tilfelli, að félagið yfirfærði eða afsalaði sér lóðir og húsgrunna til félagsmanna sem í kjölfarið byggðu húsin. Var það fyrsta verk Bygginganefndar Akureyrar á árinu 1936 að skrá þessar lóðir Byggingafélagsins til félagsmanna, en það er fyrsti liður fundargerðar frá 4. janúar það ár. Sá sem fékk lóð nr. 3 var Björn Júlíusson pípulagningamaður, starfandi hjá KEA. Húsið mun hafa verið fullbyggt árið 1937.

Helgamagrastræti 3 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með flötu þaki. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs, sem og svalir á efri hæð á SA horni. Á vesturhlið eða bakhlið er viðbygging, ein hæð með flötu þaki og steypt verönd framan við hana.  Perluákast eða gróf steining er á veggjum og eru þeir málaðir en pappi er á þaki. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og stór og víður gluggi til suðurs á viðbyggingu. 

Björn Júlíusson, sem byggði Helgamagrastræti 3, var fæddur á Syðra Garðshorni í Svarfaðardal og kona hans var Snjólaug Hjörleifsdóttir, fædd á Knappsstöðum í Stíflu, og bjuggu þau hér í um tvo áratugi uns þau fluttu að Laugahlíð í Svarfaðardal. Hér segir Júlíus Daníelsson í minningargrein um Björn, að í Helgamagrastræti hjá þeim Birni og Snjólaugu hafi verið „húsrými og hjartarými“ og þau afburða vinsæl og gestrisin. Árin 1938-40 bjó einnig í Helgamagrastræti 3 ungur maður frá Ytra-Hóli í Öngulsstaðahreppi sem ræktaði og seldi kartöflur og ýmis konar grænmeti. Grænmetissalinn í Helgamagrastræti 3 var föðurafi þess sem þetta ritar, Kristinn Sigmundsson, en hann fluttist 1940 að Arnarhóli í Öngulsstaðahreppi og varð þar annálaður góðbóndi í hartnær hálfa öld.  Ýmsir hafa búið í húsinu, í fyrstu voru tvær íbúðir í húsinu en síðustu áratugina hefur húsið verið einbýli.

Viðbyggingin er nokkuð nýleg, byggð árið 2007 eftir teikningum Loga Más Einarsson og er hún í mjög góðu samræmi við upprunalega gerð hússins. Það er nefnilega ekki alltaf einfalt að byggja við hús þannig að vel falli að upprunalegu húsi, en í þessu tilviki hefur það tekist stórkostlega. Í Húsakönnun 2015 er viðbyggingin einmitt sögð „[...] látlaus og fer húsinu ágætlega“ og fékk hún Byggingarlistarverðlaun Akureyrarbæjar árið 2007 (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta, 2015: 73).

Helgamagrastræti 3 hlýtur í Húsakönnun 2. stigs varðveislugildi sem hluti þeirrar merku heildar, sem funkishúsaröð Samvinnubyggingafélagsins er. Húsið er í mjög góðri hirðu og virðist raunar sem nýtt (enda vitaskuld nýlegt að hluta, þ.e. viðbygging) og sama er að segja af lóð sem er gróin og vel hirt. Gróandinn er að sjálfsögðu ekki mjög áberandi á þessari mynd, þar sem er tekin síðla í febrúar, nánar til tekið þann tuttugasta og fjórða, árið 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 767, þ. 4. jan. 1936. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 167
  • Sl. viku: 741
  • Frá upphafi: 419877

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 586
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband